Ólöf Guðmundsdóttir

mbl.is - 7. apríl 2021 | Minningargreinar | 877 orð | 1 mynd

Ólöf Guðmundsdóttir fæddist á Siglufirði þann 26. september 1946. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri 15. mars 2021 eftir langvinn veikindi.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Bjarnason, f. 25.10. 1916, d. 5.4. 1987, og Jóhanna María Bjarnason, f. 3.9. 1916, d. 25.4. 2004.

Systkini Ólafar eru:

 • Guðmunda Guðmundsdóttir, f. 28.04. 1939, d. 1. júní 2007,
 • Jón Guðmundsson, f. 26.12. 1942,
 • Halldór Guðmundsson, f. 21.9. 1944, og
 • Guðrún Guðmundsdóttir, f. 29.7. 1949.

Ólöf hafði kynnst ungum sjómanni, Kristjáni Viktori Ragnarssyni, f. 15.9. 1939, d. 9.4. 1963, og áttu þau eitt barn saman. Hann er:

Ólöf Guðmundsdóttir - Ljósmyndsari ókunnur

Ólöf Guðmundsdóttir - Ljósmyndsari ókunnur

 • Kristján Viktor, f. 23.9. 1963. Maki Laufey Ingadóttir, f. 8.3. 1955.
  Börn Kristjáns eru:
 • Erling Freyr, f. 8.7. 1987,
 • Karen, f. 10.11. 1992, og
 • Rakel, f. 20.9. 1994.

Kristján fórst með vélbátnum Hring frá Siglufirði í óveðrinu, sem gekk yfir Norðurland 1963.
(Frétt um þann hörmulega atburð má sjá neðst á þessari síðu)

Ólöf giftist 8.5. 1966 eftirlifandi eiginmanni sínum, Friðriki Sigurjónssyni, f. 5.11. 1946. Börn þeirra eru:

 • 1) Jóhanna María, f. 20.3. 1966. Maki Gunnar Vigfússon, f. 22.4. 1960.
  Börn þeirra eru:
 • Samúel, f. 23.10. 1989, og
 • Friðrik, f. 23.10. 1989.

 • 2) Heiðbjört Ída, f. 23.5. 1974. Maki Jón Sigtryggsson, f. 26.3. 1966.
  Börn þeirra eru:
 • Sigtryggur, f. 27.8. 1997, og
 • Ólöf, f. 5.11. 2004.

Barnabarnabörn Ólafar eru fjögur, þau

 • Amelía,
 • Matthías Ingi,
 • Óliver Gunnar og
 • Samúel Skorri.

Ólöf ólst upp á Siglufirði, en flutti síðan til Akureyrar og þau Friðrik áttu heima í Norðurgötu 40 alla sína tíð. Hún lauk hefðbundinni skólagöngu og fór þá út á hinn almenna vinnumarkað ung að aldri.

Hún starfaði m.a. við síldarsöltun, fiskvinnslu og varð síðan sjómaður með Friðriki manninum sínum. Þau gerðu út í 13 sumur á Sigurjóni Friðrikssyni EA 50 og veitti þessi tími á sjónum Ólöfu mikla gleði.

Útför Ólafar var gerð frá Akureyrarkirkju 26. mars 2021.
---------------------------------------------------------

Elsku hjartans mamma. Okkur langar að minnast einstakrar, ósérhlífinnar og duglegrar konu sem fékk hvíldina eftir langvarandi og erfið veikindi. Söknuðurinn er sár en við upplifum jafnframt létti yfir að þú sért nú laus undan þjáningum. Við trúum því að þú sért komin á betri stað og efumst ekki um að þú vakir yfir okkur.

Við eigum þér svo margt að þakka elsku mamma, amma og tengdamamma. Þú barst hag okkar ætíð fyrir brjósti og miðlaðir af reynslu þinni og visku.

Þú varst amman sem ætíð hafði tíma fyrir barnabörnin og varst óþrjótandi að kenna þeim vísur, bænir, lesa fyrir þau og eyða tíma með þeim. Tvö yngstu barnabörnin passaðir þú ómælt þegar móðirin hóf vinnu eftir fæðingarorlof og meðan á háskólanámi hennar stóð. Fyrir það verðum við ævinlega þakklát. Barnabörnin kallaðir þú hjartagullin þín.

Þú fékkst ekki notið síðustu æviáranna vegna alvarlegra veikinda. Þú varst þjáð en aldrei kvartaðir þú yfir hlutskipti þínu. Þú sýndir æðruleysi og kjark og komst okkur hvað eftir annað á óvart með seiglu þinni þessa síðustu mánuði.

Áform ykkar pabba um að ferðast og njóta lífsins verða að bíða enn um sinn. Við erum þakklát fyrir margar góðar minningar sem tengjast ferðalögum okkar saman erlendis.

Mamma var alla tíð trúuð og virk í Hjálpræðishernum til fjölda ára. Trúin gaf henni styrk á erfiðum tímabilum í lífi sínu.

Eftir að mamma hætti á hinum hefðbundna vinnumarkaði reri hún með pabba, Friðriki Sigurjónssyni, á Sigurjóni Friðrikssyni EA-50 í þrettán sumur frá Tálknafirði. Þar eignuðust þau góða vini fyrir lífstíð. Þessi ár voru bestu ár foreldra okkar, því þeim leið hvergi betur en á sjónum. Báturinn var einstaklega snyrtilegur og höfðu Tálknfirðingar á orði að þau hlytu að róa í sparifötunum.

Foreldrar okkar hófu búskap í Norðurgötu 40 vorið 1966 og bjuggu þar alla tíð eða þar til mamma veiktist alvarlega í mars 2020. Hún dvaldi á sjúkrahúsi í tæpt eitt ár, síðasta mánuðinn á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð, þar sem hún lést.

 • Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
 • Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
 • Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og
 • hlíf.
 • Hún er íslenska konan, sem ól þig og
 • helgar sitt líf.
 • Með landnemum sigld'ún um
 • svarrandi haf.
 • Hún sefaði harma, hún vakti, er hún
 • svaf.
 • Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð.
 • Hún var íslenska konan, sem allt á að
 • þakka vor þjóð.
 • Ó, hún var ambáttin hljóð,
 • hún var ástkonan rjóð,
 • hún var amma svo fróð.
 • Ó, athvarf umrenningsins,
 • inntak hjálpræðisins,
 • líkn frá kyni til kyns.
 • Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
 • Hún hjúkraði og stritaði gleðisnauð ár.
 • Hún enn í dag fórna sér, endalaust
 • má.
 • Hún er íslenska konan, sem gefur þér
 • allt, sem hún á.
 • Ó, hún er brúður sem skín.
 • Hún er barnsmóðir þín.
 • Hún er björt sólarsýn.
 • Ó, hún er ást, hrein og tær.
 • Hún er alvaldi kær.
 • Eins og Guðsmóðir skær.
 • Og loks, þegar móðirin lögð er í mold,
 • þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
 • Þú veist hver var skjól þitt, þinn skjöldur
 • og hlíf.
 • Það var íslenska konan, sem ól þig og gaf þér sitt líf.
 • En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
 • Og sjá, þér við hlið er þín hamingjudís,
 • sem ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og
 • hlíf.
 • Það er íslenska konan, tákn trúar og
 • vonar,
 • sem ann þér og þér helgar sitt líf.
 • (Ómar Ragnarsson)

Þú barst okkur börnin og barnabörnin á höndum þér og því var vel við hæfi að þau bæru þig síðasta spölinn. Elsku mamma, þakka þér fyrir allt. Guð geymi þig.

Kristján, Jóhanna og Heiðbjört.