Salbjörg Kristín María Jónsdóttir

mbl.is  -16. júlí 2021 | Minningargreinar

María Jónsdóttir, eins og hún var ávallt kölluð, fæddist á Miklhóli í Skagafirði 27. september 1923. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 6. júlí 2021.

Foreldrar hennar voru Ingibjörg Þorgrímsdóttir, f. 27. maí 1893, d. 9. september 1975, og Jón Árnason, f. 15. júní 1878, d. 13. janúar 1939. Fósturfaðir hennar var Sigurjón Gíslason, f. 27. september 1891, d. 30. júní 1977.

Systkini hennar sammæðra:

 • Fjóla,
 • Rafn,
 • Sigríður,
 • Dúi og
 • Benedikt.
 • Öll látin nema Dúi.
  María átti tvo fósturbræður, þá
 • Braga og
 • Þorgrím,
  og eru þeir báðir látnir.
  Bræður, samfeðra,
 • Hjörtur,
 • Runólfur,
 • Páll og
 • Ingólfur
  og eru þeir allir látnir.
María Jónsdóttir

María Jónsdóttir

María giftist 29. júlí 1943 Jóni Frímanni Sigurbjörnssyni frá Ökrum, f. 27. júlí 1914, d. 30. október 1987. Foreldrar hans voru Friðrikka Magnea Símonardóttir og Sigurbjörn Jósefsson.

Börn Maríu og Jóns eru fimm, þau eru:

1) Sigurbjörn Friðrik Jónsson, f. 12. desember 1945, kvæntur Ingibjörgu Jónatansdóttur, börn þeirra eru
 • Óðinn og
 • Hlín.

2) Ingibjörg Ása Jónsson, f. 16. mars 1951, gift Sigurbirni Jóhannssyni og börn þeirra eru
 • María Elín,
 • Jón Heimir og
 • Jóhann Már.

3) Sverrir Jónsson, f. 8. febrúar 1953, kvæntur Guðnýju Sölvadóttur, f. 14. september 1954, börn þeirra eru
 • Sigurður,
 • Ása Guðrún og
 • Dóra María.

4) Lovísa Hermína Jónsdóttir, f. 5. september 1957, gift Arne Buhl Petersen, f. 11. mars 1948, d. 11. nóvember 2015, dætur þeirra eru 5) Margrét J´nsdóttir, f. 5. ágúst 1959, gift Ómari Frey Sigurðssyni, synir þeirra eru
 • Cecilie og
 • María 
  fyrir átti Lovísa,
 • Pálínu Ingu Arnarsdóttir, með Arnari Ingólfssyni.
 • Sigurður Þór og
 • Kristinn Freyr
  fyrir átti Margrét
 • Sigþór Inga,
 • Hilmar Þór og
 • Unu Dagnýju með Hreiðari Jóhannssyni.
  Ömmubörnin eru 16, langömmubörnin eru 35 og eitt langalangömmubarn.

María og Jón byrjuðu sinn búskap 1943 í Skútu og fóru þaðan að Hólsbúinu á Hóli. Árið 1957 fluttu þau að Suðurgötu 30 og þaðan að Hólavegi 18 árið 1960 og 1968 fluttu þau á Lindargötuna. Síðustu árin dvaldi hún á Skálarhlíð og svo á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar.

María fór snemma að heiman eða að verða 16 ára, hún fór þá til Siglufjarðar sem vinnukona hjá Kristjansen og Sissu. Hún fór sem ráðskona að Sólgörðum í Fljótum þá með son sinn ungan. María vann við alls konar störf en lengst af við skúringar í Barnaskóla Siglufjarðar. Hún var mikið í Neskoti í Fljótum hjá móður sinni og Rafni bróður sínum að hjálpa til, en þar var stórt heimili. Á síldarárunum var hún með margt fólk á heimili sínu að hjálpa til við pössun á börnum, kostgangara o.fl.

Fjölskyldan var henni allt og var hún mjög stolt af þeim öllum.

Útför Maríu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 16. júlí 2021 klukkan 14. Hún verður jarðsett í gamla kirkjugarðinum.
-----------------------------------------------------

Elsku mamma mín.

Það er víst komið að kveðjustund. Nú ertu komin í sumarlandið og bíður tilhlökkunar endurfunda við pabba og þína nánustu vini. Að fara í bíltúr og koma við í bakaríinu það fannst þér gaman. Einnig fannst þér mjög gaman að fara í sveitina til okkar Sigurbjörns. Að labba á pallinum með göngugrindina og fara í heimsóknir til nágranna, þú varst alltaf endurnærð við að koma til okkar. Að fá nýveiddan silung, það var það besta.

Þú svafst svo vel og lengi í sveitinni og varst svo kát og glöð. Eitt verð ég að skrifa um, sem þú varst búin að biðja mig um, væntumþykju þína í garð Ellu þinnar Gests, hún kom til ykkar pabba þegar hún var tveggja ára. Mamma hennar, Friðfinna Símonar, var veik og fór á Kristnes, þá kom Ella til ykkar og var hjá ykkur í 1½ til 2 ár. Heimilið ykkar var alltaf opið fyrir henni, hún mátti koma og fara eins og hún vildi, eins og ein af fjölskyldunni. Ella átti alltaf stað í þínu hjarta sem verður ekki tekið frá þér.

 • Nú ertu horfin í himnanna geim,
 • nú þjáningum leyst ertu frá.
 • Ein sit ég eftir í veraldarheim,
 • en Guði þú situr nú hjá.

 • En minningin um þig í hjarta ég geymi,
 • er kúrðum við saman um nætur.
 • Stundunum okkar þeim aldrei ég gleymi,
 • Því sálin þín festi í mér rætur.
  (Guðrún Hrefna Bragadóttir)

Blessuð sé minning þín, elsku mamma mín. Far þú í friði,

þín dóttir, Ása Jónsdóttir.
----------------------------------------------------

Það verður skrítið að koma í fjörðinn fagra og engin amma til að heimsækja, en það var alveg nauðsynlegt hjá Dísu Maríu og Eyju Rós að koma að lágmarki einu sinni til ömmu í hverri ferð. Hlý og góð, hrein og bein finnst mér lýsa ömmu best.

 • En komin eru leiðarlok
 • og lífsins kerti brunnið
 • og þín er liðin æviönn
 • á enda skeiðið runnið.

 • Í hugann kemur minning mörg
 • og myndir horfinna daga,
 • frá liðnum stundum læðist fram
 • mörg ljúf og falleg saga.
  (Höf. ók.)

Góða ferð, elsku amma, og kysstu afa frá okkur.

Sigþór Ingi og fjölskylda.
------------------------------------------------------------

Ég hlakkaði alltaf til skólaloka á vorin. Það var ekki vegna þess að mér leiddist í skólanum. Ég hlakkaði til því á sumrin fór ég og dvaldi hjá ömmu á Sigló. Amma Mæja var frábær amma. Henni tókst einhvern veginn að láta öllum líða eins og þeir væru hennar uppáhald.

Árið 1986 var fyrsta sumarið mitt sem ég fór og var ein hjá ömmu og afa. Ég var 6 ára. Fyrstu nóttina mína á Sigló skreið ég uppí til ömmu og afa. Afi Jón lét eitthvað aðeins heyra í sér og fannst algerlega ótækt að fullorðið barnið væri að koma uppí. Þegar kom svo að því að þurfa að pissa þá þorði ég ekki að vekja þau til að segja þeim að mér væri mál þannig að ég lét bara vaða og pissaði undir. Það var skárra en að raska svefninum aftur hjá ömmu og afa. Eftir þessa nótt flutti afi upp á loft og ég svaf uppí hjá ömmu restina af dvöl minni þetta sumarið. Þetta setti tóninn fyrir næstu 20 árin. Annaðhvort svaf ég uppí hjá ömmu eða á dýnu inni hjá henni, meira að segja eftir að hún flutti á Skálahlíð.

Það eru ótal margar minningar sem ég á af ömmu og dvöl minni hjá henni á Lindargötunni. Ég man samt ekki eftir að hafa nokkurn tímann verið svöng á Siglufirði. Í minningunni var alltaf matur á eldhúsborðinu. Morgunmatur, morgunkaffi, hádegismatur, kaffi, kvöldmatur og svo kvöldkaffi; þetta tengdist allt. Það var alltaf eitthvað á borðinu og alltaf einhver sem sat við borðið að fá sér kaffisopa og með því, það var gestagangur langt fram á kvöld enda var amma gestrisin með eindæmum.

Amma Mæja var vinkona mín. Það er ein minning sem mér finnst einstaklega skemmtileg af einni heimsókninni í seinni tíð. Við sátum í herberginu hennar á Skálahlíð og vorum að spjalla og fá okkur kaffi og með því. Það var kveikt á sjónvarpinu og verið var að sýna frá frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum. 110 m grindahlaup karla. Allt einu hættum við að tala og horfum dáleiddar á þessa kroppa í hægri endursýningu stökkva yfir grindurnar. Amma segir svo loks á innsoginu: mikið ofsalega eru þessir menn vel af guði gerðir. Þar vorum við amma sammála.

Ég er þakklát fyrir allar góðu samverustundirnar og góðu minningarnar sem ég á af ömmu Mæju, en ég er þakklátust fyrir nýjustu minninguna sem reyndist einnig vera kveðjustundin okkar. Nú gengur hún í sínu fínasta pússi á fund afa Jóns í sumarlandinu eftir langan aðskilnað.

Takk fyrir samfylgdina, góða ferð og ég bið að heilsa

Þín Hlín.
------------------------------------------------------

Það var fallegur sumardagur á Sigló þegar elsku amma mín kvaddi og fór í sumarlandið góða. Eftir sitja svo margar minningar frá því ég var lítil stelpa og til dagsins í dag. Með okkur var einstakt samband, alltaf gat ég leitað til þín hvað sem var að eða ekki að, þú varst alltaf tilbúin að taka á móti mér og hlusta á allt sem maður hafði að segja. Svo var líka alveg frábært að hlusta á þig tala um gamla tíma allt frá því að þú varst lítil stelpa í sveit og svo þegar þú kynntist honum afa og ykkar sögu.

Minningarnar frá Lindargötu 6b eru ofarlega í huga, það skipti ekki máli hvort nánast öll fjölskyldan var samankomin í afmæli eða jólaboði, alltaf var nóg pláss fyrir alla því Lindargata 6b var eins og höll í augum okkar krakkanna, það var farið í feluleiki, eltingaleiki, pílukast, plata sett á fóninn og dansað í stofunni.

Þú varst einstaklega hlý og góð kona sem öllum líkaði við og ekki skrítið að sumar af vinkonum mínum kölluðu þig ömmu Mæju. Ég er svo þakklát fyrir allan okkar tíma saman og þakklát er ég að börnin mín fengu að þekkja ömmu Mæju. Þú varst alltaf svo innilega stolt af öllum þínum stóra barnahópi.

Í dag kveð ég þig, elsku amma mín, og þakka fyrir alla tryggðina, traustið, hlýjuna, umhyggjuna og allt það sem þú kenndir mér. Allar góðar minningar geymi ég í hjartanu og varðveiti um ókomna tíð.

 • Hún amma mín sagði mér sögur
 • er skráðust í huga minn inn,
 • sumar um erfiðu árin
 • aðrar um afa minn.

 • Og þá var sem sól hefði snöggvast
 • svipt af sér skýjahjúp
 • því andlitið varð svo unglegt
 • og augun svo mild og djúp.
  (Rafnar Þorbergsson)

Þín ömmustelpa, Ása Guðrún Sverrisdóttir.
------------------------------------------------------------

Það er komið að kveðjustund, elsku Maja systir. Fyrsta minning mín um þig er enn ljóslifandi í huga mínum, þótt ég hafi ekki verið mikið eldri en þriggja til fjögurra ára og þú tíu árum eldri. Þá hafði ég fallið ofan í pytt í bæjarlæknum við Steinavelli og var víst hætt kominn. Þú bjargaðir þá lífi mínu, Maja mín, því þér tókst að draga mig upp úr pyttinum. Þú barst mig í fanginu heim í bæ, þurrkaðir mér og huggaðir.

Fyrir foreldra okkar og systkini varstu stoð og stytta. Alltaf var hægt að leita til þín með hin ýmsu málefni og ekkert verkefni var of stórt fyrir þig að leysa. Það var þér í blóð borið að bera hag og velferð annarra fyrir brjósti. Þú varst alla tíð reiðubúin að rétta fram hjálparhönd hvort sem um var að ræða ástvini þína eða aðra. Allt frá unga aldri tókstu fullan þátt í öllum verkum sem þurfti að vinna á Steinavöllum, jafnt úti sem inni.

Lífsbaráttan var hörð og nútímaþægindi, svo sem rafmagn og rennandi vatn, höfðum við ekki á Steinavöllum. Mér er minnisstætt hversu dugleg þú varst að hjálpa móður okkar, bæði við heimilisstörfin og einnig að sinna okkur, yngri systkinum þínum. Kraftur, dugnaður og góðmennska einkenndu þig og þú varst höfðingi heim að sækja. Alltaf tókstu á móti mér og mínum með opinn faðminn. Takk fyrir samfylgdina elsku Maja. Guð geymi þig. Fjölskyldu þinni votta ég samúð mína.

 • Ég fel í forsjá þína,
 • Guð faðir, sálu mína,
 • því nú er komin nótt.
 • Um ljósið lát mig dreyma
 • og ljúfa engla geyma,
 • öll börnin þín, svo blundi rótt.
  (Matthías Jochumsson)

Þinn bróðir,  Kristján Dúi.
------------------------------------------------------------

Elsku Mæja mín. Nú ertu farin á annað tilverustig eftir langa og viðburðaríka ævi. Á þessari stundu er þakklæti til þín mér efst í huga. Hugurinn reikar aftur til ársins 1948. Það ár veiktist mamma mín alvarlega og þurfti að dvelja á Kristneshæli næstu misserin. Tókst þú mig undir þinn verndarvæng aðeins 2ja ára gamla.

Kann ég þér hjartans þakkir fyrir hlýjuna og elskuna. Upp frá því var ég heimagangur hjá þér og þínum og hafðir þú ætíð á orði að ég væri þér eins og dóttir, sem var mér mikils virði og gaf mér hlýju í hjarta. Alltaf var gaman að heimsækja ykkur fjölskylduna. Seinna meir vildu Jóna, Magga og Stína, dætur mínar, koma við hjá þér og þiggja kaffisopa og sykurmola og jafnvel aðstoða þig við að vefja sígarettur sem þær höfðu mest gaman af.

Ég á þér mikið að þakka, elsku Mæja, fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína fjölskyldu. Hjartans þakkir fyrir elskuna og tryggðina.

 • Nú leitar minning ljúf á huga minn
 • með kærri þökk er endar lífsins ganga.
 • Og ennþá finn ég heitan lófa þinn
 • er strauk mér blítt sem barni um hár og vanga.
 • Elsku aðstandendur. Mínar innilegustu samúðarkveðjur.
 • Guð blessi og varðveiti góða konu.

Elín A. Gestsdóttir (Ella).