Gunnhildur Birna Björnsdóttir

mbl.is - 25. maí 2021 | Minningargreinar 

Gunnhildur Björnsdóttir fæddist á Siglufirði 12. júlí 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn 11. maí 2021. Foreldrar Birnu voru Björn Marinó Dúason frá Ólafsfirði, f. 1916, d. 2009, og Ólafía Margrét Bjarnadóttir, f. 1918, d. 1977.

Birna var þriðja í röð fjögurra systra;

 • Steinunn Dú Björnsdóttir, f. 1938, d. 1996,
 • Salóme Herdís Björnsdóttir, f. 1939, og
 • Svanhildur Edda Björnsdóttir, f. 1943, d. 2010.

Fyrri eiginmaður Birnu var Ottó David Tynes, f. 13. apríl 1937, d. 2. júlí 2018.
Börn Birnu og Ottós eru:

1) Sverrir, f. 7. júní 1960, kvæntur Ásu Kolka, f. 2. febrúar 1951. Sonur Sverris af fyrra hjónabandi erAxel Ingi Tynes, f. 1996.
Gunnhildur Birna Björnsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Gunnhildur Birna Björnsdóttir - ókunnur ljósmyndari

2) Salome, f. 31. maí 1961, gift Pálma Kristinssyni, f. 12. maí 1957.
Börn Salome og Pálma eru:
 • a) Bjarni Þór, f. 1991, d. 2018,
 • b) Ágúst Ottó, f. 1995, og
 • c) Birna Lind, f. 2000.
  Börn Pálma úr fyrra hjónabandi eru
 • Hjalti Þór, f. 1981, og
 • Elísabet, f. 1986.

Seinni eiginmaður Birnu er Hörður Reynir Jónsson, f. 8. október 1930.
Synir Birnu og Reynis eru:

1) Jón Reynir, f. 1. apríl 1971,
2) Bjarni Birkir, f. 20 júlí 1974, kvæntur Rakel Guðmundsdóttur, f. 4. desember 1980.
Börn þeirra eru
 • a) Bjarki Reynir, f. 2008, og
 • b) Sara Björk, f. 2015.

Birna ólst upp hjá móðurforeldrum sínum á Hávallagötu 25 frá fjögurra ára aldri. Þau hétu Salóme Jónsdóttir frá Súðavík, f. 1899, d. 1985, og Bjarni H.G. Pálmason, f. 1887, d. 1957. Þau ólu einnig upp frá fæðingu Salóme Herdísi, systur Birnu.

Birna gekk í Melaskólann og Kvennaskólann í Reykjavík. Hún hóf störf í Landsbanka Íslands 18 ára og vann þar alla starfsævina, með nokkurra ára hléum. Fyrstu árin vann hún sem gjaldkeri í Vegamótaútibúi en lengst af var hún forstöðumaður í aðalútibúi Landsbankans í Austurstræti. Birna starfaði í Kvenfélaginu Hringnum frá 1983. Þar vann hún mikið og óeigingjarnt sjálfboðastarf og gegndi formennsku í fjölmörgum nefndum fyrir Hringinn, en félagið vinnur að líknar- og mannúðarmálum í þágu barna.

Útför Birnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 25. maí 2021, klukkan 13.

Streymt verður frá útförinni á vefslóðinni - https://sonik.is/streymi - Streymishlekk má finna á: https://www.mbl.is/andlat

Elsku hjartans mamma mín hefur kvatt þennan heim, þann heim sem hún átti erfitt með að skilja síðustu mánuðina í sínu lífi. Illvígur sjúkdómur hafði tekið sér bólfestu í huga hennar og smám saman „rænt“ henni frá okkur. Þegar svo samverustundunum eru settar skorður vegna heimsfaraldurs verður sársaukinn enn meiri að fá ekki að umvefja og faðma að vild. En við nýttum tímann eins vel og við gátum.

Mamma var svo lánsöm að fá pláss á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi í janúar sl. og upp frá því gat Reynir heimsótt elskuna sína oft á dag, sem og við börnin hennar. Það var okkur dýrmætt að kveðjustundin var á Seltjarnarnesinu, á þeim stað þar sem hún bjó hvað lengst. Mamma og Reynir höfðu búið á Sævargörðum 3 frá 1978 og þar býr Reynir enn.

Samband okkar mömmu var alla tíð einstaklega kærleiksríkt og náið. Hún var mér allt. Það var svo margt í fari mömmu sem ég dáðist að og hef reynt að tileinka mér. Hún var allt í senn, ástrík, umhyggjusöm, ósérhlífin, dugleg og drífandi. Það sýndi sig hvað best í starfi hennar fyrir Kvenfélagið Hringinn, en þar vann mamma óeigingjarnt starf í hartnær 40 ár. Hún var tilbúin að gera allt í þágu veikra barna og lagði svo sannarlega sitt af mörkum á þeim vettvangi.

Það góða starf sem Hringskonur hafa innt af hendi í gegnum árin er með ólíkindum. Barnaspítalasjóður Hringsins hefur bæði lagt til fjármagn til byggingar barnaspítala – sem kenndur er við Hringinn – sem og lagt til fé til tækjakaupa á spítalann. Þeirra hugsjón er að styðja við veik börn og aðstandendur þeirra. Í starfinu hjá Hringnum var mamma á heimavelli. Hún elskaði öll börn og barnabörnin áttu auðvitað hug hennar allan. Hún var alltaf boðin og búin að passa þau, knúsa og faðma. Það eru miklir mannkostir að geta af einlægni miðlað ást og umhyggju til annarra eins og mamma gerði. Að gleðja aðra og sýna samhug var henni eðlislægt.

Við mamma áttum okkar gæðastundir, bara við tvær. Við fórum saman á tónleika, m.a. á Jólasöngva Kórs Langholtskirkju á hverju ári í yfir 20 ár. Ég man líka þá stund þegar við sáum Sissel Kirkjebø í Hörpu og við grétum báðar yfir Pie Jesu, báðar jafn hrifnæmar yfir fallegri tónlist. Þau Reynir komu með mér í kórferðalag til Vínarborgar 2007, sem var ógleymanleg ferð. Við fórum í Vínaróperuna og nutum náttúrufegurðarinnar í Austurríki. Utanlandsferðirnar með fjölskyldunni voru líka margar og eftirminnilegar. Allar þessar dýrmætu minningar og samverustundir verða vel varðveittar í hjörtum okkar.

Elsku mamma, fyrirmyndin mín í lífinu. Hafðu þökk fyrir allt og allt. Ég elska þig af öllu hjarta og bið Guð að geyma þig.

Þín Salome (Sallý)
------------------------------------------------------

Mikið er sárt að kveðja þig elsku mamma mín, en á sama tíma er ég svo þakklátur fyrir allar minningarnar og að hafa verið heima á Íslandi síðustu daga, náð dýrmætum stundum með þér á hjúkrunarheimilinu og kvatt þig.

Hjartahlýja þín og hjálpsemi leyndist engum sem umgekkst þig eða hitti. Þú máttir ekkert aumt sjá og sást alltaf það góða í öllu og öllum. Eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka, var vinnusemi þín í fjáröflun fyrir Barnaspítala Hringsins í tæp 40 ár, hvort sem það var sala jólakorta, kökubakstur eða söfnunarbaukar, alltaf varstu reiðubúin í verkefnin og gafst þér tíma til að sinna því sem var þér svo kært; að hjálpa börnum. Og í rauninni hverjum sem var sem á þurfti að halda hverju sinni.

Minningin um ást þína og umhyggju fyrir fjölskyldunni, pabba, börnunum þínum, barnabörnum og tengdabörnum lifir að eilífu.

Ég trúi að þú sért á góðum stað, umvafin börnum. Hvíl í friði elsku mamma,

 • Vönduð er sálin, velvildin mest,
 • vinkona, móðir og amma.
 • Minningin mæta í hjartanu fest,
 • ég elska þig, ástkæra mamma.

 • Þakka þér kærleikann, hjartalag hlýtt,
 • af gæsku þú gafst yl og hlýju.
 • í heimi guðsenglanna hafðu það blítt,
 • uns hittumst við aftur að nýju.

(Höf. ók.)

Bjarni Birkir.
---------------------------------------------------------

Þegar ég hugsa um Sævargarða 3 þyrlast upp óteljandi minningar. Í þessu fallega húsi bjó Baddi minn þegar ég fyrst hitti hann og þarna var mér fyrst tekið opnum örmum af elsku tengdaforeldrum mínum, Birnu og Reyni. Hér mætti ég fyrst þessari miklu hlýju og glæsilega heimilishaldi sem var svo einkennandi fyrir tengdamömmu mína.

Jafnvel kjötbollur með brúnni sósu urðu að hátíðarrétti í meðförum Birnu og umgjörðin einstök. Hvað þá þegar það voru veislur; stíllinn, borðbúnaðurinn og fágunin sem lýsti svo vel reisn og höfðingsskap þeirra hjóna. Það virtist svo sjálfsagt hvað allt var fínt, pússað og fægt, líkt og engin fyrirhöfn lægi þar að baki.

Birna tengdamamma mín var ekki einungis gædd gæsku og umhyggju heldur bjó hún einnig yfir ótrúlegum dugnaði og hörku þegar á þurfti að halda. Margir minnast hennar úr Landsbankanum í Austurstræti þar sem hún vann störf sín af einstakri alúð og ábyrgð svo eftir var tekið. Það var þessi reisn og fágaða framkoma sem menn minnast þegar þeir hugsa til hennar í þeirri stöðu.

En það voru ekki bara viðskiptavinir Landsbankans sem nutu krafta hennar og umhyggju heldur einnig skjólstæðingar Barnaspítala Hringsins, því hverja frístund notaði tengdamamma til þess að vinna Hringnum allt sem hún gat og kunni. Þar eignaðist hún einnig dýrmætt samstarfsfólk og vini með sömu hjartagæsku og hún hafði sjálf til að bera. En mest allra nutu þó börnin hennar, barnabörn og við tengdabörnin.

Sjálf munum við, fjölskyldan hennar, hlýjuna þegar hún greip þétt um hendur manns með mjúku höndunum sínum, horfði einlægt á mann og spurði; ertu viss um að ég geti ekki gert eitthvað fyrir þig? Svipur sem túlkaði allt í senn, áhuga, umhyggju og ástúð. Það líkast til syrgir enginn tengdamömmu eins sárt og Reynir tengdapabbi minn því gagnkvæm ást þeirra hvert til annars alla áratugina fór ekki fram hjá neinum manni.

Við hjónin höfðum vonað svo innilega að þau kæmu í eina lokaferð til okkar til Kaupmannahafnar, ekki síst eftir að við fluttum í framtíðarhúsnæðið okkar. Bjarki og Sara höfðu hlakkað til að fá afa og ömmu til okkar einu sinni enn, enda engin venjuleg hátíð í bæ þegar þau komu færandi hendi með gjafir (sérstaklega súkkulaðirúsínurnar), ást og kærleika.

Það var því hnípinn hópur sem sat og grét þegar Baddi minn hringdi í okkur til Danmerkur og sagði að amma Birna væri farin til Guðs. Ekki þarf að taka fram hve óendanlega sárt það er að geta ekki komið til Íslands og fylgt henni vegna fársins sem enn geisar, en ég er svo þakklát að Baddi minn náði að fara þangað og vera með foreldrum sínum síðustu ævidaga mömmu sinnar.

Ég bið góðan Guð að blessa og styrkja elsku Reyni tengdapabba, Sverri, Sallý, Nonna og elsku Badda minn í sárri sorginni. Sjálf kveð ég og faðma í anda yndislega tengdamömmu sem tók mér alltaf opnum, hlýjum örmum og örlæti síns stóra hjarta.

Hvíl í friði elsku Birna.

Þín Rakel, Bjarki Reynir og Sara Björk.
--------------------------------------------------------------

Það er komið að kveðjustund eftir rúmlega sjötíu ára kynni, en við Birna kynntumst í sjö ára bekk í Melaskóla. Alla tíð síðan höfum við verið vinkonur

og ýmislegt brallað saman. Við eignuðumst t.d. eldri börnin okkar á svipuðum tíma. Við ferðuðumst talsvert saman innanlands og utan. Fyrsta ferðin okkar ásamt fleiri vinum var til Majorka í þrjár vikur og endað fimm daga í London.

Einnig fórum við saumaklúbburinn vikuferð til Parísar, fórum í óperuna, Versali, sigldum á Signu og fórum á fín veitingahús. Erum við oft búnar að minnast þeirrar ferðar. Einnig fórum við í nokkrar innanlandsferðir vikutíma í senn í bústaði Landsbankans með Birnu, Reyni og Siggu vinkonu okkar, m.a. á Vestfirði, Austfirði og Suðurland og fleiri staði og er allt þetta Birnu vinkonu okkar að þakka.

Birna og Reynir voru miklir fagurkerar og höfðu afar mikla ánægju af að bjóða ættingjum og vinum heim á þeirra fallega heimili. Ekki má gleyma að minnast á þeirra litla hlýlega sumarbústað. Þar nutum við Skúli góðs af, því við fengum að gista þar við smíði á okkar bústað þar í nágrenninu. Alveg ómetanlegt á því mikla rigningarsumri. Þau héldu líka veglegar grillveislur á haustin í logni og rökkri sveitarinnar.

Birna var ávallt boðin og búin að hjálpa ef eitthvað stóð til, t.d. afmæli, jarðarför og þ.h. en hún var óvenjuflink að baka og nutu margir vina hennar þess. Að leiðarlokum sendum við Skúli þakkir fyrir margra áratuga vináttu og tryggð, og biðjum Reyni og allri fjölskyldu þeirra guðs blessunar.

Þóra Björg og Skúli.
-------------------------------------------------------------------

Sumt fólk setur mark sitt á líf manns og skapar minningar sem aldrei hverfa. Móðir okkar, Guðný S. Friðsteinsdóttir, átti tvær bestu vinkonur, þær Birnu og Lóu. Í huga okkar systra hafa þær alltaf verið nátengdar og nefndar í sömu andrá, því þrátt fyrir að vera eins ólíkar og hugsast getur voru þær alltaf saman, a.m.k. í okkar huga. Lóa lifir nú þessa góðu vinkonu sína og missir hennar er mikill.

Tryggari vinkonur er varla hægt að hugsa sér. Þær stóðu þétt við bakið á mömmu í veikindum hennar og alltaf þegar eitthvað stóð til í fjölskyldunni voru þær mættar til að leggja sitt af mörkum. Aðeins hálfu ári áður en mamma dó varð pabbi fertugur og þar stóðu þær í ströngu við að gera daginn sem bestan fyrir okkur öll. Ári síðar, þegar mamma var látin, var önnur okkar fermd og þar voru þær aftur mættar að skipuleggja og baka, síðan kom næsta ferming og svo fimmtugsafmæli pabba og þótt þá væru heil 10 ár liðin frá andláti mömmu voru þær þar, fremstar í flokki, alveg eins og áður.

Einnig eigum við systurnar dásamlegar minningar þar sem við vorum í pössun hjá Birnu, eins og t.d. rétt fyrir ein jólin þegar Stúfur barði að dyrum með nammipakka fyrir okkur. Það er ekki ólíklegt að þar hafi Birna verið að hlaupa undir bagga á meðan mamma var veik, en okkur var algjörlega hlíft við allri vitneskju um það og allt gert til að gera dag lítilla stelpna ánægjulegan og eftirminnilegan. Svo má ekki gleyma sumarbústaðaferðunum í Grímsnesið sem eru algjörlega ógleymanlegar.

Tryggð Birnu og Lóu við ömmu þar til hún lést árið 2001 var líka algjörlega ómetanleg og segir mikið um hjarta þeirra og hug til mömmu sem náði langt út yfir gröf og dauða.

Birna var yndisleg kona. Hún var ljúf, kærleiksrík og skemmtileg, róleg og yfirveguð en samt alltaf svo kát og glettin.

Einstök og yndisleg kona er fallin frá, hún mun lifa í minningum okkar systra um alla tíð. Við og faðir okkar, Þór Símon Ragnarsson, vottum fjölskyldu hennar allri, sem og Lóu vinkonu hennar, okkar innilegustu samúð.

Guð blessi minningu Birnu Björnsdóttur.

Ásta Lóa og Ragna Sif.
-------------------------------------------------------

Í dag kveð ég yndislega vinkonu, Birnu Björnsdóttur. Það er sárt að kveðja þann sem manni þykir vænt um.

Við Birna kynntumst á unglingsárunum, fyrst í leik á Landakotstúninu, síðar í Kvennaskólanum og enn betur þegar við unnum saman í sparisjóðsdeild LÍ. Við urðum góðar vinkonur þrátt fyrir þriggja ára aldursmun sem með árunum varð að engu. Þegar Reynir og Birna fluttu á Reynimelinn og síðan vestur á Seltjarnarnes vorum við aftur orðnar nágrannar með börn á líkum aldri svo skiljanlega varð samgangur okkar mjög náinn. Birna var einstök kona með mikla útgeislun. Hún var hörkudugleg, yndisleg og vann hjarta allra sem kynntust henni.

Ávallt boðin og búin að hjálpa öllum sem til hennar leituðu. Síðar á lífsleiðinni gengum við í Kvenfélagið Hringinn. Þar starfaði Birna frá 1983, í nefndum sem formaður og í mörg ár sem gjaldkeri. Þá vann hún einnig mikið í sambandi við útgáfu bókarinnar „Hringurinn í Reykjavík“. Hringurinn var hennar ástríða alla tíð þar til að heilsa hennar fór að bila. Í Hringnum kynntumst við mörgum frábærum konum sem gaman er að starfa með. Við Birna, Áslaug Björnsdóttir, Erna Hansen, Guðrún Garðarsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, sem er látin, og Sólveig Hákonardóttir mynduðum vinkvennahóp 20. desember 1986 sem við kölluðum Glúntrur.

Við Glúntrurnar höfum síðan verið duglegar að hittast, búa til alls konar viðburði og tilefni til að gleðjast saman. Búa til góðan mat og dekra hver við aðra. Þar var Birna okkar í essinu sínu. Við buðum eiginmönnunum með í gleðina og héldum árleg jólaboð og fórum m.a. í jólaferðir til Kaupmannahafnar, Boston, ókum um Toskana-hérað og heimsóttum Sollu til Stokkhólms. Hvílík gleði og mikið hlegið. Þar naut gleðigjafinn, Birna okkar, sín í botn með alls kyns sögum og gamanyrðum, sem þau Reynir höfðu undirbúið til flutnings. Þegar komið er að kveðjustund er ómetanlegt að eiga slíkar minningar.

Elsku Reynir, Sverrir, Salóme, Jón Reynir og Bjarni Birkir. Ég og fjölskylda mín sendum ykkur og ástvinum hugheilar samúðarkveðjur. Einnig senda Glúntrurnar, Áslaug, Erna, Dúa og Solla, ykkur og ástvinum ykkar innilegustu samúðarkveðjur.

Góð vinátta er gulli betri.

Kristín Bernhöft.