Anna Johanna Jóhannsdóttir Hauk

mbl.is - 14. ágúst 2021 | Minningargreinar | 867 orð | 1 mynd

Anna Johanna  fæddist 18. nóvember 1934 í Pausram í fyrrverandi Tékkóslóvakíu. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði 4. ágúst 2021.

Foreldrar hennar voru Johann Hauk járnbrautarstarfsmaður, f. 6. desember 1894 og d. 7. apríl 1974, og Sophie Axmann húsmóðir, f. 20. janúar 1902 og d. 20. nóvember 1956. Anna sem alla tíð var kölluð Anni (Anní) átti einn bróður, Joseph Hauk, hann lést ungur. Eftir stríð bjó fjölskyldan í Bayern í Suður-Þýskalandi.

Anní bjó lengi í Munchen í Suður-Þýskalandi þar sem hún stundaði nám í klæðskeraiðn. Hún tók þar meistarapróf í þeirri iðn.

Þar kynntist hún síðan eiginmanni sínum, Jóhanni Sv. Jónssyni, f. 14. mars 1934, d. 11. apríl 2021, sem einnig stundaði þar nám, og giftu þau sig í Munchen hinn 5. september 1958.

Börn Anníar og Jóhanns eru:

Anna Johanna Jóhannsdóttir  - ókunnur ljósmyndari

Anna Johanna Jóhannsdóttir - ókunnur ljósmyndari

ir, f. 28. desember 1961, búsett á Siglufirði, fyrrverandi eiginmaður Bylgju er Pálmi Aðalbjörnsson, f. 21. febrúar 1960. Barn þeirra er
1) Bylgja Jóhannsdótt
  • Elín (Ellý), f. 20. febrúar 1994, búsett í Reykjavík.
, f. 23. ágúst 1964, og er hann kvæntur Fjólu Kristjánsdóttur, f. 6. desember 1965, og eru þau búsett í Reykjavík.
2) Jón Tryggvi Jóhannsson
Börn þeirra eru:
  • Aron Ármann, f. 21. september 1992, kvæntur Juliönu Nogueira, f. 26. september 1994, og eru þau búsett á Sólheimum í Grímsnesi.
  • Jóhann Felix, f. 21. september 1992, í sambúð með Önnu Sunneborn Guðnadóttur, f. 28. maí 1992, og eru þau búsett í Reykjavík.
  • Alex Harri, f. 21. ágúst 1997, í sambandi með Árnýju Dögg Heimisdóttur, f. 16. febrúar 2001, og eru þau búsett í Reykjavík, og Andri Leó, f. 22. ágúst 2007.


Anní og Jóhann fluttust til Siglufjarðar 1961. Á Siglufirði starfaði Anní við ýmis störf, m.a. kenndi hún handavinnu og þýsku við gagnfræðaskóla Siglufjarðar, hún starfaði líka í rækjuvinnslu hjá Rammanum um tíma, kenndi eldri borgurum alls konar handavinnu og föndur, og vann við heimilisaðstoð, en þó var hennar aðalstarf lengst af saumaskapur og fataviðgerðir ásamt fleiru því tengdu.

Anní átti ýmis áhugamál, og má þar helst nefna margs konar handavinnu og saumaskap og svo garð- og blómarækt. Sund stunduðu hún og eiginmaður hennar daglega um langt árabil og farið var á gönguskíði á vetrum. Einnig stunduðu þau bæði badminton yfir vetrartímann.

Hún starfaði í nokkrum félögum á Siglufirði eins og Sinawik og kvenfélagi bæjarins.

Anní var heilsuhraust lengst af en veiktist 2014 þá rétt að verða 80 ára gömul. Hún og eiginmaður hennar sálugi fluttust á Skálarhlíð 2018 og loks fluttist hún svo yfir á sjúkrahúsið á Siglufirði 2020.

Útför Anníar fer fram frá Siglufjarðarkirkju 14. ágúst 2021 kl. 11.

Elsku mamma mín kvaddi snemma að morgni 4. ágúst síðastliðinn. Eftir nokkuð erfið veikindi í um 1 – 2 vikur gafst líkaminn upp og kallið var komið. Sumarlandið beið mömmu þar sem ég veit að pabbi tók vel á móti henni opnum örmum. Þau tvö voru enda svo samrýnd hjón að ekki kom það mér mikið á óvart hversu stutt varð á milli þeirra. Einungis eru nú liðnir tæpir 4 mánuðir síðan pabbi minn yfirgaf þessa jarðvist.

Margs er að minnast og þakklátust er ég fyrir þann yndislega tíma sem við áttum saman undangengin 7 ár, en þann tíma hef ég einmitt varið með þeim foreldrum mínum hér í heimabænum Siglufirði.

Mér fannst ég kynnast foreldrum mínum alveg upp á nýtt hér á þeirra efri árum. Ýmislegt var spjallað og gert, og við mamma sátum heilu kvöldin og prjónuðum eða hekluðum saman, og svo var kvöldkaffið ómissandi fyrir háttinn. Við pabbi vorum svo meira í pólitíkinni og ættfræðin var líka rædd miklu meira en áður. Pjakkur hundurinn okkar var hér lengi með okkur og höfðu mamma og pabbi ómælda ánægju af honum.

Mamma var einstaklega góð manneskja sem vildi ávallt gera allt fyrir alla. Hún var hörkudugleg kona, og var snillingur á mörgum sviðum. Bæði í saumaskap og allri handavinnu en líka í eldamennsku. Mamma var frábær kokkur og hjá henni fékk maður alltaf góðan mat og minnisstæðast er hennar frábæra þýska kartöflusalat og svo þýsku smákökurnar alltaf fyrir jólin.

Eins bláberjaskyrkökurnar hennar og svo möndluhornin sem hún bakaði svo oft og sendi okkur systkinum stundum suður til Reykjavíkur. Eins var hún mjög dugleg að tína bláber á haustin, og tíndi oft heilu lítrana og þau sendi hún okkur líka oftar en ekki suður yfir heiðar.

Garðrækt og blóm voru líka stórt áhugamál hjá mömmu og hún var tímunum saman í garðinum að dytta að og gera hann fallegan, enda fengu þær stöllur hún og Dúdda heitin, nágranni okkar, verðlaun fyrir fallegasta garð bæjarins eitt sumarið.

Mamma tók upp ýmsa íslenska siði eins og sláturgerð, gerði rabarbarasultu og gróf marga laxana sem pabbi veiddi í gegnum árin. Eins var mjög gjarnan til reyktur lax á heimilinu, og mamma smurði oft brauð handa okkur með þessu góðgæti. Eins bakaði hún mjög oft pönnukökur og vöfflur og gerði silungssalöt, því pabbi koma með ófáa silungana heim úr veiðitúrum sínum.

Já það vantaði nú ekki myndarskapinn hjá henni mömmu. Hún elskaði barnabörnin sín mikið og fannst erfitt núna síðustu æviárin að geta ekki sjálf sinnt því að pakka inn og senda þeim gjafir.

Yndislegar minningar ylja manni um ókomin ár og takk innilega fyrir allt elsku besta mamma mín.

Algóður Guð blessi þig og varðveiti um alla eilífð.

Þín dóttir Bylgja.