Hjálmar Jóhannesson smiður

mbl.is - 20. september 2021 | Minningargreinar

Hjálmar Jóhannesson fæddist á Siglufirði 31. júlí 1948. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Siglufirði 15. september 2021.

Hjálmar var sonur Jóhannesar Hjálmarssonar og Kristbjargar Marteinsdóttur.
Systkini hans eru

  • Kristbjörg Jóhannesdóttir,
  • Marteinn Jóhannesson,
  • Þorsteinn Jóhannesson (látinn),
  • Sigríður Jóhannesdóttir,
  • Kara Jóhannesdóttir,
  • Kristín Jóhannesdóttir (látin) og
  • Signý Jóhannesdóttir.
Hjálmar Jóhannesson smiður

Hjálmar Jóhannesson smiður

Eiginkona Hjálmars er Kolbrún Friðriksdóttir, f. 24. nóvember 1950.
Foreldrar Kolbrúnar voru Friðrik Stefánsson og Hrefna Einarsdóttir.

Hjálmar og Kolbrún giftu sig 12. september 1968. Börn þeirra eru:

  • 1) Jóhannes Hjálmarsson, f. 1969, maki Brynja Björk Úlfarsdóttir, þau eiga þrjár dætur og eitt barnabarn.

  • 2) Sandra Hjálmarsdóttir, f. 1974, maki Haukur Arnórsson, þau eiga tvö börn.
  • 3) Einar Hrafn Hjálmarsson, f. 1983, maki Þórunn Anna Elíasdóttir, þau eiga tvo syni.

Hjálmar var húsasmíðameistari og starfaði sem slíkur í áratugi. Hann stundaði einnig sjómennsku á yngri árum. Hjálmar var virkur í íþróttalífinu á Siglufirði, stundaði fimleika, skíðamennsku, var í björgunarsveitinni, söng með Karlakór Siglufjarðar og var í slökkviliðinu í tugi ára. Hjálmar stundaði útivist og veiði af mikilli ástríðu alla tíð.

Elsku pabbi. Við minnumst þín með svo mikilli hlýju að erfitt er að koma því í orð. Þú varst okkur dásamlegur faðir og vinur, mikil fyrirmynd og okkar mesti stuðningsmaður. Alltaf tilbúinn í framkvæmdir, ævintýri, útivist, veiði eða annað sem okkur fjölskyldunni datt í hug. Við þökkum þér fyrir allt það sem þú kenndir okkur, alla hjálpina, öll samtölin og allar samverustundirnar. Það voru forréttindi að eiga þig og mömmu að enda voruð þið einstaklega samheldin og traust.

Börnum okkar varstu svo góður afi, kennari, grallari og prakkari. Þau munu sakna þín alla tíð.

Þú varst skynsamur, sterkur, raunsær og hógvær, vinur vina og hallmæltir aldrei nokkrum manni.

Þú varst okkar besti maður. Við munum sakna þín mikið.

  • Deyr fé,
  • deyja frændur,
  • deyr sjálfur ið sama;
  • en orðstír
  • deyr aldregi,
  • hveim er sér góðan getur.
    (Úr Hávamálum)

Þín börn,

Jóhannes, Sandra og Einar Hrafn.
-------------------------------

28. september 2021 | Minningargreinar

Hjálmar Jóhannesson

Hjálmar Jóhannesson fæddist 31. júlí 1948. Hann lést 15. september 2021. Útför hefur farið fram.

Elsku vinur minn. Mig langar að skrifa nokkur orð til þín og ég lofa þér því að þetta verður bara stutt af því að ég þekki þig það vel og veit að það þurfa ekki að vera mörg orð til að segja það sem býr í hjarta okkar.

Elsku Hjalli minn, takk fyrir öll dýrmætu árin sem við áttum saman. Ég elska þig.

Þín tengdadóttir, Brynja.