Ari Rögnvaldsson

mbl.is 3. febrúar 2020 | Minningargreinar

Ari Rögnvaldsson fæddist í Litlu-Brekku á Höfðaströnd 20. nóvember 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri 20. janúar 2020.

Ari var yngstur 12 barna hjónanna Guðnýjar Guðnadóttur, f. 1891, d. 1981, og Rögnvaldar Sigurðssonar, f. 1888, d. 1935.

Systkini Ara voru í aldursröð:

Ari Rögnvaldsson - ókunnur ljósmyndari

Ari Rögnvaldsson - ókunnur ljósmyndari

Ari giftist hinn 26. desember 1954 eftirlifandi eiginkonu sinni Sigríði Halldóru Hermannsdóttur, fv. afgreiðslukonu og húsmóður, f. á Akureyri 1930.
Börn Ara og Sigríðar eru:

Anna Guðný,
f. 1956, starfsmaður Icelandair í Reykjavík, gift Ásgeiri H. Steingrímssyni tónlistarmanni,
dætur þeirra eru
 • Auður Karitas, maki Ari Magnússon, og eiga þau tvö börn,

Arna Sigríður. Hermann Ingi, framkvæmdastjóri og tónlistarmaður á Akureyri, f. 1957, í sambúð með Maríu Ólafsdóttur
en hans synir eru
 • Ari Freyr (móðir Kristín Helgadóttir), maki Guðrún Arna Jóhannsdóttir
  og eiga þau tvo drengi, 
 • Jón Atli (móðir Þórhildur Jónsdóttir), maki Vera Stefánsdóttir og eiga þau einn dreng.
Ingibjörg
, f. 1960, starfsmaður Samherja á Akureyri, gift Trausta Guðmundssyni kerfisfræðingi.
Sonur Ingibjargar er
 • Sigurður Ari Blöndal (faðir Sigurður Blöndal), maki Íris Egilsdóttir
  og eiga þau þrjú börn en
  sonur Sigurðar með Ásu Magnúsdóttur er
 • Alex Daði Blöndal.
  Sonur Ingibjargar og Trausta er
 • Elmar Ás.
  Yngst er
 • Sigríður Matthildur, f. 1963, starfsmaður Landsbankans í Reykjavík, gift Sindra Má Heimissyni, píanóstillara og tónlistarmanni.
  Þeirra börn eru
 • Sindri Rafn, giftur Elínu Jónsdóttur og eiga þau tvö börn, Dagur og Valborg Sunna.

Ari ólst upp á Siglufirði og fór snemma til sjós. Hann hélt til náms á Akureyri þar sem hann lærði til vélstjóra. Ari var lengst af sjómaður og vélstjóri á togurum Útgerðarfélags Akureyringa. Hann var á síldarskipum hjá Hreiðari Valtýssyni útgerðarmanni og fleiri skipum. Árið 1976 tekur Ari við starfi dælustjóra hjá Hitaveitu Akureyrar og vann þar til 70 ára aldurs.

Ari og Sigga bjuggu fyrstu árin í Fjólugötu 13 og Byggðavegi 84 en byggðu sér síðan hús í Skálagerði 2, sem var heimili þeirra fram til ársins 2018 þegar heilsan fór að bila og þau fluttust í Lögmannshlíð. Ari var söngmaður góður og elskaði að taka lagið með börnum og barnabörnum. Útför Ara verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 3. febrúar 2020, kl. 13.30.

Ég var 14 ára þegar Ari kom inn í fjölskyldu okkar og giftist Siggu Dóru systur minni. Ari og Sigga Dóra keyptu neðri hæðina í fjölskylduhúsinu í Fjólugötu 13 eftir andlát afa okkar og stofnuðu þar sitt heimili en foreldrar okkar áttu efri hæðina. Brátt stækkaði fjölskylda Ara og Siggu Dóru og börnin urðu fjögur. Við Ari urðum strax góðir vinir og áttum eftir að bralla ýmislegt. Við keyptum okkur bíl saman, sem var jafnframt fyrsti bíllinn minn.

Þetta var Ford Junior árgerð 1946. Grænsanseraður og glæsikerra að okkar áliti. Ari var alltaf á sjónum svo það kom í minn hlut að slíta út úr bílnum, sem við gerðum sannarlega. Þegar ég var kominn með konu og barn og við bjuggum á efri hæðinni í Fjólugötunni með móður minni var farið að þrengjast um fjölskyldurnar, þá ákváðum við að ráðast í að byggja saman nýtt fjölskylduhús að Byggðavegi 84.

Þá var Ari á sjónum og mikið fjarverandi en réð smið með meistararéttindi til að reisa með mér húsið með dyggri aðstoð og stuðningi frá „frænda“ þ.e. Stefáni Halldórssyni múrarameistara móðurbróður okkar Siggu Dóru. Það var gott að eiga gamla „Júnnann“ meðan á húsbyggingunni í Bv. 84 stóð. Ég verð alla tíð þakklátur fyrir traustið sem Ari sýndi mér „stráklingnum“ við byggingu á húsinu í Bv. 84. Húsið reis á einu sumri og þau fluttu með hópinn sinn á efri hæðina, við Auður á neðri hæðina og mamma okkar Siggu Dóru í 2ja herbergja íbúð í kjallaranum. Þarna fór vel um okkur öll í mörg ár. En þar kom að húsnæðið sprakk utan af Siggu Dóru og Ara og börnum svo þau reistu sér nýtt hús sem rúmaði þau öll.

Við hjónin og börnin okkar þökkum Ara samfylgdina í gegnum áratugina. Alltaf var hann glaður og hlýr við börnin okkar og þegar hann kom úr siglingum færði hann þeim alltaf eitthvað spennandi og gott í munninn, t.d. Smarties sem var aldeilis vinsælt. Ari var glaðvær og brosmildur og aldrei varð okkur sundurorða. Hann hafði gaman af söng og var félagi í Karlakórnum Geysi um tíma.

Hann var góður dansari og elskaði að dansa. Alltaf hefur verið gott og gaman að koma í Skálagerðið og samgleðjast með þeim öllum og miklir kærleikar eru á milli frændsystkinanna þ.e. barnanna okkar systkina. Nú eru breyttir tímar fram undan, gefst ekki lengur tækifæri til að líta við í Skálagerðinu til að ræða heimsins gagn og nauðsynjar; ruglið í pólitíkinni eða um daginn og veginn.

Elsku Ari. Þökkum þér vináttuna og samveruna í gegnum áratugina. Góða ferð í Sumarlandið!

Sendum Siggu Dóru, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingólfur og Auður.
----------------------------------------------

Suðurbrekkan á Akureyri undir lok sjöunda áratugarins. Í nýbyggðu hverfinu var líf og fjör, ungar fjölskyldur með krakkaskara bjuggu í hverju húsi. Líf okkar krakkanna í Byggðaveginum virtist endalaus leikur, skemmtileg uppátæki og ævintýri. Í kjallaranum bjó amma Anna og á efri hæðinni bjuggu Lagga frænka og Ari með krakkana sína fjóra, Önnu Guðnýju, Hemma, Ingu og Möttu. Þetta var fríður flokkur í Byggðavegi 84, ein stór fjölskylda. Ari var á sjó og þegar hann kom heim úr siglingum fengum við systkinin glaðning alveg eins og frændsystkinin á efri hæðinni. Ari kom færandi hendi, það var ekki bara framandi rafmagnsbíll eða töfrandi dúkka sem kom upp úr töskunum, okkur fannst Ari hafa allan heiminn í farteskinu þegar hann kom frá útlöndum.

Árin liðu, Ari kom í land, börnin fullorðnuðust og fjölskyldan á efri hæðinni flutti. Í Skálagerði 2 var alltaf tekið á móti okkur með opnum faðmi, hlýju og umhyggju. Það var mikið skrafað, spurt fregna og rætt um það sem var efst á baugi. Ari kom sér vel fyrir í eldhúskróknum og sagðar voru sögur af mönnum og málefnum. Eftir því sem árin liðu barst talið meira að fréttum af barnabörnum og barnabarnabörnum.

Nú hefur Ari lagt upp í sína hinstu sjóferð. Siglfirðingurinn glæsilegi stendur í stafni og siglir fleyi sínu um fagurblá víðerni. Við hlýjum okkur við góðar minningar og erum þakklát fyrir að hafa átt langa samleið með Ara. Hugur okkar er hjá Löggu frænku sem kveður nú lífsförunaut sinn.

Við vottum Löggu, frændsystkinum okkar og afkomendum dýpstu samúð.

Elín Björg, Hermann Örn og fjölskyldur.
-----------------------------------------------------

11. febrúar 2020 | Minningargreinar | 440 orð | 1 mynd

Ari Rögnvaldsson

Ari Rögnvaldsson fæddist 20. nóvember 1932. Hann lést 20. janúar 2020. Útför Ara var gerð 3. febrúar 2020.

Ari Rögnvaldsson, vélstjóri á Akureyri, er látinn 87 ára að aldri. Kynni okkar Ara hófust undir lok áttunda áratugar síðust aldar. Hann var þá orðinn dælustjóri hjá Hitaveitu Akureyrar en ég nýkominn úr námi og að taka við jarðhitarannsóknum í Eyjafirði sem varð drjúgur hluti af starfi mínu næstu áratugi. Þetta voru erfiðir tímar fyrir Hitaveituna á Akureyri, jarðhitasvæðin í Eyjafirði höfðu ekki staðið undir þeim væntingum sem menn höfðu þegar hitaveitan var byggð og stöðugur orkuskortur blasti við. Verð heita vatnsins hækkaði stöðugt og sífellt var leitað nýrra staða þar sem ná mætti í meira vatn. Verst var þó óvissan á veturna um það hvort tækist að anna orkuþörfinni – ég held að ástandið hafi oft verið mun tæpara en bæjarbúar gerðu sér grein fyrir. Þetta mæddi meðal annarra mjög á Ara sem stýrði dælingu úr hinum mismunandi hitaveituholum til bæjarins en það þurfti að gera með vissum hætti til að tryggja orkudreifinguna og öryggið. Þetta gerði Ari allt með miklum sóma og samviskusemi. Óteljandi voru þau símtöl sem við áttum á þessum árum um hvernig best væri að haga dælingunni.

Vatnsborð féll óvenjumikið í borholum hitaveitunnar við vinnslu og því varð að dæla vatninu upp af meira dýpi en annars staðar á Íslandi og því fylgdu ýmis tæknivandamál sem leysa þurfti. Það hvíldi mest á Ara enda er hann sagður „brautryðjandi í notkun djúpdælna á Norðurlandi“ í Jarðhitabók Guðmundar Pálmasonar er kom út árið 2005.

Ari framkvæmdi einnig mikið af þeim mælingum í borholum sem mat á jarðhitaforðanum og stýring vinnslunnar hvílir á og gerði það af mikilli natni og samviskusemi. Þá var hann iðulega sá sem kynnti hitaveituna af miklum áhuga fyrir nemendum Jarðhitaskólans sem komu á hverju sumri norður í kynnisferð. Einnig er mér sérstaklega minnisstæð þátttaka hans í merkri tilraun með niðurdælingu jarðhitavatns á Laugalandi í Öngulstaðahreppi um miðjan tíunda áratuginn sem leiddi til þess að Hita- og vatnsveita Akureyrar varð fyrsti aðilinn á Íslandi til að gera niðurdælingu í jarðhitakerfi að föstum þætti í rekstri sínum. Hann hafði lifandi áhuga á því sem var verið að gera og vinna hans átti mikinn þátt í þeim árangri sem náðist. Eftir alla erfiðleikana búa Akureyringar nú við einna lægsta verðið á heitu vatni til húshitunar – árangur sem Ari og annað starfsfólk hitaveitunnar má vera stolt af.

Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Ara, það var alltaf einstaklega þægilegt og ánægjulegt að vinna með honum. Ég sendi Sigríði konu hans og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Megi hann hvíla í friði að góðu lífsstarfi loknu.

Ólafur G. Flóvenz.