Gísli Jón Elíasson

mbl.is 6. október 2021 | Minningargreinar

Gísli Elíasson fæddist 20. febrúar 1956 á Siglufirði. Hann lést á heimili sínu 28. september 2021.
Foreldrar hans voru Elías Bjarni Ísfjörð, f. 30.8. 1927, d. 12.9. 1988 og Aðalheiður Sólveig Þorsteinsdóttir, f. 26.3. 1925, d. 13.1. 2000.

Alsystkini Gísla eru:

 • Kristján Sigurður Elíasson, f. 7.8. 1950, kvæntur Lilju Eiðsdóttur. Þau eiga þrjú börn.
 • Þorsteinn Elíasson, f. 23.8. 1951.

 • Rafn Elíasson, f. 29.7.1953, kvæntur Unu Þóreyju Sigurðardóttur. Þau eiga þrjú börn.

 • Dagmar Elíasdóttir, f. 11.6. 1957. Hún á fjögur börn.

 • Heiðar Elíasson, f. 17.4.1959, kvæntur Önnu Júlíusdóttur. Þau eiga þrjú börn.

 • Sólrún Elíasdóttir, f. 9.5. 1960, d. 20.5. 2019. Hún var gift Ómari Geirssyni og eiga þau þrjú börn.

 • Sigurbjörg Elíasdóttir, f. 19.12. 1961, d. 12.7. 2008. Hún var gift Friðfinni Haukssyni og eiga þau fjögur börn.

  Hálfsystkini Gísla eru:
 • Árni, f. 20.9. 1945.
  Hann á sex börn.

 • Jóna, f. 1.7. 1947. Hún var gift Halldóri S. Sigurðssyni. Hann lést árið 2013. Þau eiga þrjú börn.

 • Sverrir Eyland, f. 8.2. 1963, kvæntur Sigurrós Sveinsdóttur.
  Þau eiga fimm börn.
Gísli Jón Elíasson 60 ára

Gísli Jón Elíasson 60 ára

Gísli ólst upp á Hverfisgötu 12 á Siglufirði í stórum systkinahóp. Hann var geðgóður og glaðlyndur alla tíð og lifði einföldu lífi. Hann var ókvæntur og barnlaus en átti góða vinkonu, Önnu Kristinsdóttur. Hann stundaði verkamannavinnu og fór á sjó þegar tækifæri gafst.

Útför Gísla Jóns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 6. október 2021, klukkan 11.

Í dag kveð ég elskulegan bróður minn, Gísla Jón Elíasson, eða Gilla eins og hann var oftast kallaður. Hann fór eins hljóðlega og hann kom í þennan heim. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert ánægð að fá einn bróður í viðbót, en amma sagði mér að að óska mömmu frekar til hamingju með að eignast heilbrigt barn og þau áttu eftir að verða fleiri. Við Gísli áttum svo eftir að verða bestu vinir.

En hver laðaðist ekki að Gísla, þessum ljúflingi. Gísli giftist ekki og eignaðist ekki börn, en systkinabörnin hændust að honum og áttu hann að vini. Hann var ljúft barn og ljúfur fullorðinn.

Einu sinni á æskuárunum átti ég að fara með bræður mína þrjá, Þorstein, Rafn og Gísla í bíó af því að Kristján bróðir átti frí í það skiptið og Kristján sagði af því tilefni: „Það verður ekkert mál að fara með Gísla, hann sofnar bara ef honum finnst þetta leiðinlegt,“

það var ekki neinn æsingur þar. Gísli var rólegur en skemmtilegur og laumaði út úr sér bröndurum, elskaði góðan mat og sérstaklega grillveislur enda var hann góður kokkur sjálfur.

Hann var svo heppinn að eignast góða vinkonu hin seinni ár, hana Önnu, og þau flökkuðu saman og fóru í nokkur sumur í bústað að Illugastöðum í Fljótunum og héldu grillveislu ásamt bræðrum Gísla og mágkonum og skemmtu sér vel.

Það er með sorg í hjarta og góðar minningar að ég kveð þennan ljúfa bróður og þakka fyrir góðar stundir sem voru tvisvar á liðnu sumri. Börnin mín eru líka með sorg í hjarta og minnast þín sem góðs vinar.

Jóna systir í Grindavík.