Stefanía Ólöf Jóhannsdóttir

Einherji - 1985

Stefanía Jóhannsdóttir MINNING

Stefanía fæddist 15. maí árið 1912 að Brekku i Svarfaðardal. Hún var dóttir hjónanna Jóhanns K. Sveinbjörnssonar bónda þar og síðan tollþjóns á Siglufirði og konu hans Sesselju Jónsdóttur frá Skeiði.

Stefanía átti sex systkini og er nú eitt þeirra á lífi, Tómas sem lengst af bjó hér á Siglufirði, en er fyrir nokkrum árum fluttur til Reykjavíkur.

Stefanía giftist Maron Einarssyni sjómanni og eignuðust þau tvær dætur,

Nanna Maronsdóttir sem búsett er í Bandaríkjunum, hennar maður er Georg Scarles sem er af grískum ættum.Eiga þau tvö börn
Stefanía Jóhannsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Stefanía Jóhannsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Jimmy Maronsdóttir og
Stefaní Ólöf Maronsdóttir.
Hin dóttirin
Hanna býr á Ólafsfirði gift Árna Sæmundssyni.
Þau eiga fimm börn:
  • Nönnu,
  • Agnar,
  • Jón,
  • Sæmund og
  • Maron.

Stefanía missir mann sinn árið 1941 þegar togarinn Gullfoss fórst. Bjó hún þá í Reykjavík.

Árið 1947 gengur hún að eiga eftirlifandi mann sinn Jón Andersen vélstjóra við Skeiðsfossvirkjun, en Jón hóf störf þar haustið 1946.

Jón var ekkjumaður og ólu þau Stefanía upp börn hennar. Einnig var Maron sonur Hönnu hjá þeim þar til hann fór til foreldra sinn í Ólafsfirði til að fara í Gagnfræðaskóla. En hann er nú skipstjóri á m/b Guðmundi Ólafi ÓF. 91 og er hann einn af eigendum bátsins.

Ég kynntist Stefaníu fyrir tuttugu árum þegar ég tók við starfi rafveitustjóra á Siglufirði. Hagaði þannig til við Skeiðsfossvirkjun að ekki var rekið mötuneyti þegar unnið var við viðhald og endurbætur á é mannvirkjum. Kom í hlut Jóns og Stebbu eins og við oftast nefndum hana daglega, að taka menn í fæði. Minnist ég þess að oft voru hjá henni í fæði allt að tuttugu menn auk heimilisfólks.

Engar aðstæður voru á heimilinu til þessarar þjónustu, en Stebbu tókst að framkvæma þetta á sinn hljóðláta hátt án þess að heimilisbragurinn raskaðist. Eignaðist hún marga góða vini í hópi verka- og iðnaðarmanna sem dvöldu við virkjunina á þessum árum. Er mér bæði ljúft og skylt að þakka henni þessi störf að leiðarlokum. Þegar að því kom að Jón hætti störfum við virkjunina árið 1978 sökum aldurs, var ekki um að ræða annað en þau flyttu til Siglufjarðar.

Festu þau kaup á Eyrargötu 9 og bjuggu þau sér þar til hlýlegt og notalegt heimili þar sem þau hafa búið síðan. Ég minnist þess að þegar að á flutningi þeirra stóð þá trúði Stebba mér fyrir því að hún hefði eiginlega aldrei fest rætur í Fljótunum þrátt fyrir að hún átti þar heimili yfir 30 ár. Vissulega var einangrun mikil og færri tækifæri til afþreyingar og samgöngur verri en nú er. Engu að síður eignaðist hún góða vini í sveitinni svo sem þessi kveðja ber með sér sem barst við útför hennar.

Er leiðir skiljast þakka vil ég þér þína tryggð á mínum raunastundum. Af eigin reynslu miðlaðir þú mér og margt við ræddum oft á þessum fundum. Nú ljóssins englar lýsi veginn þinn þeir leiði þig í nýrri og betri heima. Ég minnist þín með þökk í sérhvert sinn og seint ég okkar vináttu mun gleyma. Ég óskaði þess að þau Jón og Stefanía mættu eiga saman sem flest ár hér á Siglufirði eftir að þau fluttu hingað.

En heilsu hennar fór að hraka og síðastliðið ár dvaldi hún á Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Engu að síður vonaðist hún til þess að geta komið heim um jólin. Af því varð ekki, útför hennar var gerð frá Siglufjarðarkirkju þriðjudaginn 17. þ.m. við mikið fjölmenni og blómahaf. Um leið og ég votta Jóni Andersen, dætrum hennar, tengdasonum, börnum þeirra og ættingjum mínar innilegustu samúðarkveðjur, vil ég færa þakkir Rafveitu Siglufjarðar og starfsmanna fyrir óeigingjörn störf og vináttu.

Blessuð veri minning hennar.
Sverrir Sveinsson.