Unnur Guðrún Rögnvaldsdóttir

mbl.is - 21. ágúst 2021 | Minningargreinar

Unnur Rögnvaldsdóttir fæddist á Siglufirði 27. maí 1979. Hún ólst upp á Siglufirði, flutti til Reykjavíkur og bjó þar í nokkur ár en flutti svo aftur heim. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Siglufirði, 10. ágúst 2021.

Foreldrar hennar eru, Auður Björk Erlendsdóttir, f. 11. maí 1957 á Siglufirði, og Rögnvaldur G. Gottskálksson, f. 17. maí 1955 á Siglufirði.

Systir hennar er

Aðalheiður Lovísa Rögnvaldsdóttir, f. 3. janúar 1982 á Siglufirði, maki hennar er, Guðjón Hall Sigurbjörnsson, f. 9. janúar 1981 á Blönduósi. Börn þeirra eru,
 • Lárey Lind Guðjónsdóttir, f. 27. desember 2008 í Reykjavík, og
 • Magnea Mist Guðjónsdóttir, f. 16. nóvember 2012 í Reykjavík.

Unnur Guðrún lætur eftir sig tvö börn með fyrrverandi maka sínum, Kristni Kristjánssyni, f. 15. apríl 1973 á Siglufirði.
Börn þeirra eru,

Unnur Guðrún Rögnvaldsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Unnur Guðrún Rögnvaldsdóttir - ókunnur ljósmyndari

 • Hilmir Darri Kristinsson, f. 25. maí 2010 í Reykjavík, og
 • Auður Anna Kristinsdóttir, f. 22. febrúar 2013 í Reykjavík.
  Barn Kristins frá fyrra sambandi er
 • Arnór Gauti Kristinsson, f. 17. júní 2000 í Reykjavík, maki hans er Hrafnhildur Elín Hinriksdóttir, f. 7. september 2001 á Akranesi,
  dóttir þeirra er
 • Alda Þalía Arnórsdóttir, f. 28. desember 2020 á Akureyri.

Unnur Guðrún kom víða við. Hún var mjög liðtæk í sportinu, stundaði skíði, fótbolta og blak, svo eitthvað sé nefnt. Hún lauk grunnskólanámi frá Siglufirði og útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Unnur Guðrún útskrifaðist í uppeldis- og menntunarfræði 20. júní 2009 í Reykjavík og hlaut lærdómstitilinn baccalaureus artium. Hún útskrifaðist í kennslu á grunnskólastigi 11. júní 2021 á Akureyri og hlaut lærdómstitilinn magister educationis MT.

Útför hennar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 21. ágúst 2021, klukkan 11.

Streymt verður frá útförinni: https://youtu.be/iSGED9sHye8 - Virkan hlekk má finna á: 

---------------------------------------------------------------------

Elsku Unnur.

Það er óskiljanlegt að þú sért farin frá okkur. Að ég muni aldrei sjá þig aftur. Þú varst besta systir í heimi og vildir öllum vel. Fallegri manneskju hef ég ekki kynnst bæði að innan sem utan, þvílík fegurð sem allir tóku eftir. Ég var alltaf montin að vera systir þín og er það enn. Þegar ég kynnti mig þá endaði kynningin alltaf á: Ég er systir Unnar.

Allir vissu hver þú varst, dökkhærða, fallega, góða Unnur. Ég fékk fyrsta vinninginn í systralottóinu. Allt sem við brölluðum heima á Sigló, spjallið okkar í eldhúsinu, fórum í skóla á Krókinn, alltaf varst þú til í að leyfa mér að hanga með þér, samt var ég stundum óþolandi litla systir en alltaf varst þú góð við mig og vini mína.

Þegar ég flutti suður. Hver tók á móti mér? Þú, þú varst kletturinn minn. Við skoðuðum mörg hreysi saman þegar ég var að kaupa mína fyrstu íbúð, mér var alveg sama hvað mikill tími fór í þetta, því ég var að skoða með þér.

Alltaf var stutt í grínið hjá þér. Ég gleymi því aldrei þegar við fjölskyldan ræddum saman um hve alvarleg veikindin þín væru. Þegar þú stóðst upp og sagðir: Ég er þó allavega mjó, og hlóst. Þessi brandari endaði á Facebook-inu þínu, sem margir skildu ekki en alltaf hlógum við.

Þegar ég vissi að ég væri ófrísk, ég var spennt að segja Guðjóni, en vá hvað ég var spennt að segja þér. Það var ekki spurning hvern ég vildi hafa hjá mér í fæðingunni. Stundirnar okkar með gríslingana okkar, sunnudagaskólarnir, húsdýragarðsferðirnar, matarboðin og gistinæturnar hjá þér. Þegar þú fluttir aftur á Sigló, símtölin og hláturinn. Spenningurinn hjá mér og börnunum mínum að koma á Sigló, alltaf tókst þú á móti okkur með bros á vör.

Þetta er svo ósanngjarnt, þetta orð ósanngjarnt var það síðasta sem ég heyrði þig segja. Af hverju þarf þetta að vera svona ósanngjarnt? Þú áttir allt lífið fram undan. Yndisleg móðir, sem gerðir allt fyrir börnin þín. Þú barðist eins og ljón allan tímann, þvílíkur viljastyrkur sem þú hafðir en því miður gaf líkaminn sig á endanum, hvernig er hægt að leggja svona miklar þjáningar á svona góða manneskju.

Ég vildi óska þess að ég hefði getað tekið eitthvað af þessum sársauka. Aldrei kvartaðir þú þegar ég spurði hvernig þér liði, þá var svarið, ágætlega, sama hversu veik þú varst.

Alltaf vonaði ég að nú væri búið að lækna þig og allt yrði gott. En því miður fór það ekki svoleiðis. Orð fá því ekki líst hvað mér finnst þetta ósanngjarnt. Að þú fáir ekki að fylgjast með börnunum þínum vaxa úr grasi. Yndislegu og hjartahlýju börnunum, sem eru spegilmynd þín. Það er sárt að vita til þess að þau fái ekki lengur að vera hjá þér, móður sinni.

Ég veit að nú ertu á betri stað og laus við sársaukann. Nú ertu engill sem vakir yfir börnunum þínum og okkur sem elskum þig. Sú vitneskja veitir mér styrk en á sama tíma er ég reið og sorgmædd að þú sért ekki lengur hér.

Eitt máttu vita, elsku Unnur, ég mun aldrei gleyma þér og mun ávallt elska þig.

Hvíldu í friði, elsku besta systir mín. Ég elska þig af öllu hjarta.

Þín systir Aðalheiður L. Rögnvaldsdóttir (Heiða Valda).
---------------------------------------------------------------------

Æðruleysi lýsir vel elsku frænku. Þessi unga, fallega, sterka og hugrakka kona hafði styrk, innri frið, þrek, vit og skynsemi sem var hennar aðalsmerki.

Við sem eftir erum leitum skýringa, búum til orð sem hugga okkur og gefa okkur kraft til að halda áfram. Því við eigum erfitt með að skilja þessa hörku og þetta þunga högg sem við höfum orðið fyrir. Þetta tóm sem hefur skapast. Það er erfitt að skilja; af hverju hún?

Við sem erum náin henni og höfum verið samferða alla tíð erum þakklát fyrir þann tíma sem við höfum fengið og þær góðu minningar sem við eigum. Við Unnur Guðrún áttum margar góðar stundir saman bæði heima á Sigló og í Reykjavík. Það var margt skrafað og brallað. Hún átti auðvelt með að leika sér og smita gleði og hlátri út frá sér í allar áttir. Hún kunni að njóta líðandi stundar og vera hér og nú.

Frændur hennar, Guðlaugur og Gunnar, eiga henni og systur hennar Aðalheiði mikið að þakka. Þær systur kenndu frændum sínum á skíði og bretti á skíðasvæði okkar Siglfirðinga í Skarðsdal þó þær væru ekki mikið eldri en þeir. Það er ógleymanleg og skemmtileg lífsreynsla sem þeir koma til með að varðveita í minningunni um elsku frænku sína.

Í hvert inn sem Unnur Guðrún leit á börnin sín var móðurástin öllu yfirsterkari, hún var stolt mamma. Hún elskaði börnin sín af öllu hjarta. Þau voru henni allt. Þau eiga góðar minningar sem hún byrjaði snemma að leggja grunn að. Veganestið sem hún gefur börnunum sínum mun alltaf fylgja þeim hvort sem þau taka eftir því eða ekki.

Elsku Hilmir Darri, Auður Anna, Auður, Valdi, Heiða, Guðjón, Lárey, Magnea og Kristinn. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni. Megi minningarnar ylja ykkur um ókomna tíð.

 • Þó er eins og yfir svífi
 • enn og hljóti að minna á þig,
 • þættirnir úr þínu lífi
 • þeir sem kærast glöddu mig.

 • Alla þína kæru kosti
 • kveð ég nú við dauðans hlið,
 • man er lífsins leikur brosti
 • ljúfast okkur báðum við.
  (Steinn Steinarr)

Sóley, Birgir, Guðlaugur og Grace  - Gunnar Birgisson.
-------------------------------------------------------------------

Elsku Unnur Guðrún, það er sannarlega sárt að þurfa að kveðja þig, unga og sterka konu sem tókst á við erfið veikindi af miklu æðruleysi og seiglu.

Við erum innilega þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig í fjölskyldunni og notið þeirra forréttinda að kynnast mannkostum þínum sem voru afar margir. Þú varst einstaklega falleg, sterk, kraftmikil, ljúf, ráðagóð og dugleg kona. Sérstaklega varstu þolinmóð og yndisleg móðir og lifðir fyrir börnin þín og að búa þeim fallegt, ánægjulegt og gott líf.

Stórt skarð hefur nú verið höggvið í litlu fjölskylduna okkar sem verður ekki fyllt, en við erum þakklát fyrir ljúfar samverustundir og minningar sem munu ylja okkur um ókomna tíð.

 • Ég sendi þér kæra kveðju
 • nú komin er lífsins nótt,
 • þig umvefji blessun og bænir
 • ég bið að þú sofir rótt.
 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því,
 • þú laus ert úr veikinda viðjum
 • þín veröld er björt á ný.
 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér,
 • og það er svo margs að minnast
 • svo margt sem um hug minn fer,
 • þó þú sért horfin úr heimi
 • ég hitti þig ekki um hríð,
 • þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð.
 • (Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Hilmir, Auður Anna, Valdi, Auður, Heiða, Guðjón, Lárey og Magnea, missir ykkar er mikill, megi Guð og allar góðar vættir styrkja ykkur í sorginni.

Minning um yndislega konu mun alltaf lifa í hjörtum okkar,

Gunnar, Erla Ósk, Elsa María og Elva Björg.
-----------------------------------------------------------------------

Það er með sorg í hjarta sem ég sest niður og skrifa minningargrein um bestu vinkonu sína, en efst í huga mínum er sönn vinátta í rúm 42 ár. Við fæðumst með dags millibili og erum skírðar á sama degi og fengum báðar millinafnið Guðrún af tilviljun og má með sanni segja að við höfum fylgst að alla tíð síðan. Við vorum saman í grunn- og framhaldsskóla og nánast í öllum íþróttum, æfðum fótbolta með KS og skíði með skíðafélaginu.

Þó svo að við værum bestu vinkonur þá var mikil keppni á milli okkar en það gleymdist alltaf daginn eftir. Eftir grunnskóla lá leiðin á Krókinn í Fjölbraut þar sem við nutum lífsins og eignuðumst fullt af vinum sem eru ennþá miklir vinir okkar í dag, báðar spiluðum við fótbolta með Tindastóli og eru margar góðar minningar sem sitja eftir. Eftir Fjölbraut fórum við báðar suður í meira nám og vorum alltaf í miklu og nánu sambandi.

Svo kom mikilvægasta verkefnið; börnin þín sem voru þér allt, litlu sólargeislarnir Hilmir og Auður. Það sem þú elskaðir að vera mamma enda vafðist það ekki fyrir þér, varst reyndar búin að fá góða æfingu með hann Arnór þinn, sem þér þótti svo vænt um.

Árið 2011 flutti ég aftur heim á Sigló og tveimur árum seinna flytur þú með þína fjölskyldu og erum við aftur orðnar sameinaðar heima á Sigló.

Fljótlega eftir að þú flytur heim kynnumst við annarri íþrótt, blaki, og vorum við ekki lengi að tileinka okkur það og á einum tímapunkti vorum við allar vinkonurnar í besta saumaklúbbnum í blaki. Að baki eru óteljandi ferðalög, mót, leikir og frábær félagsskapur, keppnisskapið sem að vísu einkennir okkur báðar aldrei langt undan. Það er svo minnisstætt þegar þú horfðir í augun á mér og sagðir við mig fyrir leiki: „Ása, við erum sko ekki að fara að tapa fyrir þessu liði“ og ef svo vildi til að við töpuðum var leikurinn ræddur daginn eftir yfir kaffibolla.

Ári eftir að þú greinist þá kemur þú til mín og segir: „Ása, það er landsmót á Króknum, eigum við ekki að taka þátt í strandblaki?“ Ég hélt það nú og við skelltum okkur og létum búa til okkar eigin treyjur; „Sigló-79“, og áttum við frábæra helgi heima hjá Kolbrúnu vinkonu okkar. Eftir að við urðum fertugar langaði okkur að prófa eitthvað nýtt og skelltum okkur í golfið.

Baráttan þín við þennan sjúkdóm var með ólíkindum, allt sem þú gekkst í gegnum á þessum tíma, allar aðgerðirnar og lyfjagjafirnar, alltaf stóðstu upp og hélst áfram og stundum átti maður ekki til orð yfir kraftinum í þér og oftar en ekki þegar þú varst spurð var svarið allaf „ég er bara góð“. En á endanum var baráttan orðin erfið og enn erfiðara að horfa á sjúkdóminn taka völdin.

Elsku besta Unnur mín, allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman og minningarnar eru dýrmætar og ógleymanlegar. Ég hugsa til þín með ást og kærleika og mun sakna þín að eilífu.

Elsku Hilmir, Auður Anna, Kiddi, Arnór, Auður, Valdi, Heiða og fjölskylda, megi minningin um yndislegu fallegu Unni okkar lifa í hjarta okkar alla ævi.

Þín vinkona, Ása Guðrún.
-------------------------------------------------------------

Hjartans Unnur mín.

Ég hlusta á „nostalgíu“-tónlistina okkar frá því við vorum yngri, sem við blöstuðum um árið á Sunny-inum keyrandi yfir Tröllaskarðið milli Sigló og Króksins, alltaf að fara eða koma af skíðum. Þeirri sömu og við botnuðum í vor þegar við vorum að plana þyrluskíðaferðina okkar á Tröllaskaga. Góð kona sagði mér að þegar að mögulegt fráfall væri yfirvofandi þætti sálinni ljúft að gera alls kyns skemmtileg plön, sem við gerðum. Mikið er ég þakklát fyrir stundirnar okkar þar sem við nutum þess að tala klukkustundum saman alveg hömlu- og ritskoðunarlaust, um lífið eftir dauðann og alls kyns möguleika vitundarinnar. Ég gleðst yfir tækifærinu sem ég fékk til að þakka þér í lifandi lífi fyrir allt okkar.

Á svona stundum verða bænir umfangsmeiri í hjartanu og æðruleysisbænin spilar sig sjálfkrafa. Magnað finnst mér þó að löngu áður en þessi veikindi dundu yfir varstu algjör holdgervingur æðruleysis en fyrsta lexían sem þú gafst mér var fyrir um 25 árum en við vorum báðar komnar á fast. Ég var í einhverju óöryggi með mína sjálfsmynd í mótun að spyrja þig ráða. Hvernig þú gætir alltaf verið svona slök og svöl þegar kærastarnir okkar væru víðs fjarri? Mér fannst svarið þitt svo merkilegt og það fylgdi mér. Þú sagðir: „hann getur bara átt sig sjálfur ef ...“. Þú varst ekki mikið að láta dramatíkina koma þér úr jafnvægi.

Ég man líka þegar við fengum skyndihugdettu um bíóferð. Eins og flestir vita gerðum við ekki mikið af því í okkar heimabæjum og þurftum við því að sækja vatnið yfir lækinn, yfir í annan fjörð. Við vorum orðnar seinar í bíóið á Akureyri þrátt fyrir að vera á Eclipse-inum hans Ómars og var ferðin okkar stöðvuð langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Við fengum auðvitað vandað tiltal en önnur okkar var svo heppin að rétt sleppa frá því að missa prófið á staðnum þar sem eins kílómetra vikmörk í umferðarlögum björguðu okkur fyrir horn.

Merkilegt hvað okkur fannst við alltaf rosalega góðir bílstjórar, ósnertanlegar og jafnvel eilífar. Sekt og nokkrir punktar voru okkar eina refsing á þeim tíma. Annað en vægðarleysið sem við erum öll að takast á við núna. Orðin fanga ekki hversu brothætt og dýrmætt lífið er.

Var það ekki frekar mótstraums þegar við fórum að rugla saman reytum skvísurnar, Skagfirðingar og Siglfirðingar? Við létum ekki smábæjaríginn þvælast fyrir okkur frekar en námið. Þið Ása, Kolla, Ólöf, Lárey, Una og við Lilja og tvíburarnir vorum mest bara að skemmta okkur. Miðgarður miðpunktur alheims okkar. Ég man hvað mér fannst þú sérstök, með þitt fagra og framandi útlit, augu sem sáust sjaldan á okkar norðurslóðum, vá.

Síðustu daga höfum við vinkonurnar deilt myndum og minningum með þér og grátið og hlegið yfir þeim. Sjá okkur á ströndinni í útskriftarferð þar sem ég var að bera á þig sólarvörn, þú með þína dökku húð en ég bleik og brennd þér við hlið, mjög kómískt. Svo varst þú með húðflúr af sólinni sjálfri þegar engum öðrum datt slíkt í hug, váá.

Við elskum þig Unnur. Megi allt þitt fólk vera ævinlega blessað og baðað ljósi.

Meira á: https://mbl.is/andlat -

Sólveig Þórarinsdóttir.
--------------------------------------------------------------------

Það er okkur ákaflega erfitt að kveðja okkar elskulegu Unni, einstaka vinkonu sem er farin frá okkur langt fyrir aldur fram.

Leiðir okkar lágu saman í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki. Strax við fyrstu kynni ræktaðist dýrmætur vinskapur þar sem Unnur og við tvíbbarnir, eins og hún kallaði okkur, fórum í ófáar heimsóknir á sveitaböllin í Miðgarði, héngum á heimavistinni og ekki má gleyma Síldarævintýrinu á Siglufirði ásamt ótal fleiri ævintýrum.

Við minnumst Unnar okkar helst af brosinu, hlátrinum og prakkaraskapnum. Það var alltaf stutt í húmorinn, hún var ávallt tilbúin að taka þátt, gera grín og skemmta sér, allir vildu vera í kringum Unni.

Þrátt fyrir annir í þessum hraða heimi og að hafa búið hver í sínum landshluta, höfum við alltaf haldið góðu sambandi, hist reglulega og rifjað upp gamla tíma. Það eru ótalmargar minningar sem streyma nú í huga okkar um allar frábæru stundirnar sem við áttum saman.

Við kveðjum með miklum söknuði fallegu vinkonu okkar sem mun lifa í minningu okkar um alla tíð.

Elsku hjartans Hilmir og Auður, Rögnvaldur, Auður, Heiða og aðrir ástvinir, við vottum ykkur okkar innilegustu samúð

Hvíldu í friði, elsku vinkona.

Við elskum þig. Tvíbbarnir þínir, Jóhanna (Jóka) og Theodóra (Tedda).
----------------------------------------------------------------------------------------

Í dag kveðjum við einstaka unga konu sem fallin er frá í blóma lífsins. Unga konu sem hefur af miklu æðruleysi tekist á við illvígan sjúkdóm sem að lokum hafði yfirhöndina.

Unnur Guðrún Rögnvaldsdóttir var fyrrverandi samstarfskona okkar hér í Grunnskóla Fjallabyggðar til nokkurra ára eða þar til veikindin sögðu til sín og hún varð að leggja alla sína orku í að berjast gegn þeim. Hún hóf störf við Grunnskóla Fjallabyggðar í starfi skólaritara. En hún var svo miklu meira en það. Hún var nemendum skjól og vinur og starfsfólkinu mikil hjálparhella, alltaf boðin og búin að létta undir eða leysa úr málunum.

Það var einstakt að fylgjast með henni, hvernig hún tókst á við veikindin, alltaf með þá hugsun að lifa fyrir börnin sín, unga nemendur okkar, taka þátt í öllu starfi með þeim og skapa góðar minningar. Ásamt því stundaði hún áhugamál sín eins og best hún mátti, spilaði blak, fór á skíði, lék golf svo eitthvað sé nefnt. Samhliða öllu þessu tók hún kennaranám í fjarnámi og kláraði meistaranám sitt sem nemi hjá okkur síðastliðinn vetur. Hún var svo glöð þegar við sátum á skrifstofu minni í vor og ræddum um lok námsins, öll verkefni komin inn og útskrift 11. júní.

En ekki fæst alltaf við örlögin ráðið. Nú var komið að lokum hjá elsku Unni, eftir svo harða baráttu. Við kveðjum hana með sorg í hjarta og lofum henni því að hlúa vel að börnum hennar.

Við vottum börnum Unnar og allri fjölskyldunni, okkar dýpstu samúð. Minning einstakrar ungrar konu lifir í hjörtum okkar.

 • Þar sem englarnir syngja sefur þú
 • Sefur í djúpinu væra.
 • Við hin sem lifum, lifum í trú
 • Að ljósið bjarta skæra
 • Veki þig með sól að morgni
 • Veki þig með sól að morgni.
  (Bubbi Morthens)

Fyrir hönd starfsfólks Grunnskóla Fjallabyggðar

Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri.
----------------------------------------------------------------------------------

Vegir lífsins eru óútreiknanlegir og á stundu sem þessari er erfitt að skilja tilganginn. Elsku hjartans vinkona, nú skilur leiðir okkar í bili.

Maður er aldrei undir það búinn þegar kemur að kveðjustund, sorgin er mikil en þakklæti, ást og kærleikur heldur okkur sem eftir eru gangandi. Við brosum í gegnum tárin þegar við rifjum upp allar minningarnar. Þær voru ófáar stundirnar sem við í „Besta“ brölluðum saman og alltaf með gleðina í fyrirrúmi og nú síðast á afmælisdaginn þinn sem var svo dásamlegur.

Þú þessi mikla keppniskona gafst ekkert eftir og barðist eins og ljón öll veikindin og tókst þátt í lífinu af fullum krafti. Varst börnum þínum góð mamma, útskrifaðist sem kennari, stundaðir íþróttir af bestu getu og varst okkur dásamleg vinkona og fyrirmynd. Þú kenndir okkur að allt sem skiptir máli er að elska, lifa og njóta, það munum við svo sannarlega reyna að gera.

Það verður okkur ævinlega dýrmætt að hafa fengið tækifæri til að kveðja þig og við trúum því að við munum hittast á ný í eilífðinni, sitja í sólinni og skála í bubblum eins og okkur einum er lagið. Þú skilur eftir mikið af góðu fólki sem mun alltaf hugsa um elsku sólargeislana þína, Hilmi Darra og Auði Önnu. Fjölskyldu þinni vottum við okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

 • Dýpsta sæla og sorgin þunga,
 • svífa hljóðlaust yfir storð.
 • Þeirra mál ei talar tunga,
 • tárin eru beggja orð.
  (Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)

Besti saumaklúbburinn, Ása Guðrún, Hugborg Inga, Hanna Sigríður, Ólöf Kristín og Sigurlaug Ragna.
-----------------------------------------------------------------

Blakfélag Fjallabyggðar hefur kvatt einn sinn mikilvægasta félagsmann. Unnur Guðrún okkar varð loks að játa sig sigraða eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Baráttan stóð í rúm fjögur ár, en þessi mikla keppnismanneskja ætlaði ekki að láta í minni pokann. Hún fór í nokkrar aðgerðir, í gegnum hverja geislameðferðina af annarri og lyfjagjafir fleiri en tölu er á festandi en alltaf kom hún aftur á blakvöllinn og æfði með okkur og keppti.

Þær stundir veittu henni mikla ánægju og gleði og það var alltaf spilað til sigurs þó svo að líkamlegt ástand gæfi ekki tilefni til þess. Hinn ótrúlegi, andlegi styrkur hennar og æðruleysi fleyttu henni yfir fjölmargar hindranir og hún hélt áfram að berjast þegar aðrir hefðu verið búnir að leggja árar í bát. Hún var ákveðin í því að lifa lífinu til fulls og láta ekkert stoppa sig í því, taka þátt og vera með í fjörinu.

Það er óhætt að segja að við sem áttum þessar stundir með henni, innan vallar sem utan, séum nú fátækari. Við höfum fylgst með Unni takast á við veikindin með sínum einstaka hætti. Hún öðlaðist aðdáun okkar allra og gleðin þegar hún sneri til baka á völlinn aftur og aftur eftir erfiðar meðferðir, sem sannarlega tóku sinn toll, var ósvikin hjá öllum hennar æfingafélögum.

Að sjá hana ganga aftur í salinn með bros á vör varð sannarlega til þess að okkur hlýnaði um hjartaræturnar. Svo vildi hún að sjálfsögðu halda áfram að keppa og mætti á fjölda móta og stóð fyrir sínu sem fyrr. Eru sérstaklega eftirminnileg Öldungamótin þar sem blakfélagar nutu samverunnar innan vallar sem utan. Þar lét Unnur sig ekki vanta og með ómetanlegri aðstoð vinkvenna sinna gat hún notið þeirra stunda.

„Stelpur, við erum að fara að vinna þennan leik,“ voru gjarnan síðustu orð Unnar áður en gengið var til leiks, með mikilli áherslu á „að vinna“. Þrátt fyrir keppnisskapið og alla baráttuna varð hún að lokum að játa sig sigraða. En hún kenndi okkur svo margt, eins og það hvernig á að mæta erfiðleikum, að gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana, að lifa lífinu lifandi þó á móti blási, að sannur félagsandi er ómetanlegur, að rækta félagsskapinn sinn og hvernig á að vera sannur vinur. Þess vegna var hún einn okkar mikilvægasti félagsmaður.

Elsku Unnur okkar, þó sporin þín verði ekki fleiri á þessari jörð þá mun hláturinn þinn hljóma áfram, brosin þín skína og minning þín lifa í hjörtum okkar. Við munum sjást aftur og þá verður faðmast og síðan spilað til sigurs í hverjum leik. Takk fyrir félagsskapinn, vináttuna og allar ómetanlegu stundirnar.

Fjölskyldu Unnar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi guð og allar góðar vættir styðja ykkur og styrkja í sorginni.

F.h. Blakfélaga á Siglufirði

Þórarinn Hannesson.
------------------------------------------------------------------

Það var bjartur og fallegur dagur í firðinum fagra þann 10. ágúst sl. þegar fréttir bárust um að elsku Unnur okkar hefði kvatt þetta líf eftir þá orrustu sem hún hafði háð síðustu ár.

Unnur var einstakur persónuleiki, alltaf stutt í brosið, einlæg, ljúf og með hjarta úr gulli. Hún var mikil íþróttamanneskja, góð í öllu eins og við myndum orða það. Sennilega hefði hún rúllað upp skólahreysti ef sú keppni hefði verið á sínum tíma. Jákvæðni, lífsgleði og barátta einkenndu Unni alla tíð og uppgjöf var ekki til í hennar orðabók. Hún lifði fyrir gullmolana sína sem sást svo vel þegar stund var milli stríða og heilsan leyfði, þá var hún mætti til að styðja við bakið á þeim í því sem þau tóku sér fyrir hendur.

Fyrir tveimur árum komum við saman á Sigló og fögnuðum 40 árunum okkar. Við áttum tvo frábæra daga saman sem enduðu í grilli og gleðskap eins og okkur er lagið. Fyrir þá stund sem við áttum saman verðum við ævinlega þakklát.

Stórt skarð hefur myndast í okkar frábæra hóp við fráfall elsku Unnar. Þú munt alltaf eiga stað í hjörtum okkar, við munum aldrei gleyma þér.

 • En komin eru leiðarlok
 • og lífsins kerti brunnið
 • og þín er liðin æviönn
 • á enda skeiðið runnið.

 • Í hugann kemur minning mörg
 • og myndir horfinna daga,
 • frá liðnum stundum læðist fram
 • mörg ljúf og falleg saga.

 • Þín vinartryggð var traust og föst
 • og tengd því sanna og góða,
 • og djúpa hjartahlýju og ást
 • þú hafðir fram að bjóða.

 • Og hjá þér oft var heillastund,
 • við hryggð varst aldrei kenndur.
 • Þú komst með gleðigull í mund
 • og gafst í báðar hendur.
  (Höf. ók.)

Við sendum börnum Unnar, þeim

Hilmi Darra og Auði Önnu, foreldrum, systur og fjölskyldunni allri, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. árgangs 1979, Eva Björk Ómarsdóttir og Fanney Steinsdóttir.