Kristín Jónasdóttir

mbl.is - 22. október 2016 | Minningargreinar 

Kristín Jónasdóttir fæddist á Bjargi, Vík í Mýrdal, 1. maí 1950. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Siglufirði, 1. október 2016.

Foreldar hennar voru Jónas Tryggvi Gunnarsson frá Vík í Mýrdal, f. 15. júlí 1927, d. 19. desember 2005, og Helga M. Árnadóttir, f. í Miðey, A-Landeyjum 20. febrúar 1930.

Systkini Kristínar eru

  • 1) Ása Jarþrúður Jónsdóttir, f. 26. mars 1949, maður hennar er Ove Hansen, f. 4. febrúar 1945,

  • 2) Guðný Jónsdóttir, f. 19. október 1951, maður hennar er Árni S. Sigurjónsson, f. 26. júlí 1948,

  • 3) Margrét Jónsdóttir, f. 12. júlí 1953,

  • 4) Ólöf Jónsdóttir, f. 28. september 1954, maður hennar er Guðmundur Valtýr Óskarsson, f. 4. febrúar 1956,
  • 5) Árni Jónsson, f. 6. júlí 1958. 
Kristín Jónasdóttir - ókunnur ljósmyndari

Kristín Jónasdóttir - ókunnur ljósmyndari

Kristín giftist 15. janúar 1972 eftirlifandi eiginmanni sínum, Sig. Ómari Haukssyni, f. á Siglufirði 28. desember 1950.
Foreldrar Ómars eru Rósa Aðalheiður Magnúsdóttir, f. 20. desember 1924, og Haukur Jónasson, f. 17. júlí 1926, d. 26. febrúar 2016.

Kristín og Ómar kynntust í Kaupmannahöfn árið 1970, fluttu sama ár til Reykjavíkur og hófu búskap á Laugavegi 126. Árið 1974 fluttust þau til Siglufjarðar, bjuggu fyrstu tvö árin á Hólavegi 37 og síðar á Hólavegi 41.

Börn Kristínar og Ómars eru

1) Haukur Ómarsson
og þeirra börn eru
, f. 15.10. 1971, sambýliskona hans er Solveig Ólöf Magnúsdóttir, f. 8.12. 1969,
  • Magnús Bjartur, f. 1994,
  • Hildigunnur, f. 1998, og
  • Kristín Hólmfríður, f. 2011.

2) Rósa Dögg Ómarsdóttir,
og þeirra börn eru
f. 18. apríl 1974, sambýlismaður hennar er Róbert Haraldsson, f. 23. mars 1969,
  • Kristófer Dan, f. 1995,
  • Rebekka Rut, f. 1996, og
  • Tómas Orri, f. 2004,

3) Jónas Logi Ómarsson
og þeirra börn eru
, f. 17. nóvember 1975, eiginkona hans er Ester Torfadóttir, f. 11.6. 1979,
  • Magdalena, f. 2008,
  • Maríanna, f. 2009, og
  • Viktoría, f. 2014,

4) Eva Björk Ómarsdóttir,
f. 10. nóvember 1979,
en dóttir hennar og Stefáns Loga Magnússonar er
  • Ísabella Ósk, f. 2006. 

Kristín ólst upp í Vík í Mýrdal, gekk í Víkurskóla og útskrifaðist síðan með gagnfræðapróf frá Skógaskóla árið 1967. Að námi loknu starfaði hún á Hótelinu í Vík en því næst, árið 1968, hélt hún á vit ævintýranna í Kaupmannahöfn þar sem hún bjó í tvö ár og vann við umönnun barna. Eftir heimkomu til Reykjavíkur vann Kristín hjá Gefjun. Eftir að hún fluttist til Siglufjarðar var hún fyrst og fremst húsmóðir en vann síðar ýmis störf s.s. við fiskvinnslu og umönnun.

Útför Kristínar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, 22. október 2016, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Elsku mamma mín.

Það er víst komið að kveðjustund.

Ég sit hér og hugsa um allar þær góðu og skemmtilegu stundir sem við áttum saman. Þú hefur alla tíð verið ótrúlega dugleg, vannst í rækjunni á vöktum og komst heim í kaffinu á morgnana til að vekja mig í skólann sem var nú ekki alltaf voða auðvelt þar sem mér fannst alveg ótrúlega gott að sofa. Eftir að þeirri vinnu lauk fórstu að vinna í Skálarhlíð, dagþjónustu aldraða, það átti svo sannarlega vel við þig að vera innan um gott fólk sem sýndi þér mikla væntumþykju og þú skilaðir því margfalt til baka, eins hundrað prósent og þú varst.

Unglingsárin okkar voru mjög góð, þú settir okkur ekki einhverjar fastar reglur þannig að við skiluðum okkur yfirleitt alltaf heim á réttum tíma eða bara þegar hinir fóru heim, þá varstu komin fram í eldhús um leið og þú heyrðir í útidyrahurðinni, þá var tekið spjall, smá snarl og hlustað á Rás 2 áður en farið var í rúmið.

Ég flutti til Reykjavíkur í smá tíma og kom svo til baka einu barni ríkari og þá tókuð þið mamma og pabbi vel á móti okkur, það var gott að fá að búa hjá ykkur fyrstu árin hennar Isabellu og forréttindi fyrir hana að alast upp hjá ömmu og afa, þið kennduð henni margt og fyrir það er ég svo þakklát. Mamma og pabbi tóku alltaf vel á móti gestum og ekki til það barn sem ekki fékk matarást á mömmu, gott að koma við á H 41 og fá sér eitthvað gott í gogginn, þó að það væru ekki nema kannski soðnar kartöflur á matarborðinu dugði það sumum.

Á laugardögum fór mamma alltaf í bakaríið og keypti rúnstykki og eitthvað sætt og við fengum kókómalt (Nesquik) með, nágrannarnir og vinirnir litu við í kaffi og voru þetta dýrmætar stundir sem og allir aðrir dagar sem fólk gaf sér tíma til að líta við. Fyrir fjórum árum síðan greindist þú fyrst með krabbamein, ég man hvað þetta var mikið áfall en þú varst staðráðin í því að taka þetta með stæl og vera í sigurliðinu, þér tókst það en því miður varði það í of stuttan tíma.

Þvílík jákvæðni, dugnaður og baráttuvilji kom þér ansi langt enda fædd á sjálfan verkalýðsdaginn, 1. maí. Þú varst sko ekki tilbúin að gefast upp og sagðir oft þessa fleygu setningu: „Þetta hlýtur að fara að lagast.“ Sumarið var bæði þér og okkur öllum erfitt sem horfðum upp á þig dragast smám saman aftur úr, þjást og finna svo mikið til og við gátum lítið sem ekkert gert nema vera til staðar fyrir þig, hvetja þig áfram og aðstoða þig eftir bestu getu. Maður er víst aldrei tilbúinn þegar kallið kemur, það var svo gott að geta verið hjá þér, haldið í höndina þína, kysst þig á ennið og sagt þér hvað mér þótti vænt um þig síðustu stundirnar og fyrir það er ég svo þakklát.

Hárið er í lagi, þú ert vel varalituð og svo flott og fín eins og þú vildir alltaf vera. Ég veit að afar mínir og vinir þínir sem tapað hafa sama stríði og þú taka vel á móti þér í Sumarlandinu. Við munum passa vel upp á pabba og hugsa um hann eins vel og við getum, hann er kominn í nýju gallabuxurnar.

Ég sakna þín alveg ótrúlega mikið, elsku hjartað mitt, þangað til við hittumst næst.

  • Hún var einstök perla.
  • Afar fágæt perla, skreytt
  • fegurstu gimsteinum
  • sem glitraði á
  • og gerðu líf samferðamanna hennar
  • innihaldsríkara og fegurra.
  • Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,
  • gæddar svo mörgum af dýrmætustu
  • gjöfum Guðs.
  • Blessuð sé minning
  • einstakrar perlu.
    (Sigurbjörn Þorkelsson)

Þín dóttir, Eva Björk Ómarsdóttir.
----------------------------------------------------

Að sólin hafi skinið á Siglufjörð frá því að tengdamóðir mín kvaddi tel ég enga tilviljun. Sólin er að votta Stínu virðingu sína. Stínu sem elskaði sólina og naut þess að vera úti við þegar hún skein.

En sjálf var hún eins og sólin. Geislandi persóna sem umvafði fólkið í kringum sig með virðingu, ást og hlýju. Fjölskyldukona með hjartað á réttum stað. Amma eins og þær gerast bestar. Stolt af börnum og barnabörnum. Alltaf hringdu krakkarnir í Stínu ömmu þegar eitthvað markvert gerðist í lífi þeirra. Hún kunni svo sannarlega að samgleðjast öðrum á góðri stund en var einnig öruggt skjól þegar á móti blés. Það leið öllum vel í návist þessarar dásemdarkonu. Hún var líka dugnaðarforkur, ósérhlífin en átti samt oft erfitt með að hrósa sjálfri sér fyrir vel unnið dagsverk.

Það er svo gott að geta staldrað við góðar minningar, eiga nóg af þeim þegar ástvinir kveðja og þær eigum við fjölskyldan svo sannarlega. Fallegar og góðar sem við yljum okkur við þegar sólin hverfur bak við fjöllin og dimma tekur.

Lán mitt var að fá einmitt þessa konu sem tengdamóður og ömmu barna minna. Fyrir það er ég óendanlega þakklát.

Þín tengdadóttir, Solveig Ólöf.
-----------------------------------------------

Elsku amma mín.

Það sem ég á eftir að sakna þín mikið.

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, það voru forréttindi að fá að alast upp að hluta til hjá ykkur afa. Ég reyndi nú oftast að vera dugleg að hjálpa þér, tók stundum til í eldhúsinu og fékk mér stiga svo ég næði upp á snúruna fyrir þig til að hengja upp þvottinn. Okkar bestu stundir voru þegar ég fékk að bera á þig krem, nudda tásurnar þínar og greiða þér, það fannst þér ótrúlega notalegt og þú oft á tíðum dormaðir í sófanum. Það er tómlegt án þín og ég er ekki alveg búin að átta mig á þessu öllu saman, en ég held áfram að vera dugleg að hjálpa afa.

Góða nótt, elsku amma, elska þig.

Isabella Ósk.
------------------------------------------------

Elsku besta amma mín, nú sit ég með tárin í augunum og hugsa til þín. Ég hugsa til þín öllum stundum, gullið mitt.

Ég vil ekki trúa því að þú sért farin frá okkur. Þú sem hefur verið svo stór hluti af lífi mínu alla tíð. Þó að það sé erfitt að missa þig þá reyni ég að telja mér trú um að nú líði þér betur.

Elsku amma, orð fá því ekki lýst hversu þakklát ég er fyrir þig og mun alltaf vera. Ég vil fyrst og fremst þakka þér fyrir að vera mér sem móðir í það ár sem mamma hefur búið erlendis. Það var alls ekki sjálfgefið að ég kæmi inn á heimili ykkar afa, með mikinn farangur í eftirdragi sem tók öll herbergi í húsinu. Ykkur fannst það þó alveg sjálfsagt mál og börðust fyrir því að hjá ykkur skyldi ég vera.

Æ, hvað það var yndislegt að búa hjá ykkur og mér hlýnar í hjartanu þegar ég hugsa um notalegu stundirnar sem við áttum saman. Ég vildi óska þess að þú gætir átt fleiri stundir með okkur afa, en við vitum að þú vakir yfir okkur, engillinn minn.

Þar sem þú ákvaðst að taka móðurhlutverkið að þér var þér auðvitað skylt að reyna að siða mig aðeins til. Þú lagðir sérstaka áherslu á að fá mig til þess að hætta að blóta og naga neglurnar, en án árangurs. Mér fannst þó reyndar dálítið fyndið að blóta fyrir framan þig því þér blöskraði svo agalega mikið í hvert skipti. Þrátt fyrir að ná ekki að siða mig til þá verður það ekki tekið frá þér hversu yndisleg þú varst við mig.

Þú hugsaðir svo vel um mig og sást til þess að mér liði vel. Þú vaknaðir meðal annars óumbeðin með mér alla morgna þegar ég fór í skóla eða til vinnu, sama á hvaða tíma það var. Það þurfti sko að gefa barninu morgunmat! Þú varst tilbúin að gera hvað sem er fyrir alla í kringum þig.

Mér fannst mjög erfitt að flytja til Reykjavíkur núna í haust og vera svona langt í burtu frá bæði þér og afa. Sérstaklega þar sem þú varst svo veik þá vildi ég bara vera hjá þér. En ég hugsa til síðustu helgarinnar sem við áttum saman og ég geymi þá stund sem og allar aðrar stundir í hjarta mínu um ókomna tíð.

Elsku amma, ég vissi ekki að söknuður gæti verið svona mikill. Takk fyrir að vilja alltaf allt fyrir mig gera. Ég enda þetta á síðustu orðunum sem þú sagðir við mig. Ég elska þig.

Rebekka Rut.
-------------------------------------------------

Það er mikill söknuður að hafa kvatt Stínu systur. Hún greindist með mergfrumæxli fyrir fjórum árum en þá hafði hún fundið fyrir óútskýrðum einkennum um nokkurn tíma. Veikindum sínum tók hún af æðruleysi og var alltaf í baráttuhug. Hún lagði hart að sér að lifa heilbrigðu lífi hvort sem sneri að hreyfingu eða mataræði.

Stína lagði mikið upp úr því að vera ávallt vel til fara og aldrei fór hún út án þess að líta óaðfinnanlega út. Hún var elst okkar alsystkina og gegndi þar stóru hlutverki í að gæta okkar og vera góð fyrirmynd og var alltaf treyst.

Sem unglingur fór hún að vinna við hótelstörf og þar fékk hún mikla reynslu og átti auðvelt með að halda veglegar veislur síðar. Ég var svo lánsöm að fá að búa hjá Stínu í Danmörku eitt sumar og vera undir hennar verndarvæng, þá var hún að vinna hjá íslenskri fjölskyldu.

Í Danmörku kynntist hún Ómari sínum sem var við störf þar og byrjuðu þau sambúð í Reykjavík, og síðar á Siglufirði. Á ný fylgdi ég henni eftir og flutti þangað um tveggja ára skeið. Þar komu góðu ráðin mér að notum hvort sem um barnauppeldi eða heimilishald var að ræða.

Heimili Stínu og Ómars hefur alltaf staðið mér opið og gestrisni þeirra fáheyrð. Ef halda átti veislur þá var öruggast að leita til Stínu og fá uppskriftir og leiðbeiningar. Hún talaði oft um að draumur sinn hefði verið að reka lítið kaffihús.

Ári eftir að Stína greindist með sjúkdóminn fannst mér að við mættum engan tíma missa, fórum við og mamma til Ólafar í Noregi. Naut hún fjölskyldustundanna þar. Hún hafði oft á orði hve vel henni hefði liðið á þessum tíma.

Það var henni gleðiefni þegar fréttir komu um að fjármunum yrði varið í rannsókn á sjúkdómnum svo greina mætti hann fyrr og bæta meðferð. Þó að henni væri ljóst að það kæmi henni ekki til hjálpar áréttaði hún að við myndum taka þátt í þeirri rannsókn.

Stína hugsaði vel um alla og bar hag allra fyrir brjósti, barnabörnin fengu að njóta umhyggju hennar sem þau munu búa að til framtíðar. Mömmu og tengdamóður sinni sinnti hún einstaklega vel og erfitt verður fyrir þær að takast á við þann missi. Rúmum tveimur vikum fyrir andlátið fórum við í síðasta bíltúrinn saman mæðgur, þá var það henni kappsmál að heimsækja tengdamömmu þótt kraftar væru litlir.

Ég bjó mig undir að geta átt meiri tíma með Stínu í haust, en samvera með henni síðustu dagana var mér dýrmæt og þær minningar mun ég geyma vel. Með bros á vör tveimur dögum fyrir andlátið hafði hún á orði að þar sem engin meðferð myndi hjálpa þá væri ekki annað að gera en fara upp í fjall og tína fjallagrös.

Síðustu ár vann hún í Skálahlíð þar sem heimilisfólk mat hana mikils í störfum sínum og gaf það henni mikið.

Stína mat mikils stuðning vinkvenna og Guðrúnar hjúkrunarfræðings á Akureyri sem fylgdi henni eftir nánast allan tímann. Jafnframt naut hún frábærrar umönnunar starfsfólks á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.

Um leið og ég þakka samfylgdina sem aldrei hefur borið skugga á votta ég Ómari og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð.

Hvíl í friði systir, Margrét.
-------------------------------------------------

Mín kæra systir Kristín lést laugardaginn 1. október. Fjögurra ára baráttu við illvígan sjúkdóm er lokið, þrátt fyrir hennar vilja til sigurs. Allt tímabilið einkenndist af litlum sigrum og ósigrum sem tekið var með einurð og hugrekki þar til kraftarnir dugðu ekki lengur til. Allan tímann stóðu Ómar og börnin með Kristínu sem ómetanleg hjálp og stuðningur. Þegar ég hrósaði börnunum fyrir óeigingjarna aðstoð gerði Kristín að gamni sínu og kallaði það „borgun fyrir gott uppeldi“.

Við vorum sex systkinin og fjögur ár á milli okkar tveggja. Þessi áramunur gerði að verkum að við fórum mikið á mis við hvor aðra vegna fjarveru að heiman, sem af eðlilegum ástæðum var vegna skólagöngu og vinnu og svo snemma flutnings frá æskuheimilinu í Vík.

Þegar ég var tólf ára var Kristín á leið út í lífið og að heiman. Þrátt fyrir þetta var alltaf systrakærleikur okkar á milli, og allt hennar viðmót við mig einkenndist af einlægni, gleði og tryggð.

Kristín elskaði allar samverustundir með fjölskyldu og vinum og blómstraði í samveru þeirra sem hún var örugg með.

Á árunum kringum 1970 komu leiðir okkar aftur saman í Reykjavík.

Á þeim árum starfaði Kristín í verslun í Austurstræti. Þar man ég eftir henni sem glæsilegri ungri konu í grænum kjól með frönsku mynstri, með „frænkubarn“ mitt á leiðinni. Nokkrum árum seinna flutti fjölskyldan til Siglufjarðar til að takast á við alvöru lífsins með fjögur börn, oft í erfiðu norðlensku veðurfari.

Ég á margar góðar minningar frá heimsókn til Kristínar og Ómars á Siglufirði.

Einstök gestrisni þeirra beggja og að vita að ég var alltaf velkomin til styttri eða lengri tíma.

Eftir að ég hef búið erlendis í 30 ár hefur verið mikil fjarlægð milli okkar systra en það hefur aldrei haft áhrif á samband okkar. Þótt ég hafi ekki sjálf haft möguleika á að fara alla leið til Siglufjarðar á heimsóknum mínum til Íslands tók Kristín á sig ferðina til Reykjavíkur til að hitta mig og fjölskylduna. Systkini eru helstu hjálparhellur okkar í lífinu og hluti af barnsárunum sem aldrei hverfur okkur úr minni.

Þegar ég horfi á myndir af okkur systkinunum litlum og sé brosið hennar framkallar það bara góðar minningar sem héðan í frá blandast öllum þeim góðu minningum um Kristínu sem ég tek með mér áfram í lífinu.

Ég þakka fyrir að þú leyfðir mér að taka þátt í baráttu þinni síðustu árin og hversu opin þú varst um gang mála og líðan.

Sakna þín. Þín systir Ólöf.
------------------------------------------------------

Í dag, fyrsta vetrardag, er okkar ástkæra vinkona, Kristín Jónasdóttir, kvödd og lögð til hinstu hvíldar.

Hún unni sumrinu og birtunni. Bar með sér ljós og hlýju hvar sem hún kom og þannig minnumst við hennar. Minning hennar mun færa okkur birtu í skammdeginu, með von um að aftur komi vor í dal.

Hún var eiginkona Ómars Haukssonar, skólabróður og okkar góða vinar. Hún var honum sá besti lífsförunautur sem hægt er að óska sér. Sterk, heilsteypt og traust kona.

Ótal góðar stundir áttum við saman. Seinni ár var Siglufjörður í okkar huga að eiga stundir með Stínu og Ómari. Aldrei bar skugga á. Margt er að þakka og margs að minnast.

Alltaf stóð hún keik og stolt yfir sínu og það var ekki lítið sem hún gat glaðst yfir. Börnin hennar fjögur voru hennar stolt og yndi, og ekki síður styrkur. Síðan bættust barnabörnin við og tengdabörn. Fríður flokkur mannvænlegra barna.

Allir sem kynntust Stínu vita, að leitun er að vandaðri manneskju. Dugnaði hennar var viðbrugðið, ósérhlífin og kröftug. Hún var hávaxin, grönn og glæsileg. Má með sanni segja að það voru forréttindi að vera henni samferða.

Þegar veikindin bönkuðu upp á fyrir nokkrum árum tók hún því með miklu æðruleysi og einhvern veginn fannst okkur hún aldrei bugast. En við vitum að hún gekk í gegnum þrautir og erfiðleika. Nú hefur hún fengið hvíldina og er farin á nýjan stað, í aðrar víddir. Missir Ómars, barna, barnabarna og tengdabarna er mikill. Einnig syrgja hana móðir og tengdamóðir. Færum við þeim öllum okkar dýpstu samúð.

Hjartans þakkir fyrir samfylgdina.

Kristín og Friðbjörn.
-----------------------------------------------------

Ein af allra bestu vinkonum mínum, hún Kristín Jónasdóttir, Stína, er fallin frá langt fyrir aldur fram. Hún var yndisleg kona með stórt hjarta og góða nærveru. Stína barðist hetjulega við sjúkdóm sinn, krabbamein, verkefni, sem hún tókst á við með æðruleysi og dugnaði. Stína var ótrúlega sterk, sjálfstæð og jákvæð, traust og trú og dýrmæt vinkona. Vildi hún allt fyrir mann gera, enda vinamörg. Til hennar var gott að leita, það fann ég best er ég missti manninn minn um áramótin 2011, þá var gott að eiga hana að.

Stína var vinur vina sinna, hjartagæska einkenndi hana og gestrisni út í eitt. Minningarnar, gamlar, nýjar, margar og fallegar fylgja mér. Á afmælinu mínu í ágústlok hringdi Stína í mig, fárveik, ég var þá stödd í Reykjavík og var hún að vita hvernig ég hefði það. Hún var einstök, klár og flott og bar aldrei skugga á vináttu okkar. Stína stundaði alla almenna vinnu, enda eftirsóttur starfskraftur, samviskusöm og dugleg. Síðasti vinnustaður hennar var í Skálarhlíð, heimili fyrir aldraða, þar sem hún var elskuð og virt og er sárt saknað.

Það er erfitt að horfa eftir góðri vinkonu á besta aldri. Við höfum verið vinkonur yfir 40 ár og er ég þakklát fyrir allar okkar stundir saman. Ómar, eiginmaður Stínu, hefur staðið eins og klettur við hlið hennar allan tímann eins og börnin hennar öll. Megi Ómar, Helga móðir hennar, börn, barnabörn, ættingjar og vinir öðlast styrk í sinni sáru sorg með minningunni um eina bestu konu sem ég hef þekkt.

Elsku Stína, ég er fullviss að framréttar hendur hafa tekið á móti þér á ströndinni ókunnu.

Með hryggð í huga kveð ég kæra vinkonu mína, þakklát fyrir að hafa átt samleið með henni þennan tíma. Veri hún kært kvödd og Guði falin.

Brynja Stefánsdóttir.
---------------------------------------------------------------

Skapadægur

  • Í garðinum laufin gulna
  • og golan feykir þeim svöl
  • kvöldroðans glæður kulna
  • kostanna fækkar völ
  • þá aldurinn færist yfir
  • ennþá í glæðum lifir
  • þótt margt sé manna böl.
  • Sólin á lofti lækkar
  • en lýsir og vermir samt
  • samferðafólki fækkar
  • feigðará streymir jafnt
  • að dauðlegra deigum rótum
  • svo fallvalt verður á fótum
  • og fetin nái því skammt.
  • En minningar ljúfar lifa
  • og líkna í sorg og þraut
  • ungviði tipla og tifa
  • um tímans óræðu braut.
  • Hinn aldni að árum saknar
  • eilífðarþráin vaknar
  • ár streyma í alda skaut.
  • (PH)

Innilegar samúðarkveðjur frá nágrönnunum,

Páli og Jóhönnu og fjölskyldum þeirra.