Tengt Siglufirði
Morgunblaðið - 18. desember 1980 og Neisti - 23. desember 1980
Sigfús Ólafsson - Fæddur 24. ágúst 1882. Dáinn 3. nóvember 1980.
Að muna tímana tvenna er orðtak sem mér kom í hug er mér barst fréttin um andlát langafa míns enda var hann 98 ára gamall er hann lést. En hann naut þess að vera andlega hress allt fram í andlátið og fylgdist af áhuga með öllu sem honum fannst máli skipta en það voru öðru fremur við ættingjar hans, velferð okkar og lífshamingja, hvort við hefðum góða og trygga vinnu, næga vinnu og svo í annan stað atvinnulíf bæjarins.
Enda var síðasta hugsun hans í þessu lífi sú hversu mikil loðnubræðslan hefði verið þann daginn. Það kom okkur því ekki á óvart og höfðum við á orði að þetta væri honum líkt. Mér verður títt hugsað til þeirra stunda er ég sem lítil stúlka svaf í sama herbergi og hann og varð aðnjótandi sagna hans um gamla tímann og þó sérstaklega lífi og starfi alþýðu manna, hans lifi, allt frá því er hann ólst upp á barnmörgu, fátæku heimili í Ólafsfirði og flyst síðar sem ungur maður til Siglufjarðar og hefur þar búskap, fyrst fyrir handan fjörð og síðar er hann fyrstur manna byggir húsið sitt í hlíðinni, Hlíð.
Á Siglufirði kynntist hann ömmu, Sólveigu Jóhannsdóttur frá Hóli. Ég var ekki svo lánsöm að kynnast ömmu, Sólveigu í Hlíð, eins og hún var jafnan nefnd. Það var ekki oft sem hún barst í tal okkar í milli en auðheyrð var virðingin í lýsingum hans á henni. Hún hafði verið mikilhæfur dugnaðarforkur, sem hann virti svo mikils. Mér er það ríkt í huga hvað vinnan var honum mikils virði og honum fannst mest um vert að allir hefðu atvinnu því þá fannst honum öllu borgið.
Vinnan var fyrir öllu. Iðjuleysi og starfsleysi var hans mesti óvinur enda vann hann í Mjölhúsinu þar til hann neyddist til að láta af störfum fyrir aldurs sakir og gaf þó ekki þeim yngri neitt eftir í vinnu og afköstum þá orðinn 85 ára gamall. Þá fannst manni stundum eins og honum fyndist lífshlaup sitt mætti fara að taka enda þegar vinnan var ekki lengur fyrir hendi.
Það gætti ævinlega mikillar festu og styrks í návist hans og það var ekki erfitt að sjá ef honum mislíkaði þegar við systkinin vorum að ólátast meira en góðu hófi gegndi. Orðin voru ekki mörg en einhvern veginn fundum við þegar við hófum gengið of langt. Það duldist ekki þegar maður komst til vits og ára að jafnaðarstefnan var lífshugsjón hans þó aldrei væri reynt að hafa bein áhrif á skoðanir manns í þeim efnum. Þó fór ekki hjá því að maður fann að sú stefna væri rétt og sú skoðun hans var sannfærandi.
Hann gekk ætíð beint til verks, hafði
ákveðnar skoðanir og bar hag Alþýðuflokksins og jafnaðarstefnunnar mjög fyrir brjósti og taldi hag fólksins, hins vinnandi manns, eiga besta samleið með þeirri stefnu. Það er margs
að minnast þegar hann afi minn er allur, og margt gaf hann mér sem veganesti í lífinu. Styrk og stöðuglyndi og að standa sig í þeim störfum sem maður tekur sér fyrir hendur. Forðast
að gera of mikið úr hlutunum og ganga hreint og heiðarlega til verks.
Með þessum orðum vil ég þakka afa mínum þátt hans í lífi mínu og minning hans mun ávallt
verða mér kær.
Sólveig Helga Jónasdóttir
--------------------------------------------------
Með Sigfúsi Ólafssyni í Hlíð er til moldar hniginn einn af merkustu og bestu borgurum þessa bæjar. Sigfús var fæddur 24. ágúst að Reykjum í Ólafsfirði. þar sem hann ólst upp til 12 ára aldurs. en þá fluttist hann hingað til Siglufjarðar og lifði hér og starfaði í 86 ár. Það voru margvísleg störf sem Sigfús leysti af höndum á þessum árum. enda rómaður dugnaðar- og atorkumaður.
Um 17 ára skeið var hann sjómaður á hákarla- og síldveiðiskipum og talsvert af þeim tíma stýrimaður. Fyrir mörgum árum síðan var hér starfandi losunar- og lestunarfélag. skipað duglegum og afkastamiklum verkamönnum og var Sigfús um tíma formaður þess félags og síðar gjaldkeri. Siðar gerðist hann starfsmaður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og vann þar erfiðisvinnu allt til 85 ára aldurs. án þess að láta hlut sinn fyrir sér yngri mönnum. Slíkur eljumaður var Sigfús í Hlíð.
Sigfús Ólafsson var drengskaparmaður með fastmótaða skaphöfn. Mikill vinur vina sinna og margir eru þeir. sem hann hjálpaði og studdi á lífsleiðinni. en hann hafði aldrei hátt um það. Vinsæll var hann og vinamargur. Hann var einn af brautryðjendum Alþýðuflokksins og jafnaðarstefnunnar í þessum bæ. A fyrstu árum þessara samtaka var þjóðarandinn þannig. að nokkra djörfung þurfti til að taka sér stöðu þar í fylkingarbrjósti.
En Sigfús Ólafsson hikaði þar aldrei. Verkamaðurinn í dag hefur ekki hugmynd um. hvað störf brautryðjandans voru mörg og hvað starfsskilyrði voru erfið í mörgum tilfellum. Störf brautryðjendanna verða því aldrei metin til fulls af nútíðinni, enda enginn jarðneskra fjármuna mælikvarði til yfir þau. Siglfirskir jafnaðarmenn þakka Sigfúsi hollustu og drengskap við góðan málstað.
Hinn 1. mars 1903 gekk Sigfús að eiga Sólveigu Jóhannsdóttur. mestu sæmdarkonu. Sólveig í Hlíð tók virkan þátt í starfsemi
kvenfélagsins „Von" og þótti skörungur mikill, sem lét verkin tala.
Þau hjónin eignuðust tvö börn, Þorfinnu Sigfúsdóttir búsetta hér í
bæ og dreng sem dó ungur.
Þau Sigfús og Sólveig ólu upp mörg börn og reyndust þeim öllum sem bestu foreldrar. Heimili þeirra hjóna í Hlíð var víðfrægt
fyrir rausn og myndarskap allan.
Þar fór saman hlýlegt viðmót og alúðleg framkoma við hvern sem í hlutátti. Þar voru allir jafnir. Í Hlíð var siglfirskt höfðingjasetur.
Því fer nú óðum fækkandi hér í bæ. fólkinu sem með dugnaði og fórnfúsu starfi mótuðu og skópu bæjarfélagið upp úr aldamótunum.. Það er mikil og merkileg saga sem liggur að baki ævi og lífsstarfi Sigfúsar Ólafssonar. sem væri holl kynning ungu fólki í dag.
Blessuð sé minning Sigfúsar Ólafssonar.
Jóhann G. Möller