Guðrún Albertsdóttir

Morgunblaðið - 13. ágúst 2007

Guðrún Albertsdóttir fæddist á Ísafirði 18. ágúst 1929. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 4. ágúst síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Þórdís Magnúsdóttir, f. 14. febrúar 1888, d. 30. september 1950, og Albert Einarsson útvegsbóndi á Búðum í Súðavík við Álftafjörð, f. 29. september 1888, d. 8 ágúst 1979.

 • Guðrún var ásamt tvíburasystur sinni
 • Margréti Albertsdóttur yngst sex systkina.
 • Lúðvík Júlíus Albertsson var elstur, þá kom
 • Ásgrímur Albertsson,
 • Sigríður Albertsson og
 • Einar Albertsson.


Guðrún var 11 ára þegar fjölskyldan fluttist til Hellissands. Á fermingarári Guðrúnar fluttist fjölskyldan til Siglufjarðar.

Guðrún Albertsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Guðrún Albertsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Maki Guðrúnar var Rögnvaldur Rögnvaldsson bifreiðarstjóri, f. 14 júlí 1921, d. 31. október 2002. Þau áttu saman fjögur börn, þau eru:

1) Anna Rögnvaldsdóttir, f. 16. júlí 1949. Börn hennar eru
 • Rögnvaldur Daði Ingþórsson, f. 20. maí 1968,
 • Hlynur Jóhann Hjaltason, f. 30. september 1982, d. 25. ágúst 1997,
 • Benedikt Örn Hjaltason, f. 23. ágúst 1984,
 • Albert Pétur Hjaltason, f. 16. júlí 1986, og
 • María Klara Hjaltadóttir, f. 28 júlí 1988.

2) Þórdís Rögnvaldsdóttir, f. 7. apríl 1951. Maki Páll Níels Þorsteinsson.
Börn þeirra eru
 • Burkni, f. 29. desember 1974 og
 • Frosti, f. 29. desember 1974
   
3) Gunnar Albert Rögnvaldsson, f. 30. október 1956. Maki Sigrún Þormar Guttormsóttir.
Börn þeirra eru
 • Valdís, f. 15 apríl 1982 og
 • Gunnar Freyr, f. 26. desember 1987. 
 • 4) Þorbjörg, f. 18. maí 1959, d. 11. apríl 2007. 

Eftir gagnfræðipróf vann Guðrún ýmis störf svo sem á Símstöð Siglufjarðar. Guðrún varð snemma virk í baráttu verkalýðs fyrir bættum kjörum og högum. Guðrún gegndi formannsstörfum í verkakvennafélaginu Brynju og verkamannafélaginu Vöku á Siglufirði.

1968 fluttist fjölskyldan til Kópavogs og hóf Guðrún þá störf sem gjaldkeri hjá Endurskoðunarskrifstofu N. Manscher & Co (nú PricewaterhouseCoopers hf.), sem hún gegndi til starfsloka. Guðrún var einnig virk í stjórnmálum og gegndi meðal annars um tíma formennsku í Alþýðubandalagsfélagi Kópavogs. Seinna gegndi hún einnig formennsku í Söngvinum, sem er kór aldraðra í Kópavogi.
Guðrún verður jarðsungin frá Digraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15
-------------------------------------------------------------------

 • Krjúptu að fótum friðarboðans
 • og fljúgðu á vængjum morgunroðans
 • meira að starfa guðs um geim.
  (Jónas Hallgrímsson.)

Þessar hendingar komu ósjálfrátt upp í huga minn þegar Dísa hringdi til mín og sagði mér lát Rúnu móður sinnar og vinkonu minnar, en hún andaðist á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð laugardaginn 4. ágúst sl. Við Rúna áttum hálfrar aldar vináttu að baki og má því nærri geta að margs er að minnast og margs að sakna á svo langri leið. Rúna vinkona mín var fædd og uppalin ásamt systkinum sínum í Súðavík við Álftafjörð vestur. Þær tvíburasystur, Margrét og Guðrún (Rúna), voru yngstar í systkinahópnum.

Að lokinni fermingu fluttust þær systur ásamt foreldrum sínum til Siglufjarðar og þar var ég svo lánsöm að kynnast Rúnu. Frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar tók hún gagnfræðapróf en upp úr því tók amstur daganna við. Rúna vann í nokkur ár á símstöðinni á Siglufirði en um þetta leyti kynntist hún Valda sínum, ættuðum úr Húnaþingi. Þau hófu búskap á Siglufirði þar sem þau bjuggu í mörg ár. Valdi maður Rúnu lést 31. október 2002.

Á Siglufirði var mikið félagslíf og tók Rúna þátt í því. Hún söng í Kvennakór verkalýðsfélagsins og fleiri kórum, einnig eftir að hún flutti suður. Rúna starfaði mikið að verkalýðsmálum og var í nokkur ár formaður Verkakvennafélagsins Vöku á Siglufirði. Hún var mjög listræn og menningarlega sinnuð enda bar heimili hennar og Valda vott um fegurð og glæsileika.

Í kringum 1970 fluttu Valdi og Rúna svo í Kópavoginn vegna atvinnuástands á Siglufirði. Áfram hélst vinátta okkar Rúnu og hittumst við oft. Það er svo ótal margt sem of langt er upp að telja en eitt er það sem nauðsynlegt er að minnast á þegar rifjaðar eru upp liðnar samverustundir og það er saumaklúbburinn. Þar lét Rúna sig aldrei vanta, enda var slík samkoma okkur öllum ómetanleg.

Þessi saumaklúbbur var stofnaður á Siglufirði kringum 1950 og hélst óslitið með sömu meðlimum að mestu leyti eftir að við fluttum „suður“. Að hittast í saumaklúbb var einstök upplifun sem aldrei gleymist og var Rúna dugleg að mæta allt fram á síðustu stundu. Rúna og Valdi eignuðust fjögur börn, Önnu, Þórdísi, Gunnar og Þorbjörgu, sem lést fyrr á þessu ári. Langar mig að setja hér lítið ljóð, Grátur, sem Rúna sendi mér eitt sinn og sýnir það hug þess sem lítur yfir farinn veg að dagsverki loknu.

 • Ég sit í þögn
 • er að lesa blöðin
 • þegar barnsgrátur
 • kveður sér hljóðs úti á götunni
 • mikill og sár.
 • Hann vekur ósjálfrátt upp
 • minningar frá löngu löngu
 • liðnum dögum
 • þegar eyru mín og hjarta þekktu hvern tón
 • í hljómkviðu grátsins í götunni.

Að endingu vil ég þakka minni kæru vinkonu fyrir allar okkar samverustundir. Þótt sár og mikill söknuður ríki nú í huga mér veit ég að minning um góða manneskju mun lifa. Fjölskylda mín sendir börnum og öðrum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Guðrúnar Albertsdóttur.

Hulda Steinsdóttir.
--------------------------------

Við andlát Guðrúnar Albertsdóttur vil ég fyrir hönd fyrrverandi samstarfsmanna hennar hjá Endurskoðunarskrifstofu N. Manscher & Co (nú Pricewaterhouse Coopers hf.), flytja ættingjum hennar samúðarkveðjur og færa á blað nokkur minningarorð. Guðrún réðst til starfa hjá félaginu á skrifstofu þess í Reykjavík árið 1971, en þá voru ekki mörg ár frá því hún fluttist til Reykjavíkur frá Siglufirði.

Á Siglufirði hafði hún starfað á skrifstofu Verkalýðsfélagsins Vöku í nokkur ár. Góð meðmæli fylgdu henni þaðan og síðar kom í ljós að hún stóð undir þeim öllum. Guðrún var gjaldkeri og bókari hjá endurskoðunarskrifstofunni um tuttugu og fimm ára skeið og átti samskipti við alla starfsmenn og viðskiptamenn félagsins á þessum árum í tengslum við launagreiðslur, innheimtumál og annað sem hún hafði umsjón með. Henni var létt að eiga samskipti við fólk og eignaðist því marga vini í hópi samstarfsmanna sinna og viðskiptavinir félagsins báru henni vel söguna.

Þegar illa stóð á hjá einhverjum sem hún var að innheimta hjá gerði hún munnlega samninga sem flestir virtu við hana og greiddu á umsömdum tíma. Guðrún var róleg að eðlisfari, samviskusöm og nákvæm og vildi helst skilja við skrifborðið sitt hreint að kvöldi vinnudags, því henni þótti gott að koma að því þannig að morgni. Á hennar starfstíma kom aukin tækni inn í starf skrifstofufólks og hún fylgdi breytingum vel, fór létt með að flytja sig úr handfærðu bókhaldi, yfir í kortabókhald og síðan tölvuvinnslu. Allan tímann vildi hún þó halda í að handfæra innborgunarbókina og fylgjast með henni daglega.

Í samræðum við Guðrúnu kom fram að hún hafði á Siglufirði tengst verkalýðsmálum og starfi verkalýðsfélagsins. Hún var vinstri sinnuð í skoðunum og lét það ekkert trufla sig þó vinnuveitendur hennar væru flestir annarrar skoðunar. Ef pólitík bar á góma á kaffistofunni fór ekkert á milli mála hverjum hún fylgdi og hverja hún kaus og því fékk enginn haggað. Hún gerði okkur samstarfsmönnum sínum alltaf ljóst að hún ætlaði að láta af störfum þegar hún næði lífeyrisaldri og sagðist ekki í vafa um að við gætum spjarað okkur án hennar, þó það yrði kannski erfitt fyrst með bókhaldið.

Hún ætlaði að snúa sér að ýmsum hugðarefnum, læra á gítar og fleira hafði hún á prjónunum. Þetta gekk eftir og vonandi hefur hún tekið nokkur góð lög á gítarinn og sungið með eins og hún gerði gjarnan á skemmtunum sem starfsmenn stóðu fyrir. Þó að samskipti við Guðrúnu væru ekki mikil á síðustu árum fengum við reglulega fréttir af henni og hennar fólki og ég efa ekki að hún hefur fylgst með okkur einnig, því hún bar hag félagsins alltaf fyrir brjósti. Fyrrum samstarfsmenn hjá N. Manscher & Co minnast Guðrúnar með þakklæti og virðingu.

Reynir Vignir.