Carl Jóhann Lilliendahl

mbl.is - 10. júní 2021 | Minningargreinar | 278 orð | 1 mynd

Carl Lilliendahl klæðskerameistari fæddist á Siglufirði 5. október 1946. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á hjartadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut, 30. maí 2021.

Carl var sonur hjónanna Alfreðs Lilliendahl, loftskeytamanns og ritsímavarðstjóra, f. á Vopnafirði 1909, d. 1969, og Ingunnar Katrínar Steingrímsdóttur húsfreyju, f. á Ísafirði 1914, d. 1961.

Carl kvæntist Sigrúnu Árnadóttur og eignuðust þau þrjá syni:

  • Alfreð Örn, f. 1967,
  • Árna Halldór, f. 1968, og
  • Karl Rúnar, f. 1972.
    Carl og Sigrún skildu.

Alfreð er kvæntur Evu Björk Karlsdóttur, f. 1967.
Synir þeirra eru

Carl Lilliendahl  - ókunnur ljósmyndari

Carl Lilliendahl - ókunnur ljósmyndari

  • Sindri Snær, f. 1995, og
  • Aron Máni, f. 1999.

Árni Halldór er í sambúð með Belindu Kristinsdóttur, f. 1974.
Börn Árna frá fyrra hjónabandi eru

  • Elva Rut, f. 1992,
  • Sara Eir, f. 1994, og
  • Eiður Smári, f. 1998.

Karl Rúnar er kvæntur Eddu Jónsdóttur, f. 1975. Saman eiga þau

  • Lúkas, f. 2006, og
  • Leu Carolinu, f. 2012.

Eftirlifandi eiginkona Carls er Íris Lilliendahl, f. 1953.

Carl verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 10. júní 2021, klukkan 13.
------------------------------------------

Tengdafaðir minn Carl Jóhann hefur kvatt þessa jarðvist á 75. aldursári eftir langvinn veikindi. Hann var einstakur persónuleiki sem var margt til lista lagt þrátt fyrir að vera bæði hæglátur og hógvær. Ég kunni vel við hann frá fyrstu kynnum. Hann tók fólki eins og það var og sýndi mér ávallt nærgætni í samskiptum.

Þrátt fyrir að hann væri gjarnan fámáll hafði ég gaman af því að ná honum á gott spjall. Þá gátu samtölin orðið bæði löng og djúp. Hann var fróðleiksfús og forvitinn um lífið. Einstaklega listrænn og nákvæmur með eindæmum. Ég minnist hans með þakklæti fyrir góða samfylgd. Minningin um góðan mann lifir áfram í hjörtum okkar fjölskyldunnar.

Edda Jónsdóttir.