Soffía Guðrún Jóhannsdóttir

mbl,is - 21. júlí 2021 | Minningargreinar 

Soffía Jóhannsdóttir fæddist 28. júní 1931 á Siglufirði. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 11. júlí 2021.
Foreldrar hennar voru Björn Jóhann Aðalbjörnsson, frá Máná í Úlfsdölum í Fljótum, f. 31.3. 1906, d. 15.5. 1966, og Petrína Friðbjörnsdóttir, frá Efstakoti á Dalvík, f. 28.7. 1895, d. 15.5. 1989.

Systkini Soffíu voru:

 • Friðbjörn Hólmfreð Jóhannsson, f. 1928, d. 1935, J
 • Jón Heiðar Jóhannsson, f. 1933, d. 1933,
 • Anna Bára Jóhannsdóttir, f. 1935, d. 2014, og
 • Hólmfríður Jóna Jóhannsdóttir, f. 1937.

Soffía giftist Jóni G. Hjálmarssyni 22.11. 1952. Jón var fæddur 30.12. 1922 í Vestmannaeyjum, d. 31.8. 2014. Foreldrar hans voru Hjálmar Jónsson, f. 5.6. 1899 á Bólstað í Mýrdal, d. 25.7. 1968, og Guðbjörg Einara Helgadóttir, f. 16.10. 1898 á Gili í Fljótum í Skagafirði, d. 23.6. 1958.

Soffía Jóhannsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Soffía Jóhannsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Börn þeirra Soffíu og Jóns eru:

1) Jóhann Pétur, f. 8.5. 1953, maki Kristín Salóme Steingrímsdóttir,
börn:
 • 1.1. Soffía Guðrún, f. 1973, maki er Hans Júlíus Þórðarson. Barn Soffíu frá fyrri sambúð er
 • Snær Jóhannsson. Börn Soffíu og Júlíusar:
 • Salóme og Þóra Andrea.
 • 1.2. Rebekka, f. 1978, maki er Jóhannes Kolbeinsson,
  börn þeirra eru
 • Bryndís,
 • Jóhann Bergur og
 • Ásbjörn Daði.
 • 1.3. Gunnar Örn, f. 1982, maki er Tinna Rós Finnbogadóttir,
  Börn Gunnars frá fyrri sambúð;
 • Júlía Kristey og
 • Kristján Bjarki.
  Börn Gunnars og Tinnu eru
 • Benedikt Helgi og
 • Hörður Bogi.
 • 1.4. Hörður Þór, f. 1991, maki: Ása Hulda Oddsdóttir,
  barn þeirra er
 • Hugrún Lea.
2) Einar Hjálmar, f. 22.11. 1957, maki er Erla J. Erlingsdóttir,
börn:
 • 2.1. Jón Gunnsteinn, f. 1980, maki er Guðrún Jónsdóttir,
  barn þeirra er
 • Guðmundur Hjálmar
 • 2.2. Íris Ósk, f. 1986, maki er Ásgeir Elvar Guðnason,
  börn:
 • Elva Karen,
 • Arnar Bjarki og
 • Heiðdís Erla
 • 2.3. Einar Jón, f. 1997.
3) Hafdís, f. 25.8. 1962, maki er Georg Kulp.
Börn :
 • 3.1. Helena, f. 1983, maki er Andri H. Oddsson, börn:
 • Emelía Mist,
 • Viktoría Von, og
 • Alexander Máni.
 • 3.2. Jóhann Páll, f. 1989, maki er Erla Rún Þórhildardóttir, börn:
 • Marín Húna og Bjarmi Snær.
 • 3.3. Georg Ingi, f. 1994.
4) Kristrún, f. 18.2. 1973, maki er Ólafur Fannar Vigfússon,
börn:
 • 4.1.Vigfús Máni, f. 2003, og
 • 4.2. Sindri Jón, f. 2007.

Soffía fæddist og ólst upp á Siglufirði og stundaði þar ýmis störf. Hún útskrifaðist úr Gagnfræðaskóla Siglufjarðar árið 1946, giftist 1952, Jóni Hjálmarssyni (d. 2014) og hófu þau búskap á Siglufirði en fluttust til Reykjavíkur 1954. Soffía starfaði m.a. hjá Þvottahúsinu Fönn, á saumastofu Kleppsspítalans en starfaði lengst af í mötuneyti á aðalskrifstofu Olíufélagsins hf., að Suðurlandsbraut 18. Saumaskapur skipaði stóran sess hjá Soffíu og með vinnu saumaði hún alla tíð mikið fyrir fjölskylduna, vini og ættingja.

Útför Soffíu G. Jóhannsdóttur fer fram frá Áskirkju í dag, 21. júlí 2021, klukkan 13.

Ástkær móðir mín, Soffía Guðrún Jóhannsdóttir, hefur kvatt þessa jarðvist og víst er að hennar verður sárt saknað og hennar skarð vandfyllt. En góðar minningar ylja. Mamma fæddist á Siglufirði og ólst þar upp, oft við kröpp kjör eins og títt var á þeim árum. Skólaganga mömmu var ekki löng en hugur hennar og langanir voru að komast í húsmæðraskóla en fjárhagslegar aðstæður urðu þess valdandi að ekkert varð úr þeim draumum.

Sem barn dvaldi móðir mín á sumrin hjá ættingjum sínum í Efstakoti við Dalvík og það kom alltaf sérstakt blik í auga þegar þessi tími var rifjaður upp, þær minningar skipuðu stóran sess í hjarta hennar. Foreldrar mínir hófu búskap á Siglufirði og eignuðust þau þar sitt fyrst barn, þann sem þessar línur ritar.

Þau fluttust til Reykjavíkur 1954, fyrst í Efstasund en síðar í Skipasund 35, þar sem þau bjuggu í 45 ár. Mörg dýrmæt minningabrot á ég í huga mínum þegar ég fór með mömmu norður til Siglufjarðar til ömmu og afa sem þar bjuggu þá enn. Mynd af mömmu að salta síld í tunnu á síldarplani greyptist í huga barnsins sem þótti þessi hamagangur á síldaplönunum með ólíkindum. Það var mikið fjör á Siglufirði á þessum árum. Handavinna var móður minni mjög hugleikin og eftir að hafa farið á sníðanámskeið varð ekki aftur snúið; saumaskapur og prjónverk lék í höndum hennar. Með fram annarri vinnu saumaði hún föt og prjónaði peysur á okkur systkinin, ættingja og vini.

Það var mikil hátíð í bæ þegar græna Husqarna-saumavélin var keypt fyrir 60 árum og fylgdi hún mömmu til æviloka. Móðir mín var sterk persóna, félagslynd, glaðlynd og jákvæð með afbrigðum. Aldrei sá ég hana skipta skapi. Hún hafði einstaka hæfileika til að laða að sér fólk og oft var gestkvæmt í Skipasundinu, og oft gistu þar ættingjar utan af landi. Gestrisni og þjónustulund var móður minni í blóð borin.

Þegar efnahagur foreldra minna braggaðist og ferðir til sólarlanda urðu almennar, voru þau dugleg að nýta sér alla möguleika á að eyða sumarleyfum í suðurhöfum og oft var þar glatt á hjalla þegar vinir og vinnufélagar komu þar saman og þegar haft var samband til Spánar til að kanna hvernig dvölin væri, var alltaf sama svarið hjá henni móður minni: „þetta er bara alveg meiriháttar“ og höfum við gjarnan notað þetta orðatiltæki þegar fjölskyldan kemur saman. Mamma sá alltaf jákvæðu hliðarnar og þær voru oftar en ekki „alveg meiriháttar“.

Þegar komið er að leiðarlokum rifjast upp heimsóknirnar til mömmu sem voru margar, í kaffi og auðvitað „meððí“ og í leiðinni að fá fréttir af fjölskyldunni, hvað hver væri að gera eða ferðast. Allar þessar fréttir var hægt að fá á einum stað, enda fylgdist móðir mín grannt með hvað fólkið hennar aðhafðist og komu þessar heimsóknir að hluta til í stað lesturs samfélagsmiðla nútímans. Komið er að kveðjustund og vil ég þakka kærri móður minni fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, umhyggjuna, takmarkalausu móðurástina og ekki síst vinskapinn og vil ég enda þessi orð á áðurnefndu orðatiltæki hennar: þú varst alltaf meiriháttar!

Jóhann P. Jónsson.
---------------------------------------

Ég kveð nú elskulegu móður mína með einlægu þakklæti í hjarta fyrir alla þá elsku sem hún hefur gefið mér. Stórt skarð hefur verið höggvið í fjölskylduna en minningin lifir í hjarta mínu um ókomna tíð.

 • Hjartans eldur hefur brunnið,
 • horfið það sem áður var,
 • lífsins starf svo lengi unnið
 • með ljósi margan ávöxt bar.

 • Þú sem gafst mér ást í æsku
 • sem entist vel á lífsins braut,
 • í faðmi þínum frið og gæsku
 • fann ég leysa hverja þraut.

 • Þú sem gegnum unglingsárin
 • áhyggjurnar mínar barst,
 • þú sem vildir þerra tárin,
 • í þjáningu mitt skjól þú varst.

 • Þú gafst mér alltaf gæsku þína
 • svo glaðlegt bros þú sendir mér.
 • Þín fagra birta fær að skína
 • og fylgja börnum hvert sem er.

 • Þig var best í heimi að hitta,
 • þín hlýja ávallt styrkti mig.
 • Þú sem varst mér stoð og stytta,
 • ég stend í þakkarskuld við þig

 • Hjartans eldur hefur brunnið,
 • horfið það sem áður var.
 • Æviskeið á enda runnið
 • en ávallt lifa minningar.
 • (Kristján Hreinsson)

Þín dóttir Hafdís.
--------------------------------------------------

Elsku yndislega mamma er farin frá okkur. Söknuðurinn er óendanlega mikill þar sem hún skipaði stóran sess í lífi okkar fjölskyldunnar.

Mamma var einstök að svo mörgu leyti. Persónuleiki hennar einkenndist af glaðværð, jákvæðni, kærleika og einstaklega miklu jafnaðargeði. Hún sagði þó alltaf sínar meiningar og lá ekkert á skoðunum sínum þegar það átti við. Það var ekki margt sem fór í taugarnar á henni en ég man sérstaklega eftir einu og það voru rifnar gallabuxur. Ég man eftir því fyrir nokkrum árum þegar við mæðgur skelltum okkur í Smáralind og fórum inn í fataverslun.

Þar sér hún rifnar gallabuxur hangandi á slá. Hún vindur sér að afgreiðslumanninum og spyr hvort hann sé virkilega að selja svona buxur á 20.000 kr. „Maður hefði bara verið lokaður inni í gamla daga ef maður hefði klæðst þessu,“ sagði hún við hann. Ef barnabörnin komu í slíkum buxum til hennar þá bauðst hún alltaf til að gera við þær fyrir þau, því það var alltaf stutt í húmorinn hjá henni.

Þessi skoðun mömmu á rifnum gallabuxum er til komin vegna þess að hún var mikil saumakona og byrjaði að sauma föt snemma á unglingsárunum. Hún sótti ýmiss konar saumanámskeið og var svo dugleg að prófa sig áfram. Þegar ég var barn þá saumaði hún á mig úlpur, snjóbuxur, jólakjóla og margt fleira. Þær voru ófáar stundirnar sem hún eyddi í þvottahúsinu í Skipasundinu við saumaskap. Hún var vandvirk og allt sem hún gerði þurfti að vera vel frágengið á röngunni.

Ef maður keypti sér flík þá byrjaði hún á því að skoða fráganginn á röngunni og dæmdi svo flíkina út frá því. „Maður hefði nú ekki skilað þessu svona frá sér,“ sagði hún oft ef flíkin var ekki vel unnin. Einn veturinn dreif hún sig á námskeið í bútasaumi sem er mikill nákvæmnissaumur. Þá saumaði hún dúka, rúmteppi, púða og margt fleira. Prjónaskapurinn lá nú líka vel fyrir henni og í seinni tíð prjónaði hún margar peysurnar á barnabörnin. Fram á síðasta dag þurfti hún alltaf að „vera með eitthvað í höndunum“ eins og hún kallaði það.

Mamma og pabbi höfðu verið gift í 62 ár þegar hann lést árið 2014. Það var erfitt fyrir mömmu þegar hann fór því þau voru einstaklega samrýnd hjón. En mamma var sterk. Fyrir um það bil mánuði sagði mamma mér að hana hefði dreymt pabba og þau hefðu verið að fara í ferðalag. Ég spurði hana hvert þau hefðu verið að fara, kannski til Spánar? „Æ ég man það ekki,“ sagði hún. Nú veit ég að pabbi hefur tekið vel á móti þér elsku mamma og þið eruð saman á skemmtilegu ferðalagi.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig elsku mamma mín. Ég sakna þín svo mikið en á margar yndislegar minningar sem ég ylja mér við.

Kristrún.
----------------------------------------------------

Nú er amma Soffía farin til afa.

Amma Soffía var ein af jákvæðustu og glöðustu manneskjum sem við höfum kynnst og hún dreifði þessari jákvæðu orku til sinna nánustu. Amma var mjög félagslynd og átti auðvelt með að spjalla við fólk og eignast góða vini.

Það var alltaf gott að koma til ömmu. Þegar við vorum í pössun hjá henni og afa þegar við vorum litlir þá var alltaf farið í leikinn að fela hlut, sem okkur þótti gríðarlega skemmtilegt.

Þegar við urðum eldri komum við oft til hennar eftir skóla, fengum okkur „kaffi“ og ræddum málin. Það var alltaf nóg á boðstólum, brauð, kex og kökur. Ömmu var mjög umhugað um okkur og vildi alltaf vita hvað væri að frétta og hvernig okkur gengi í skólanum.

Okkur þótti ofsalega vænt um ömmu og við söknum hennar mikið.

Takk fyrir allt, elsku amma Soffía.

Vigfús Máni og Sindri Jón.

Nú er komið að kveðjustund kæra systir mín.

Við systurnar vorum þrjár, Soffía elst, síðan Bára sem lést árið 2014 og ég, Fríða, yngst. Við fæddumst á Siglufirði og slitum þar barnsskónum. Við fluttumst síðan til Reykjavíkur og stofnuðum hver sína fjölskyldu.

Það sem einkenndi Soffíu frá fyrstu tíð var glaðværð og einstaklega gott skaplyndi og var hún mikill húmoristi. Hún var glæsileg, heilsteypt og vönduð kona.

Alla tíð voru samskipti okkar mikil og góð. Þá var ýmsum tímamótum, stórum og smáum, fagnað saman. Greiðasemi og hjálpsemi Soffíu var einstök en hún var snillingur í allri handavinnu og mikil saumakona. Þær voru ófáar flíkurnar sem hún saumaði fyrir mig og á mín börn og hjálpaði þegar þörf var á.

Á heimili Nonna og Soffíu voru ætíð allir velkomnir og vel tekið á móti öllum sem þangað komu. Ekki var síðra að bjóða Soffíu heim, því orðatiltæki hennar var „þetta var alveg meiriháttar“ þegar hún var að þakka fyrir sig, líður seint úr minni.

Hinn 28. júní sl. var 90 ára afmælisdagur Soffíu, ég og afkomendur hennar hittumst heima hjá henni í kaffiboði til að gleðjast saman á fallegum degi sem skilur eftir sig fallegar og ljúfar minningar.

 • Hlýjar kveðjur
 • til þín ég hugsa,
 • staldra við.
 • Sendi ljós
 • og kveðju hlýja.
 • Bjartar minningarnar lifa
 • ævina á enda.
 • (Hulda Ólafsdóttir)

Kæru systkin, Jóhann, Hjálmar, Hafdís og Kristrún, og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur frá fjölskyldu okkar.

Hólmfríður (Fríða) og Kristján.
-----------------------------------------------------

Mikil sómakona hefur kvatt þennan heim. Soffíu G. Jóhannsdóttur kynntist ég í kjölfar þess að við Jóhann Pétur, frumburður hennar og Jóns heitins Hjálmarssonar, urðum bekkjarbræður 12 ára gamlir í B-bekknum hans Ingimundar Ólafssonar í Langholtsskóla. Við Jóhann urðum bestu vinir og hefur sú vinátta haldist síðan.
Soffía og Jón bjuggu þá í Skipasundi 35 í Reykjavík og heimilinu stýrði Soffía röggsamlega með liðstyrk Petrínu móður sinnar. Báðar einstaklega hjartahlýjar og brosmildar. Ég fann það fljótlega eftir að kynni okkar Jóhanns hófust að það var grundvallaratriði í þeirra lífi að Jóhann skorti aldrei neitt. Ég held mér sé óhætt að segja að báðar hafi þær borið hann á höndum sér.

Mér er minnisstætt frá táningsárunum okkar að reglulega birtist Jói í nýjum buxum, nýrri skyrtu og svo kom nýr jakki eða blússa. Varstu að kaupa þér nýjar buxur? Nei, mamma saumaði þær. En skyrtan? Mamma saumaði hana líka. Þetta þótti mér með ólíkindum. Þessi myndarskapur Soffíu gilti auðvitað einnig gagnvart systkinum Jóhanns. Soffía saumaði á þau öll árum saman enda var hún dugnaðarforkur og laghent í betra lagi. Þess skal þó getið að þar kom að Jóa, eins og okkur hinum, var lífsnauðsyn að kaupa skyrtur, boli og uppháa leðurskó í tískubúðunum Karnabæ og Faco.

Um árabil bjó ég úti á landi. Þá var oft langt á milli heimsókna og sjaldgæft að hitta Soffíu og Jón. En alltaf urðu það fagnaðarfundir og jafnan hélt Soffía uppi fjörinu, hress, kát og hreinskiptin. Samverustundir í sumarfríi á Spáni fyrir mörgum árum eru ógleymanlegar. Þá var oft „meiriháttar“ gaman, svo gripið sé til þess lýsingarorðs sem Soffía notaði til að lýsa því sem henni þótti best eða skemmtilegast. Á síðari árum lét Soffía oft í ljós að henni þætti vænt um langa og góða vináttu okkar Jóa. Væntumþykja Soffíu um þau vinabönd yljar mér um hjartarætur.

Fyrir nokkrum árum kom Soffía í heimsókn á heimili okkar Höllu. Þar er margvíslegt dót en hún tók sérstaklega eftir gömlum koffortum eða kistum. Fannst þær greinilega stinga í stúf við annað og varð að orði: „Er þetta nú orðið stofustáss?“ Alltaf hrein og bein. Soffía var hlý og góð manneskja sem lifði vel og lengi. Fjölskylda hennar og vinir munu sakna hennar í bráð og lengd.

Við Halla vottum börnum Soffíu og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar.

Eiríkur G. Guðmundsson.

Soffía Jóhannsdóttir á yngri árum -- Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson

Soffía Jóhannsdóttir á yngri árum -- Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson