Meyvant Rögnvaldsson

Morgunblaðið - 26. mars 1991

Meyvant Rögnvaldsson, Siglufirði Fæddur 31. mars 1933 Dáinn 12. mars 1991

 • Þig, sem að alla
 • ávallt vildir gleðja."
 • „Þú, sem að aðra
 • aldrei vildir hryggja."
 • „Þú, sem úr öllu
 • ætíð vildir bæta."
  (Grímur Thomsen)

23. mars 1991, var til moldar borinn frá Siglufjarðarkirkju ástkær vinur svo margra, Meyvant Rögnvaldsson, eða Meyi eins og hann var oftast nefndur, hann andaðist í Sjúkrahúsi Siglufjarðar 12. mars eftir áralanga hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm, sem fellir margan manninn á besta aldri.

Meyvant Rögnvaldsson - Ljósmynd Kristfinnur

Meyvant Rögnvaldsson - Ljósmynd Kristfinnur

Meyvant fæddist á Siglufirði 31. mars 1933 og var yngsta barn sæmdarhjónanna Guðbjargar Aðalbjörnsdóttur, f. 2. september 1903 á Máná í Úlfsdölum, d. 16. nóvember 1977, og Rögnvalds Gottskálkssonar, f. 26. ágúst 1893 á Hring í Stíflu í Fljótum, d. 15. apríl 1981.

Hin börnin eru:

Allt þetta dugnaðarfólk er búsett á Siglufirði. Á Siglufirði var í upphafi vagga skíðaíþróttarinnar í landinu, og föðurætt Meyja, Gosaættin svokallaða, var þar í forystuhlutverki í eina tvo mannsaldra.

Ættfaðirinn Gottskálk Gottskálksson og kona hans Sólveig Ólafsdóttir flytja frá Mið-Mói í Fljótum um aldamót með 8 börn sín til Siglufjarðar, og fljótt gerast synirnir:

 • Ólafur Gottskálksson,
 • Rögnvaldur Gottskálksson,
 • Þorsteinn Gottskálksson og
 • Guðlaugur Gottskálksson, miklir frammámenn skíðaíþróttarinnar.

— Síðar tóku bræðrabörnin upp merki skíðafélaganna í firðinum, og urðu mörg þeirra afreksmenn og íslandsmeistarar í ýmsum greinum. skíða. Þar má nefna syni Ólafs Gottskálksson, þá, Björn Ólafsson, Rögnvald Ólafsson og Einar Ólafsson, syni Þorsteins Gottskálkssonar, þá Gísla Þorsteinsson og Jón Þorsteinsson, son Guðlaugs Gottskálkssonar, Birgir Guðlaugsson og svo dóttur Rögnvaldar Gottskálkssonar, Aðalheiði Rögnvaldsdóttir.

Það hlýtur stundum að hafa verið sárt fyrir vininn Meyja, að geta ekki fylgt eftir sem skyldi systkinum og frændliði upp um fjöll og firnindi á skíðum á heilbrigðum og skemmtilegum leik, þar sem hann átti ætíð við fötlun í hnjám og olnboga að stríða, og varð því oft að vera þögull áhorfandi, sem fylgdist með úr fjarlægð, af áhuga, en hafði samt sínar ákveðnu skoðanir á öllum þáttum íþróttamála. Meyi stundaði íþróttir, svo sem hann gat og náði ágætum árangri í sumum svo sem brids og ballskák. —

Meyi öfundaðist ekki yfir velgengni annarra, tróð ekki illsakir við nokkurn mann, vildi allt fyrir alla gera, átti í ríkum mæli þennan innri viljastyrk og þessa seiglu, sem gerði honum kleift að sætta sig við örlög sín frá upphafi til endaloka lífsins. Hann var ljúflingur. Við kynntumst sex ára gamlir í forskóla og vorum sessunautar í 11 skólaár. Við gengum í fóstbræðralag, bundumst tryggri vináttu sem aldrei bar nokkurn skugga á.

Gagnfræðapróf tókum við saman á kirkjuloftinu 1950, þar sem nú er safnaðarheimili Hvanneyrarprestakalls á Siglufirði.
— Leiðin heim úr skóla lá framhjá heimili Meyja að Hvanneyrarbraut 5, þar sem æði oft var staldrað við og spilað, rommý, kasínu, manna, os.frv., eða Meyi lék á orgelið og söng með sinni ágætu bassarödd. I ranni þeirra Beggu og Valda, foreldranna, voru ekki miklir og stórir salir, en þau áttu í manni hvert bein, gestrisnin og hlýjan með eindæmum, og aldrei styggðaryrði í okkar garð, þó ekki værum við alltaf hljóðir og prúðir.

Aukatímar í ensku með Meyja hjá Ólínu móðursystur minni voru mjög minnisstæðir, því þar var oft rætt um skáldskapinn, ljóðið, sem börn og unglingar lærðu trúlega meira um þá, en í dag. Eftir gagnfræðanám skilja leiðir um sinn. Krakkar unnu við ýmis störf á Siglufirði í þá daga, það voru sendlastörf í verslunum, bryggjuvinna í síldinni, bæjar- og byggingarvinna, garðyrkjustörf o.s.frv. Meyi dró ekki af sér við vinnu, hann stundaði margháttuð störf sem unglingur og síðar vann hann við, bifreiðarakstur, sjómennsku á togurum, bátum og kaupskipum.

Hann sigldi kringum hnöttinn á norskum kaupförum og hafði gaman af að ræða um fjarlæg lönd og þjóðir, því auk þess að hafa farið víða, var hann vel lesinn, fróður og áhugamál hans voru á ýmsum sviðum. Mörg síðustu ár sín starfaði hann hjá útsölu ÁTVR á Siglufirði, þar sem bróðir hans Gottskálk fór með stjórn mála. Allir báru Meyja góða sögu. Hann var lipur við störf sín, samviskusamur og drengur góður í hvívetna, dagfarsprúður og einkar næmur á hið skoplega í lífinu og tilverunni, hláturmildur og hvers manns hugljúfi.

Meyi fluttist með foreldrum sínum af Hvanneyrarbraut 5 að Lindargötu 18 og hefur búið þar síðan þau féllu frá. Þótt Meyi hafi stundum verið einmana, því ekki kvæntist hann, þá stóð hann ekki einn, því systkini hans, mágkonur og öll ættin bar hag hans fyrir brjósti og studdi hann og styrkti í einmanaleik og miklum veikindum hin síðari ár. Ég veit að það allt ber að þakka nú að leiðarlokum, svo og alla góða umönnun sem hann fékk á sjúkrastofnunum, nú síðast á sjúkrahúsi Siglufjarðar.

Aðstandendum Meyvatns flyt ég samúðarkveðjur frá öllum bekkjarsystkinum hans, sem hittust á Hóli í Siglufirði sumarið 1988, í samkvæmi, þar sem hann var eins og ætíð, hrókur alls fagnaðar. Þannig munum við hann um alla framtíð. Meyvant heillaðist af fegurð fjallanna við Siglufjörð eins og flestir sem þaðan eru komnir, „Merkið stendur, þótt maðurinn falli." Hann átti sinn þátt í að reisa útsýnisskífu á Álfhóli við ósa Hólsár, þar sem vísað er á örnefni í firðinum, hlíðar, tinda, gnípur, fjöll og skörð.

 • Bjart er yfir bröttum hlíðum,
 • blærinn strýkur yfir skörð.
 • Gnípur hátt til himins benda
 • hljóðar, sem þær standi vörð.

 • Sumarnætur bjartar blíðar,
 • blikar dýrðleg sólarglóð.
 • Letrar allt með loga stöfum,
 • sem líti maður gull og blóð.
  Sigurbjörg Hjálmarsdóttir

Þegar svo kær vinur eins og Meyi fellur frá er svo erfitt að festa á blað þær yndislegu minningar, sem hrannast upp í hugann, en tilfinningar sem bærast í brjóstinu eru þó enn erfiðari að henda reiður á, því þær flökta svo um og eru oft óskiljanlegar og manni einum eignaðar. Minningar um hinn blíða og milda drengskaparmann vaka og verma þótt um leið svíði í sárinu, sem þó grær er fram líða stundir.

Systkinum Meyja, öllu venslafólki, vinum hans fjölmörgum sendi ég og fjölskyldan öll, innilegar samúðarkveðjur norður í fjörðinn fagra, sem hann unni svo heitt. Blessuð sé minning Meyvants Rögnvaldssonar.

Friðleifur Stefánsson