Þorgrímur Gunnar Bílddal

Samtímingur

Gunnar Bílddal, f. 4. ágúst 1902, d. 20. apríl 1980 ---  Þórustöðum Öngulstaðahreppi Eyjafirði.

Kaupmaður á Siglufirði, síðar verslunarmaður Reykjavík.  -

Frá grein Leós Óalsonar:

Aðalgata heimsins :>

.............Aðalgata 9 var (og er) á horninu sunnan Aðalgötu og ofan við Vetrarbrautina. Þar áttu margir viðdvöl og stoppuðu mislengi.

Gunnar Bílddal rak þar síðast verslunina Hebu og verslaði m.a. með reiðhjól. Hann var líka með reiðhjólaverkstæði, en húsið brann í apríl árið 1946.

Gunnar Bílddal

Gunnar Bílddal

Skömmu fyrir brunann á verslun Gunnars hafði Egill Melsted opnað sína reiðhjólabúð aðeins fáum metrum ofar í götunni, og fóru tvennar sögur af kærleikum þeirra kaupmanna hvað sem satt var í því.

Nokkra unga reiðhjólaeigendur sem höfðu alla jafna verslað við Gunnar, vantaði eitt sinn eitthvert smáræði og komu við hjá honum, en hann átti því miður ekki til í augnablikinu það sem þá vanhagaði um. Það varð því að fara yfir til Egils sem tók þeim fálega og sagði að hann ætti nóg til af öllu fyrir sína kúnna. Þeir skyldu bara fara á sama stað og þeir komu frá, og vera þar þangað til úr rættist. En eftir svolítið spjall og skjall munu þó samningar hafa náðst................
----------------------------------------------------------
Meira frá Leó:> 

Gunnlaugur Daníelsson blóðfaðir Gunnars var langafi minn og hann (Gunnar) hálfbróðir Sóleyjar ömmu minnar á Brekkunni á Sigló. Gunnar Bílddal átti líka talsverðan frændgarð á Siglufirði úr Svarfaðardalnum, en Eldjárn Magnússon, Björn Magnússon, Páll Magnússon, Emma Magnúsdóttir, Fjóla Magnúsdóttir o.fl. voru systkinabörn hans.

Gunnlaugur Daníelsson fæddist þ. 20. júlí 1868 á bænum Tjarnargarðshorni í Tjarnarsókn. Foreldrar hans voru hjónin Daníel Jónsson bóndi frá Mið-Koti á Ufsaströnd f. þ. 4. feb. 1834 og Guðrún Jónsdóttir f. þ. 9. jan. 1834 og var frá Koti í Svarfaðardal.

Daníel fórst með hákarlaskipinu Hreggviði vorið 1875 en þegar það gerðist bjuggu þau Daníel og Guðrún í Tjarnargarðshorni. Við fráfall Daníels horfði ekki vel fyrir Guðrúnu því börnin voru orðin 6 að tölu og það 7. fæddist nokkrum vikum eftir fráfall Daníels.

Elsta barn þeirra Júlíus var þá lítið yfir fermingu en með miklum dugnaði og aðstoð elstu barnanna tókst Guðrúnu að halda búi á jörðinni og koma þeim yngri á legg án aðstoðar sveitarsjóðs. Um Guðrúnu var það sagt að hún var gædd fádæma miklu þreki bæði andlega og líkamlega.

Hún var hjálpsöm og hjartagóð og var ætíð tilbúin að veita bágstöddum af litlum efnum sínum. Guðrún var virt og mikilsmetin af öllum í Svarfaðardal fyrir heiðarlega viðleitni í sjálfsbjargarátt.

27. dag janúarmánaðar árið 1892 gekk Gunnlaugur að eiga fyrri konu sína Önnu Sigfúsínu Zóphaníasdóttur fædda þ. 5. maí 1871 á Bakka í Svarfaðardal.

Foreldrar hennar voru Zóphanías Jónsson bóndi og skipstjóri og Soffía Björnsdóttir. Zóphanías faðir Önnu var formaður á hákarlaskipinu Hreggviði sem fórst með allri áhöfn og þar á meðal Daníel faðir Gunnlaugs.

Gunnlaugur og Anna bjuggu örfá ár á Bakka og þar fæddist þeim dóttirin Guðrún Danielína.

Tveimur árum síðan eða árið 1895 lést Anna svo úr taugaveiki og var það mikið áfall fyrir hinn unga bónda. Liðu nú allmörg ár og Gunnlaugur dvaldi á ýmsum stöðum og stundaði ýmist sjómennsku eða landbúnaðarstörf. Á þessum árum kynnist hann barnsmóður sinni Valgerði Sigurðardóttur frá Þórustöðum í Kaupangssveit. Eignuðust þau soninn Þorgrím Gunnar.

Valgerður giftist síðan manni frá Siglufirði sem Guðmundur hét en Gunnar ólst upp í þeim bæ hjá móður sinni og fósturföður og tók upp nafn hans sem var Bílddal. 

28. dag októbermánaðar 1907 fór fram þrefalt brúðkaup í Urðakirkju. Brúðhjónin voru Gunnlaugur Daníelsson, ekkjumaður á Klaufabrekkum og Steinunn Sigtryggsdóttir af sama bæ. Björn Árnason á Atlastöðum og Stefanía Stefánsdóttir frá Sandá.

Jóhannes Stefánsson á Sandá bróðir Stefaníu svo og Kristín Sigtryggsdóttir systir Steinunnar en þær síðast nefndu voru dætur hjónanna Sigtryggs Jónssonar bónda að Klaufabrekkum og konu hans Steinunnar Þorkelsdóttur. Brúðkaupsveislan var haldin á Atlastöðum, og stóð í þrjá daga að sögn. Þegar brúðkaupið átti sér stað var Gunnlaugur 39 ára en Steinunn 26 ára. Þau eignuðust sex börn og var Sóley amma mín þeirra elst.

Síðustu æviár sín dvaldi hann að mestu hjá Sóley dóttir sinni á Siglufirði. Hann andaðist að Hverfisgötu 11 Siglufirði þann 12. júlí 1952 og er jarðsettur að Tjörn í Svarfaðardal.
Leó Ólason
--------------------------------------

Smávegis viðbót tengt Gunnari Bílddal: http://fotografica.is/index.php/saga-hussins 

Gunnar Bílddal sextugur. Tveir vinir hans eru með honum á myndinni, báðir Siglfirðingar
. Valgerður dóttir hans sem býr í Kópavogi lét Leó fá þessa mynd en vantar nöfn. vina Gunnars. Ókunnur ljósmyndari.