Sigurbjörg Rósa Viggósdóttir

mbl.is - 11. febrúar 2006 | Minningargreinar

Rósa Viggósdóttir fæddist á Akureyri 17. ágúst 1925. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 19. janúar 2006.

Rósa, eins og hún var ávallt kölluð, var dóttir hjónanna Guðlaugar Steingrímsdóttur, f. 10. nóvember 1895, d. 13. desember 1968, og Eðvarðs Viggós Guðbrandssonar, f. 25. ágúst 1896, d. 7. desember 1955.

Ung að árum flutti Rósa til Siglufjarðar með foreldrum sínum og þar ólst hún upp í hópi fimm systkina og einnar fóstursystur.
Eldri en Rósa voru bræðurnir

 • Steingrímur Helgi Viggósson, d. 1997, og
 • Jóhann Guðbrandur Viggósson, sem drukknaði árið 1941.
  Eftirlifandi systkini Rósu eru þau
 • Marheiður Viggósdóttir, f. 1926, og
 • Heiðar Halldór Viggósson, f. 1931.
  Fóstursystir hennar,
 • Jóhanna Guðlaug, lést árið 2001.
Rósa Viggósdóttir - ókunnur ljósmyndari

Rósa Viggósdóttir - ókunnur ljósmyndari

Árið 1950 giftist Rósa Vilboga Magnússyni, sem ættaður var úr Árnessýslu, f. 22. apríl 1922, d. 21. ágúst 1994.

Heimili þeirra var alla tíð í Reykjavík. Fjögur börn þeirra eru öll búsett í Reykjavík. Þau eru:

 • 1) Eðvarð Viggó, f. 11. október 1950, kvæntur Sesselju Gísladóttur. Börn þeirra eru Gísli Páll, Sigurbjörg Rósa og Reynir Örn.
 • 2) María, f. 26. mars 1952, gift Einari Kr. Friðrikssyni og eiga þau Vilboga Magnús, Friðrik Sigurð og Kristínu Helgu.
 • 3) Jóhann Guðbrandur, f. 13. júní 1954, kvæntur Þórdísi Gunnarsdóttur. Dóttir þeirra er Erna Bjargey.
 • 4) Guðlaug, f. 8. október 1958. Sonur hennar er Hafliði Jónsson. Langömmubörn Rósu eru sjö.

Rósa starfaði ekki utan heimilis eftir að börnin fæddust, en á yngri árum á Siglufirði vann hún meðal annars við síldarsöltun og á Sjómannaheimili Siglufjarðar og rak það um tíma fyrir stúkuna á staðnum.

Rósa var jarðsungin frá Laugarneskirkju 27. janúar.
-----------------------------------------------------------------

Mig langar í fáum orðum að minnast elskulegrar ömmu minnar sem nú er látin. Amma er í mínum huga Siglfirðingur, enda var Siglufjörður henni ávallt ofarlega í huga. Þegar amma var lítið barn fluttist hún ásamt fjölskyldu sinni á Siglufjörð og þar bjó hún þar til hún hitti afa, Vilboga Magnússon. Þau kynntust einmitt á síldarárunum frægu fyrir norðan þangað sem afi kom sem ungur sjómaður. Amma og afi eignuðust fjögur börn, síðar átta barnabörn og þegar amma lést voru langömmubörnin orðin sjö.

Amma og afi bjuggu lengst af í Njörvasundi 10. Þaðan á ég flestar mínar minningar um þau og þangað var alltaf gott að koma. Amma var ekki bara góð húsmóðir, hún var listamaður á því sviði. Hún er fyrirmynd mín í húsmóðurstörfunum þó svo að ég eigi seint eftir að afkasta því sem hún gerði á því sviði. Hún þreif íbúðina hátt og lágt einu sinni í viku og um helgar var iðulega nóg af kræsingum á boðstólum fyrir þá fjölmörgu gesti sem áttu leið hjá.

Barnabörnum ömmu og afa fannst alltaf gott að fá að gista hjá þeim. Þegar ég fékk að gista þar minnist ég sérstaklega þess þegar afi fór út í sjoppu og keypti kók og prins handa okkur og amma skar súkkulaðið í fallega bita, setti á disk og lagði á borðið fyrir framan okkur. Svo fékk ég að sofa í hlýju rúmi og vakna við heitt kakó og smurt brauð á morgnana. Hjá mér var sérstaklega vinsælt að fá að sofa hjá ömmu og afa þegar jólin nálguðust því af einhverjum ástæðum gaf jólasveinninn mér miklu meira í skóinn þegar ég gisti í Njörvasundi en þegar ég var heima.

Amma var mikil saumakona. Það virtist allt leika í höndunum á henni. Hvort sem um var að ræða útsaum, fatasaum eða viðgerðir þá leysti hún verkefnið á fagmannlegan hátt. Þau voru mörg jólin sem ég var í fallegum kjólum sem amma hafði saumað á mig. Stundum voru þetta kjólar sem hún hafði gert úr gömlum kjólum. Sérstaklega man ég eftir einum fallegum kjól sem amma saumaði upp úr fermingarkjólnum hennar mömmu.

Það var gaman að fylgjast með ömmu og afa. Þau voru miklir vinir og félagar. Þau nutu þess að gera eitthvað saman og ég man hvað þeim fannst gaman að fá húsbílinn lánaðan hjá Viggó syni sínum og ferðast um landið. Einnig nutu þau þess að koma í sumarbústað foreldra minna þar sem afi gróðursetti ógrynni trjáa sem eru orðin stór og falleg í dag. Eftir að afi dó kom amma stundum með okkur í sumarbústaðinn og kíkti á plönturnar hans afa.

Mér er svo minnisstætt þegar Birnir Þór, sonur minn og Sæmundar unnusta míns, fæddist. Þá sagði amma við mig að ég væri ekki lengur Erna litla. Amma var mikil barnakona og það var alltaf gaman að koma í heimsókn með Birni Þór til hennar. Hún spjallaði við hann um allt milli himins og jarðar, jafnvel þó hann væri ekkert farinn að tala sjálfur.

Síðustu ár hefur amma átt heima á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík. Hún hefur átt góð ár þar og eru allir hennar ættingjar afar þakklátir þeirri umönnun og hlýju sem hún naut þar. Ég tel hana heppna að hafa fengið að eyða síðustu árum sínum á svona vel búnu heimili þar sem starfsfólkinu er virkilega annt um heimilisfólkið.

Þegar ég lít til baka vona ég að ég eigi á einhvern hátt eftir að líkjast ömmu. Hún var réttlát, samviskusöm, dugleg og hjartahlý kona. Þetta eru góðir kostir.

Erna Bjargey Jóhannsdóttir.