Tengt Siglufirði
mbl.is - 22. júlí 2021 | Minningargreinar
Óskar Konráðsson fæddist á Siglufirði 6. ágúst 1935. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 9. júlí 2021.
Óskar var sonur hjónanna Pálínu Önnu Ingimarsdóttur, húsmóður frá
Ólafsfirði, og Konráðs Kristins Konráðssonar, sjómanns frá Tjörnum í Sléttuhlíð. Þau eru bæði látin.
Systkini Óskars eru
Óskar kynntist eiginkonu sinni, Stefaníu Eyjólfsdóttur,
f. 1.10. 1939, árið 1959 og giftu þau sig árið 1960.
Börn þeirra eru
Fyrir átti Óskar Jón eina dóttur,
sem síðan var ættleidd.
Hún hét
Óskar útskrifaðist sem húsasmíðameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1963. Hann vann lengst af sem byggingareftirlitsmaður skólabygginga hjá Skólaskrifstofu Reykjavíkur og síðar Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.
Jarðarför Óskars fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 22. júlí 2021 og hefst athöfnin kl. 13.
----------------------------------------------------------
Elsku pabbi minn, þá er komið að kveðjustundinni og hún er erfið. Nýrnasjúkdómurinn sigraði þig að lokum eftir langa baráttu.
Pabbi var hlýr og traustur faðir. Hann hugsaði mun betur um sína nánustu en sjálfan sig. Hann var gjafmildur, en var sjálfur nægjusamur. Aldrei kvartaði hann undan hlutskipti sínu. Mamma og hann hafa nú verið gift í yfir 60 ár, svo missir mömmu er mikill. Fjölskyldan öll mun sakna pabba mikið. Við pabbi áttum margar ánægjulegar og eftirminnilegar stundir saman.
Pabbi var handlaginn, menntaður sem húsasmíðameistari og góður smiður. Hann var samviskusamur og kenndi börnum sínum þá dyggð. Húsið hans var stolt hans sem hann byggði sjálfur. Hann eyddi miklum tíma í það. Enda kom ekki til greina að flytja í „hentugra“ húsnæði. Húsið hefur verið heimili hans og mömmu í nærri hálfa öld. Pabbi var góður í matseldinni og eldaði oft. Hann var jólabarn og mikill sælkeri. Í byrjun desember var heimilið skreytt og fór hann alltaf beint til framleiðenda og keypti birgðir í kassavís af bæði sælgæti og gosi. Svo stálumst við systkinin í sælgætið yfir jólin þar til allt var skyndilega búið í janúar.
Pabbi stundaði sund fatlaðra af miklu kappi. Síðar var það bogfimi sem tók við. Pabbi vann til fjölmargra verðlauna bæði fyrir sund og bogfimi hérlendis og á Norðurlandamótum. Hann tók virkan þátt bæði hjá ÍFR og Sjálfsbjörg. Hann vann lengst af sem byggingaeftirlitsmaður skólabygginga á Skólaskrifstofu Reykjavíkur. Þar var hann ánægður og eignaðist góða vinnufélaga.
Pabbi var fjölskyldumaður. Við fundum það að mamma, ég og systur mínar vorum honum dýrmæt. Síðar bættust við tengdabörn, barnabörn og nú síðast langafabörn. Mikilvægasta og ánægjulegasta ferðalag hvers árs var að heimsækja ættingja hans á Siglufjörð, ömmu Pálu og afa Konna, systkini pabba og annað skyldfólk okkar þar. Þær ferðir voru okkur öllum dýrmætar.
Afadætur hans Jónína og Stefanía biðja fyrir afa sínum. Þær hafa nú misst yndislega afa sinn og sakna nú þegar allra heimsóknanna til ömmu og afa í Viðjugerði og sameiginlegra ferðalaganna á sumrin. Hann var dásamlegur afi dætra minna, alltaf góður, hugulsamur og örlátur. Hann var stoltur af okkur og við vorum afar stolt af honum.
Við þökkum öll starfsfólki Heru fyrir umönnun og líknardeildar Landspítalans í Kópavogi fyrir hjúkrun. Ykkar starf og fleiri í garð pabba var ómetanlegt og okkur aðstandendum mjög mikils virði.
Við munum öll sakna pabba og afa sárt. Elsku mamma og amma, við vitum að missir þinn er mikill og erfiður. En við munum öll hjálpast að í gegnum þessa erfiðleika, eins og við lofuðum pabba.
Hvíl í friði elsku pabbi og afi.
Óskar Páll Óskarsson, Jónína Anna og Stefanía Laufey.
-----------------------------------------------------------------------
Mig langar í nokkrum orðum að minnast bróður míns Óskars Jóns Konráðssonar sem fallinn er frá eftir erfið veikindi. Óskar var elstur í systkinahópnum og var hann okkur mikil fyrirmynd. Við ólumst upp á Siglufirði og fljótt kom í ljós hve duglegur Óskar var þar sem hann var mjög ungur farinn að hjálpa mömmu með okkur fjögur yngri systkinin þar sem pabbi var víðsfjarri við vinnu. Snemma fór Óskar út á vinnumarkaðinn og var hann aðeins 13 ára gamall þegar hann byrjaði að vinna í Síldarverksmiðjunni Rauðku eins og við Kiddi bróðir gerðum einnig, þannig var þetta á þessum tíma, allir sem vettlingi gátu valdið fóru að vinna.
Ég man vel eftir því hve gaman honum þótti að veiða og hafði hann ekki langt að sækja það en Konnarnir eins og við höfum verið kallaðir erum þekktir fyrir mikið veiðieðli. Silungsveiði var í miklu uppáhaldi hjá honum og Héðinsfjörðurinn sá staður sem var honum kær þegar að veiðum kom.
Þegar Óskar var 16 ára gamall flutti hann suður og hóf störf á Keflavíkurflugvelli við smíðar og festi rætur í Reykjavík þar sem hann kynntist Stefaníu eiginkonu sinni. Hann hóf nám í húsasmíði og var fljótt ótrúlega útsjónarsamur, framsýnn og harðduglegur. Óskar stofnaði ungur að árum ásamt öðrum fyrirtækið Sökkul og tóku þeir að sér að byggja fjölda íbúða fyrir Reykjavíkurborg. Þegar Óskar var 28 ára gamall lenti hann í alvarlegu vinnuslysi við steypuvinnu þegar kranabóma féll á hann og var honum vart hugað líf.
En Óskar sýndi það að hann bjó yfir miklum styrk, þrautseigju og þolinmæði. Hann hafði betur og gafst aldrei upp, harkan sex var það sem kom honum áfram. Með sinni hugarró og æðruleysi sætti hann sig við það sem hann gat ekki breytt og sýndi engin veikleikamerki. Hann byggði sér, Stefaníu og börnum þeirra heimili í Viðjugerði í Reykjavík og þar ólust Sonja, Erla og Óskar Páll upp.
Þrátt fyrir að Óskar hafi farið ungur að heiman þá togaði fjörðurinn í hann. Hann heimsótti Siglufjörð reglulega með fjölskyldu sinni og dvaldi þá á æskuheimili sínu á Hafnargötu 18, sem síðar varð heimili Möggu systur okkar eftir að mamma og pabbi féllu frá en Magga lést árið 2019 eftir stutt veikindi. Hafnargata 18 geymir allar þær góðu minningar um okkur fjölskylduna og Gumma bróður sem kvaddi okkur alltof snemma.
Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem mér var gefinn til að sitja hjá Óskari bróður þessa síðustu daga hans, halda í hönd hans og líta yfir farinn veg. Ég sendi Stefaníu, Sonju, Erlu, Óskari Páli og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Ég á góðar minningar um Óskar og þær mun ég varðveita. Hvíl í friði elsku bróðir.
Þinn bróðir, Sigurður Konráðsson (Siggi).