Þórarinn Arnar Gunnlaugsson

mbl.is - 14. júlí 2021 | Minningargrein

Þórarinn Gunnlaugsson fæddist 12. september 1938 á Siglufirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 9. júní 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Gunnlaugur Hjálmarsson, f. 11.12. 1904, d. 18.2. 1976 og Þuríður Gunnarsdóttir (Hulla), f. 13.2. 1913, d. 13.9. 1958.

Systkini Þórarins eru

 • Gunnar Hreinn Gunnlaugsson, f. 12.6. 1935,
 • Gígja Gunnlaugsdóttir, f. 8.1. 1937 og
 • Ingi Steinar Gunnlaugsson, f. 27.2. 1947.

Þórarinn kvæntist 11.12. 1969 Henny Nielsen frá Færeyjum, f. 31.10. 1942.
Þau eignuðust 3 börn:

1) Tómas Ingi Þórarinsson, f. 8.8. 1969, kvæntur Mirjam Foekje van Twuijver, f. 9.4. 1969. Börn hans eru
Þórarinn Arnar Gunnlaugsson - ókunnur ljósmyndari

Þórarinn Arnar Gunnlaugsson - ókunnur ljósmyndari

 • Þórarinn Ingi, f. 5.1. 1987,
 • Guðný Lára, f. 2.9. 1991,
 • Eydís Lind, f. 20.3. 1993,
 • Gunnlaugur Friðberg, f. 12.1. 1998,
 • Jón Pétur, f. 7.10. 2001,
 • Mikael Þeyr, f. 15.3. 2008 og
 • Ísey Lilja, f. 22.10. 2009.
2) Marteinn Þórarinsson
, f. 11.8. 1971, sambýliskona Sigurveig Kr. Guðmundsdóttir, f. 15.2. 1972. Börn hans eru
 • Þórarinn Fannar, f. 30.1. 1990,
 • Guðmundur Hreiðar, f. 11.3. 1991, d. 30.6. 2019 og
 • Katrín Ingibjörg, f. 6.2. 1993.
3) Þuríður Júdit Þórarinsdóttir,
Börn þeirra
f. 19.11. 1975, gift Finni Guðmundssyni, f. 13.3. 1970.
 • Örn, f. 25.12. 1997 og
 • Kristvin, f. 18.11. 1999.

Barnabarnabörn Þórarins eru orðin 10 talsins.

Þórarinn flutti frá Siglufirði til Akraness árið 1960 og var bæði sjómaður og verkamaður í landi og vann við hin ýmsu störf. 2004 flyst hann á höfuðborgarsvæðið og árið 2020 verður hann heimilismaður á hjúkrunarheimilinu Grund.

Útför Þórarins fór fram í kyrrþey.

Ef ég hef unnið í einhverju þá var það í pabbalottóinu, ég fékk dásamlegan pabba sem var alltaf blíður og góður við menn, börn og dýr. Þolinmóður, skapgóður, mildur og hlýr, þetta eru allt lýsingarorð sem eiga við pabba, mjög ung ákvað ég að ég vildi líkjast pabba að þessum eiginleikum og því hef ég reynt að fylgja.

Pabbi minn elskaði vísur en var sjálfur skúffuskáld, sínar vísur faldi hann í skúffunni sinni en bræður hans hafa báðir gefið út ljóðabækur. Þegar pabbi minn var 12 ára gamall var honum gert að búa til vísur í skólanum, hann gerði einmitt þá vísu sem hann sagði mér oft en hún er svona:

 • Kjartan karlinn æfur orðinn er,
 • langar mig hann að kyrkja.
 • Alltaf skipar hann mér,
 • skipar hann mér að yrkja.

Kjartan var kennarinn hans en fyrir um þremur árum datt mér fyrst í hug að spyrja pabba hver viðbrögð Kjartans hefðu verið við vísunni og fékk ég þá að vita að pabbi skilaði náttúrlega aldrei þessari vísu heldur einhverri mun saklausari vísu sem ég hef áreiðanlega aldrei heyrt.

Síðustu vikurnar hans fylgdum við pabba í gegnum hans síðustu daga, ég fann þegar hann var sóttur til næsta tilverustigs, þegar ég spurði pabba minn hvort hann ætlaði til Sigló í sumar hætti hann að anda en hjarta hans sló smástund lengur undir lófa mínum. Ég kvaddi hann á þeirri stundu. Góða ferð, elsku pabbi minn, takk fyrir allar samverustundirnar og allt það sem þú kenndir mér.

Þín dóttir, Þuríður Júdit (Hulla).
---------------------------------------------------------

Ástkær bróðir minn, Þórarinn Arnar Gunnlaugsson, lést á Grund hjúkrunarheimili, 9. júní sl. Hann hafði lengi átt við vanheilsu að stríða og varð síðan fyrir því óláni að detta og brotna illa og greru þau brot ekki.

Þórarinn, sem oftast var kallaður Tóti, var þriðja barn foreldra sinna, en fyrir áttu þau Gunnar og Gígju, seinna eignuðust þau Inga Steinar. Tóti fæddist á Siglufirði og ólst þar upp. Það voru yndisleg ár og áttum við systkinin góða daga. Margar minningar koma upp í hugann þessa dagana, minningar um ýmsa leiki og athafnir, skíðaferðir og snjókast. Öll áttum við skíði og voru þau óspart notuð því oftast var nægur snjór á vetrum á Siglufirði.

Ungur að árum veiktist Tóti af heilahimnubólgu og náði hann sér aldrei að fullu eftir það. Minni hans var skert og barðist hann alla tíð við minnisleysi og var það honum oft fjötur um fót. Hann lauk samt iðnskólanámi og tók sitt bílpróf og gekk vel.

Tóti hafði gaman af vísum og kunni þær margar, en eina vísu hélt hann sérstaklega upp á og fór oft með hana seinni árin, en hún er eftir Baldvin Halldórsson kenndan við Þverárdal og hljóðar þannig:

 • Ellin herðir átök sín
 • Enda sérðu litinn.
 • Æviferðafötin mín
 • Fara að verða slitin.

Tóti fluttist til Akraness rúmlega tvítugur ásamt föður sínum, en fljótlega eftir það kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Henny Nielsen frá Borgarfirði eystri. Þau hófu búskap á Akranesi og bjuggu þar lengst af, en fluttu sig um síðir til Reykjavíkur.

Þau eignuðust þrjú börn, Tómas, Martein og Þuríði Júdit.

Tóti stundaði sjóróðra frá Akranesi og starfaði einnig hjá H. B. & Co. og í Sementsverksmiðjunni. Tóti var hjálpsamur og vildi allra götu greiða, mátti ekkert aumt sjá hvorki hjá dýrum né mönnum.

Með kærri þökk og með söknuð í hjarta kveð ég kæran bróður minn, en veit að hann fær góðar móttökur á nýrri strönd.

Gígja Gunnlaugsdóttir.