Reynir Árnason málari

mbl.is -  3. febrúar 2007 | Minningargreinar

Reynir Árnason fæddist á Ólafsfirði 16. ágúst 1930. Hann lést á sjúkrahúsi Siglufjarðar 27. janúar síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir frá Ólafsfirði, f. 27. mars 1904, d. 3 mars 1985 og Árni Guðmundsson frá Skagafirði, f. 18. nóvember 1898, d. 20. febrúar 1988.

Systkini Reynis eru

Árið 1955 kvæntist Reynir Jakobínu Þorgeirsdóttur, f. 30. október 1933.
Börn þeirra eru:

Reynir Árnason - Ljósmynd Kristfinnur

Reynir Árnason - Ljósmynd Kristfinnur

1) Þorgeir Reynisson
, f. 1954.
Börn hans og Sóleyjar Sigurðardóttur eru:
 • a) Atli Þór, f. 1974, kvæntur Huldu Axelsdóttur,
  sonur þeirra
 • Breki, f. 2002,
 • b) Jóna Jakobína, f. 1976,
  dætur hennar
 • Diljá Sif og
 • Thelma Rut, f. 2000 og
 • c) Guðmundur, f. 1986.
2) Guðrún Reynirsdóttir,
f. 1959.
Börn hennar og Jóhannesar Lárussonar eru:
 • a) Guðlaug, f. 1971,
  dóttir hennar
 • Guðrún Erla Ragnarsdóttir, f. 1999,
 • b) Þórunn, f. 1980, maki Christopher Millãn, f. 1980,
  dóttir þeirra
 • Rakel Rós, f. 2006,
 • c) Reynir, f. 1985,
 • d) Lárus Sigurvin, f. 1989, d) Rebekka, f. 1994 og f) Aron Tryggvi, f. 1995.

Reynir var málarameistari á Siglufirði og vann við það í mörg ár. Seinni hluta starfsævi sinnar var hann húsvörður í Barnaskóla Siglufjarðar og síðar einnig í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Hann starfaði mikið að félagsmálum og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var í karlakórnum Vísi í mörg ár og síðar í kórnum Vorboðanum, kór eldri borgara.

Reynir var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Skjaldar á Siglufirði og fékk viðurkenningu árið 2006 fyrir 35 ára starf. Reynir var afreksmaður í íþróttum og hlaut fjöldann allan af verðlaunum og viðurkenningum fyrir þátttöku sína m.a. í fimleikum, bridge, skák og blaki. Reynir var mikill veiðimaður og var í stangveiðifélagi Siglufjarðar og sat þar í stjórn í fjölda ára. Reynir verður jarðsunginn frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég kynntist þér og ömmu þegar ég var 8 ára þegar ég kom til Siglufjarðar með pabba að heimsækja Guðrúnu dóttur þína, sem síðar gekk mér í móðurstað. Þið tókuð mér eins og ég hefði alltaf verið í fjölskyldunni. Þegar pabbi og Guðrún mamma fóru að búa saman varð það hið eðlilegasta mál fyrir mig að kalla hana mömmu og ykkur afa og ömmu. Tilfinningin gagnvart því var hreinlega bara svo eðlileg. Ég hafði misst afa Lárus þegar ég var 7 ára en fékk þig í staðinn.

Ferðirnar til Siglufjarðar urðu margar með árunum, til ykkar ömmu. Og það var alltaf líf og fjör í kringum ykkur og allar frænkurnar og frændurna sem ég eignaðist á Sigló. Minningar frá samverustundum okkar hrannast upp í huga mér. Ég á minningar um að vera ein með þér að veiða inni í Fljótá, og þar varst þú í essinu þínu, einnig að vera að veiða sjóbirting í fjörunni við Miklavatn, að spila, tefla og svo fengum við að leika okkur í leikfimisalnum þar sem þú varst húsvörður í barnaskólanum. Minningar um tónlist og söng, tenórar eins og Caruso, Jose Carrera og fleiri. Þú kenndir mér að meta klassíska tónlist.

Þú hvattir okkur systkinin eindregið til að stunda íþróttir, enda mikill íþróttamaður sjálfur. Þú stjórnaðir því. Þið amma voruð líka svo einlæg í að fylgjast með okkur systkinunum í öllu sem við gerðum, hvort heldur það var í íþróttum, námi eða öðru sem við tókum okkur fyrir hendur.

Elsku afi, tilkynningin um andlát þitt kom sl. laugardagsmorgun. Þar sem þú varst búinn að vera veikur þá vissum við að þetta væri yfirvofandi, en það er engan veginn hægt að búa sig undir það að kveðja.

Ég þakka þér, elsku afi minn, fyrir að hafa tekið svona vel á móti mér þegar ég var 8 ára gömul og reynst mér vel. Það er ekkert sjálfgefið í lífinu og ég er heppin að hafa kynnst þér. Ég veit að þar sem þú ert núna ómar tónlist og söngur og ég sé þig fyrir mér dreymandi á svip að hlusta á heilu aríurnar.

Elsku afi, ég geymi minningarnar okkar og í auðmýkt kveð ég þig.

Elsku amma mín, ég votta þér alla mína samúð yfir að hafa misst lífsförunaut þinn og besta vin.

Guðlaug Jóhannesdóttir.
-----------------------------------------------------

Elsku afi minn, ég veit ekki hversu lengi ég hef reynt að koma orði á blað. Það er sárt að geta ekki tekið upp símann og hringt eða vitað að ég muni hitta þig í næstu heimsókn. Sem sýnir okkur hversu mikilvægt það er að njóta þess tíma sem við eigum og ekki alltaf reikna með því að morgundagurinn verði til staðar. En við áttum margar góðar stundir saman, og mun ég varðveita þær minningar í mínu hjarta.

Þú tókst mig m.a. út að veiða og sást til þess að ég kynntist íslenskri náttúru. Ekki varst þú eigingjarn maður og lærði ég mikið á þeim tíma sem ég fékk með þér. Ég vildi óska þess að við hefðum átt meiri tíma saman. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til þín og ömmu, hlusta á blístrið þitt og sjá bros á andliti þínu. Það sást á þér að þú áttir marga góða daga.

Elsku afi minn, ég mun ekki geta faðmað þig aftur en það er erfitt að lýsa þakklæti mínu fyrir að hafa fengið að eiga slíkan fyrirmyndar afa. Margt er af fólki sem hugsar til þín núna og finnur fyrir sorginni sem fylgir því að þurfa að kveðja þig í hinsta sinn. Ég er stoltur af því að vera barnabarn þitt.

Reynir Jóhannesson.
------------------------------------------------

Elsku afi minn, ég trúi ekki enn að þú sért farinn frá okkur, að þú komir ekki með útbreiddan faðminn á móti mér næst þegar ég kem í heimsókn til Íslands.

Ég á svo margar góðar minningar frá því þegar ég var lítil, með þér og ömmu, og eru þær of margar til þess að telja upp hér. En þær munu varðveitast í hjarta mínu um ókomna framtíð.

Elsku amma mín, ég hef hugsað mikið til þín þessar erfiðu vikur og vildi óska þess að hafa getað verið hjá þér og haldið utan um þig allan þennan tíma. Það er svo sárt að þurfa að kveðja þig, afi minn, en ég veit að þú vakir yfir okkur og verndar.

Ég elska þig.

Tóta litla tindilfætt, eins og þú kallaðir mig alltaf,

Þórunn Jóhannesdóttir de Millãn, Ósló.
---------------------------------------------------------------

Kær bróðir minn er látinn.

Bræður mínir Guðmundur og Reynir voru 12 og 13 ára þegar ég fæddist, þannig að þeir voru hálffullorðnir menn þegar ég man eftir þeim fyrst. Þeir voru flottir íþróttamenn og mjög góðir við mig. Reynir var lengur heima en Guðmundur og á ég margar skemmtilegar minningar um hann. Hann var litríkur persónuleiki, stoltur og snöggur. Hann hafði gaman af að atast í mér. Ég var dálítið freknótt og hann sagðist ætla að bíta stóru freknuna af nefbroddinum mínum.

Og þá hófst eltingarleikur. Ég var stundum samferða honum niður í bæ. Þá sönglaði hann og stikaði stórum og ég mátti hafa mig alla við að hafa við honum. Ég varð að hafa alveg hljótt þegar hann var að hlusta á tónlist. Hann lá á dívaninum með lokuð augun og hálfopinn munninn og hlustaði. Þá varð ég að læðast og þannig lærði ég að hlusta á óperur og söng. Bara svona hversdagslegar minningar eru ljúfar.

Þegar Reynir eignaðist Bínu fyrir kærustu þá fannst mér það ekki spennandi. Og ég var leiðinleg við tilvonandi mágkonu mína, fyrst. En það lagaðist fljótlega. Og þegar hann flutti að heiman til að fara að búa, þá var mér allri lokið. Reynir farinn, heimilið tómt og ég lagðist niður og grét. Þegar hann varð faðir beið ég í eldhúsinu með honum eftir barnsgrátinum. Því hann mátti ekki vera viðstaddur fæðinguna, einungis ömmurnar. Hann var stoltur faðir. Margar góðar stundir hef ég og fjölskylda mín átt með bróður mínum og mágkonu og börnum þeirra.

Þau hjónin höfðu þvílíkan húmor að það hálfa hefði verið nóg. Synir mínir elskuðu þau. Og alltaf var tilhlökkun að hittast, annað hvort fyrir norðan eða sunnan. Heima hjá mér er tréskál sem heitir Galdraskálin. Reynir var nefnilega galdramaður. Hann galdraði fyrir syni mína. Með fettum, brettum og handapati heillaði hann þá og galdraði síðan bíla undan skálinni. Og þegar þeir báðu hann um að sanna fyrir vinum þeirra í Njarðvík að hann væri galdramaður, þá fór hann létt með það. Reynir kom suður og málaði fyrir mig heila stóra íbúð, eins og hendi væri veifað. Hann var mikil félagsvera, elskaði söng og lífgaði upp á tilveruna.

Ég þakka fyrir að hafa átt hann sem bróður.

Brynja Árnadóttir. 
---------------------------------------------------

Látinn er vinur minn og flokksbróðir Reynir Árnason á Siglufirði.

Reyni kynntist ég ungur, bæði sem dyggum stuðningsmanni hins góða Alþýðuflokks og sem einum af máttarstólpum Siglufjarðar. Hann var mikill Siglfirðingur, vel látinn og virtur í siglfirsku bæjar- og félagslífi.

Þegar ég kynntist Reyni var hann starfandi sem einn af málurum bæjarins en þeir voru þekktir fyrir glaðlyndi og hæfilega ærslafengni, og féllu því vel inn í hið siglfirska bæjarlíf. Þeir voru menn sem þekktu alla í gegnum störf sín bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Reynir var virkur þátttakandi í ýmsum félagasamtökum á Siglufirði, s.s. Kiwanisklúbbnum, íþróttafélögum og karlakórnum Vísi.

Hann stundaði á sínum yngri árum fimleika sem voru mjög vinsæl grein á Siglufirði í þá daga. Ég minnist Reynis sem eins af strákunum í fimleikaflokki Helga Sveins, sýnandi listir sínar á ýmsum mannamótum jafnt úti sem inni. Sérstaklega er minnisstætt þegar Reynir sýndi listir sínar ásamt öðrum á stórafmæli bæjarins 1968, en þá sýndu þeir fimleika á skólabalanum í siglfirsku blíðviðri fyrir framan þúsundir afmælisgesta. Risasveifla á svifrá, æfingar á tvíslá og ýmsar aðrar fimleikaæfingar vöfðust ekki fyrir Reyni, sem þá var 38 ára gamall, enda var hann alltaf léttur á sér og fimur.

Ég átti líka mikil samskipti við Reyni þegar ég starfaði sem íþróttafulltrúi á Siglufirði í mörg ár, en þá var Reynir tekinn við starfi húsvarðar í barnaskólanum, og síðar í grunnskólanum öllum. Það fór alltaf vel á með okkur og Reynir, jafnlipur í samskiptum og í fimleikum, lagði sig fram við að létta undir með íþróttastarfinu til dæmis varðandi gistingu gestkomandi íþróttafólks í skólunum.

Reynir var mjög glaðlyndur maður og annað var náttúrlega ekki hægt í þessu umhverfi sem þá var á Siglufirði, líf og fjör og alltaf mikið um að vera. Síldarárin mótuðu alla Siglfirðinga, en síldin hvarf og margir Siglfirðingar neyddust til að flytja burtu úr bænum. Reynir og Jakobína Þorgeirsdóttir, eftirlifandi kona hans, fóru þó hvergi og hafa búið alla sína tíð á Siglufirði. Hann verður því lagður til hinstu hvílu í siglfirskri mold.

 • Moldin er þín.
 • Moldin er trygg við börnin sín,
 • sefar allan söknuð og harm
 • og svæfir þig við sinn móðurbarm.
 • Grasið hvíslar sitt ljúfasta ljóð
 • á leiðinu þínu. Moldin er hljóð
 • og hvíldin góð...
  (Davíð Stefánsson.)

Ekki get ég svo lokið við minningargrein um vin minn Reyni án þess að minnast aftur á hans pólitísku lífsskoðun, en hann var alla tíð mikill jafnaðarmaður og virkur í starfi jafnaðarmanna alla sína tíð. Hann var oft tillögugóður og ræddi málin á hispurslausan hátt og lá aldrei á skoðunum sínum, þó svo að stundum hafi ég grunað hann um að ýkja þær svolítið, svona til að fá meira líf í umræðurnar og meiri skoðanaskipti. Átti þetta jafnt við um formlega fundi og pólitískt spjall á förnum vegi.

Ég kveð Reyni Árnason með þökk og virðingu og færi Bínu, eftirlifandi eiginkonu hans, og börnum þeirra, þeim Þorgeiri og Guðrúnu, svo og fjölskyldum þeirra, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Mikill sómamaður er genginn. Hafðu þökk fyrir allt, kæri vinur.

Kristján L. Möller.
---------------------------------------------------

Þeir hverfa nú einn af öðrum gömlu félagarnir, sem óhætt er að segja að settu svip sinn á bæinn á uppgangs- og síldarárunum á Siglufirði. Einn þeirra, Reynir Árnason, verður kvaddur í dag.

Reynir fluttist ungur að árum til Siglufjarðar frá Ólafsfirði þar sem bernskuárin liðu, en hann varð fyrr en varði jafnmikill Siglfirðingur og hver annar "innfæddur" án þess þó að gleyma upprunanum, því hann bar ávallt hlýjan hug til fæðingarbæjarins.

Í upphafi vann Reynir alla algenga vinnu sem til féll, fór á vertíðir og stundaði sjómennsku á togurum og trillum, en hann komst svo á námssamning hjá Herbert Sigfússyni, málarameistara og málaraiðnin varð eftir það hans ævistarf. Síðar þegar síldarleysi og fólksfækkun dró úr verkefnum fyrir iðnaðarmenn réðst Reynir sem umsjónarmaður við Grunnskólana í Siglufirði og þar lauk hann starfsævinni. Hann var laginn við að umgangast börn og vel látinn af öllu samstarfsfólki þar.

Vinátta okkar Reynis hófst þegar við giftumst skólasystrum, sem voru góðar vinkonur og samgangur milli heimilanna varð talsverður eftir það. Einnig lágu leiðir saman í mörgum félögum svo sem Karlakórnum Vísi, Kiwanisklúbbnum Skildi og síðast en ekki síst í Stangveiðifélagi Siglfirðinga, en þar sátum við saman í stjórn í meira en 20 ár. Reynir var lipur veiðimaður og margar ferðir fórum við til veiða víða um land, en minnisstæðastar eru e.t.v. ferðirnar, sem farnar voru í Héðinsfjörð og Fljótaá.

Fleyg urðu þau orð er Reynir lét falla á einum af mörgum samningafundum, sem við sátum um veiðirétt í Fljótaánni: "Þið verðið að gá að því drengir að okkur Siglfirðingum þykir miklu vænna um Fljótaána heldur en ykkur Fljótamönnum sjálfum." Reynir hafði yndi af söng og tónlist. Hann hafði bjarta og fallega tenórrödd og söng lengi með Karlakórnum Vísi. Einnig sungu þau hjónin, hann og Bína um skeið í Kirkjukór Siglufjarðarkirkju og síðustu árin sungu þau í Vorborðunum, kór eldri borgara í Siglufirði.

Efri árin urðu Reyni fremur erfið. Andinn var reiðubúinn en líkaminn tók að gefa sig og hann átti orðið erfitt með gang. Þetta var auðvitað þungt hlutskipti að sætta sig við fyrir mann, sem á yngri árum hafði verið talinn fljótasti framherjinn í knattspyrnuliði K.S. og lengi einn af burðarásunum í landsþekktum fimleikaflokki Helga Sveinssonar, en eigi mátti sköpum renna.

Reynir og Bína voru samhent hjón og glöð í góðra vina hópi. Við Hadda eigum ótal góðar minningar frá samskiptunum við Reyni og Bínu úr sameiginlegum ferðum, löngum og stuttum, en öllum ánægjulegum og nú er komið að kveðjustund. Reynir er lagður af stað í þá langferð, sem við öll eigum í vændum, en enginn veit með vissu hvert leiðin liggur eða hvar hún endar. Kannski verður áð hjá einhverju fengsælu veiðivatni og þá veit ég að Reynir verður glaður og unir vel sínum hag.

En við hin sem eftir sitjum ornum okkur við minningar um góðan dreng og glaðværan og greiðvikinn félaga. Við Hadda sendum Bínu, börnum hennar og öðrum aðstandendum Reynis Árnasonar okkar innilegustu samúðarkveðjur.