Sveinn Filippusson

Morgunblaðið - 10. apríl 2010 | Minningargreinar

Sveinn Filippusson fæddist í Mjóafirði eystra 28. maí 1947.

Hann andaðist á heimili sínu aðfaranótt 2. apríl 2010.

Sveinn var sonur hjónanna Jóhönnu Margrétar Björgólfsdóttur, f. 8 júlí 1923, d. 4. febrúar 2009, og Filippusar Filippussonar, f. 22. desember 1897, d. 9. september 1966.

Börn þeirra voru:

  • Hulda, f. 8. febrúar 1942.
  • Ingirós, f. 22. september 1943.
  • Sveinn Filippusson
  • María Björg, f. 15. nóvember 1954.
  • Nanna Björk, f. 4. mars 1959, d. 28. júní 2002.
  • Jóhann Filippus, f. 12. mars 1961.

Sveinn kvæntist Steinunni Erlu Marinósdóttur 24. febrúar 1968, foreldrar hennar voru Guðrún Hákonardóttir, f. 23. febrúar 1911, d. 27. júlí 1984, og Einar Marinó Jóhannesson, f. 16. ágúst 1901, d. 18. september 1954.
Sveinn og Steinunn Erla eignuðust þrjár dætur, þær eru:

Sveinn Filippusson - 14 sept. 2009 -
Ef smellt er á mynd, færist hún stækkuð neðarlega á þessa síðu

Sveinn Filippusson - 14 sept. 2009 -
Ef smellt er á mynd, færist hún stækkuð neðarlega á þessa síðu

  • Stúlka, f. 23. ágúst 1967, d. 23. ágúst 1967.
  • Sigurrós, f. 17. júlí 1968, eiginmaður hennar er Sverrir Gíslason, f. 8. febrúar 1963, og eiga þau fimm börn sem eru:
  • a) Erla Heiða, f. 6. júlí 1988, sambýlismaður hennar er Kristinn Ingi Sigurðsson, f. 11, janúar 1984,
    þeirra börn eru
  • Björn Sigurður, f. 6. júní 2008 og Jóhanna Margrét, f. 13. september 2009,
    fyrir átti
  • Erla Heiða einn son,
  • Stefán Dam, f. 7. janúar 2006.
  • b) Sveinn Filippus, f. 2. janúar 1991, sambýliskona hans er Sandra Rós, f. 15. mars 1994.
  • c) Arndís, f. 3 okt 1993, sambýlismaður hennar er Þórhallur Dúi, f. 20. júlí 1989.
  • d) Hildur, f. 11. nóvember 1994.
  • e) Arna, f. 18 maí 2003;

  • 3- Kolbrún, f. 17. maí 1974 og á
    hún eitt barn,
  • Lilju Kristínu, f. 25. ágúst 1994.

Sveinn ólst upp fyrstu árin sín á bænum Mýri í Mjóafirði, þaðan flutti hann með foreldrum sínum og systkinum til Norðfjarðar 7 ára gamall og gekk þar í barnaskóla og gagnfræðaskóla. 14 ára byrjaði hann að róa á trillu með föður sínum og réð sig síðan á stærri fiskiskip sem sigldu með aflann.

19 ára flutti hann til Reykjavíkur með unnustu sinni og þar bjuggu þau sín fyrstu búskaparár og stundaði hann þar ýmis verkamannastörf. Árið 1976 fluttu þau með dætur sínar tvær til Siglufjarðar.
Fyrstu árin vann hann í mjölhúsinu ásamt því að róa til fiskjar þegar færi gafst, síðan starfaði hann á vélaverkstæði SR.
Síðar keypti hann þetta verkstæði ásamt fleirum og starfaði þar á meðan kraftar leyfðu.

Útför Sveins fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 10. apríl 2010, kl. 14.
----------------------------------

Elsku eiginmaður minn og besti vinur hefur nú kvatt þetta líf eftir hetjulega baráttu við ólæknandi krabbamein sem var svo illskeytt að engin von var um bata.

Hann ákvað fljótt að afþakka meðferð lækna sem átti að geta gefið honum u.þ.b. þrjá mánuði.
Hann ákvað að taka málin í sínar hendur og nota sínar aðferðir sem gáfu honum átta mánuði sem var kraftaverk.
Barátta hans var ótrúleg, æðruleysi hans var einstakt. Ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana en að lokum sátt við að baráttan væri töpuð. Það var gott að hann gat fylgt sinni ákvörðun að fá að kveðja sitt líf heima, sofna svefninum langa við hlið mér í rúminu okkar.

Ég þakka þér fyrir öll góðu 46 árin sem við áttum saman, það er óbærilega sárt að fá ekki að hafa þig lengur hjá mér en ég lofaði að gefast ekki upp og vera sterk.

Ég á svo margar góðar og fallegar minningar sem ég mun ylja mér við. Við höfum gert svo margt skemmtilegt saman, smíðað okkur trillu og róið til fiskjar, smíðuðum okkur skútu sem við sigldum á á sumrin, það var ógleymanlegt. Það var ótrúlegt hvað þú gast framkvæmt og smíðað hvað sem var hvort sem það var úr tré eða járni, allt lék í höndum þínum og þú varst sannkallaður þúsundþjalasmiður.

Eftir að ég varð sjúklingur komu enn nýir hæfileikar í ljós, þú hefur verið minn besti umönnunaraðli og gert þar ótrúleg kraftaverk. Þú varst mér lífið sjálft.

Elsku hetjan mín, hlakka til að hitta þig, góða ferð til nýrra heimkynna, nú veit ég að þér líður vel. loksins verkjalaus.

  • Þú varst minn vetrareldur.
  • Þú varst mín hvíta lilja,
  • bæn af mínum bænum
  • og brot af mínum vilja.
  • Við elskuðum hvort annað,
  • en urðum þó að skilja.
  • Ég geymi gjafir þínar
  • sem gamla helgidóma.
  • Af orðum þínum öllum
  • var ilmur víns og blóma.
  • Af öllum fundum okkar
  • slær ævintýraljóma.
  • Og þó mér auðnist aldrei
  • neinn óskastein að finna,
  • þá verða ástir okkar
  • og eldur brjósta þinna
  • ljós á vegum mínum
  • og lampi fóta minna.
    (Davíð Stefánsson.)

Hvíl í friði ástin mín, þín elskandi að eilífu

Steinunn Erla Marinósdóttir.
----------------------------------------------

Elsku pabbi minn, ég þakka þér fyrir allar okkar samverustundir sem við áttum saman.

Það eru nokkur atriði sem standa mér efst í huga eins og þegar þú bjargaðir lífi okkar þegar allt brann hjá okkur, og þegar þú kenndir mér að hjóla, og ég tala nú ekki um þegar við skruppum á sjóinn á trillunni Von, það voru góðar stundir. Það lék allt svo vel í höndum þér, sama hvað það var: rafmagn, að smíða, að sauma, hanna og margt fleira. Ef eitthvað var ekki í lagi og ég eða aðrir búnir að dæma hlutina ónýta þá þurftir þú bara að fá að handfjatla þá og þeir voru þá eins og nýir því það var fátt sem þú ekki gast lagað.

Þú varst alltaf svo ákveðinn, er þú tókst eitthvað í þig þá stóðstu við þá ákvörðun.

Pabbi minn var ekki orðmargur maður en hugsaði þeim mun meira. Hann var mikill dýravinur og mátti ekkert aumt sjá þar sem dýr voru annars vegar. Pabbi minn var sívinnandi og féll aldrei verk úr hendi, hann gaf sér aldrei tíma til að horfa á sjónvarpið því það þurfti mikið að smíða og hanna, en samt lét hann aldrei fréttir framhjá sér fara. Við vorum mikið saman þegar þú varst að gera upp trilluna í skúrnum Bein, það var svo gaman að fá að hjálpa þér, svo tókum við nokkrar kaffipásurnar og þá kenndir þú mér að spila á sög. Þegar við bjuggum í Reykjavík, þá var alltaf farið í ísbúðina á sunnudögum og keyptur ís, keyrt niður á bryggju og horft á bátana á meðan ísinn var borðaður.

Eftir að við fluttum á Siglufjörð þá var alltaf farið í sunnudagsbíltúr á sumrin, eitthvað inn í sveit að skoða sig um. Við skruppum líka stundum inn í sveit að veiða bara tvö saman og hlusta á sjávarniðinn. Alltaf áður en þú mættir í vinnu á morgnana keyrðir þú út í göng til að gá til veðurs, þú varst ævinlega mjög árrisull, það kom fyrir að ég þurfti að vakna fyrir allar aldir og fór inn í eldhúsið mitt og kíkti út um gluggann og ef það var gott veður þá sá ég þig hjóla með Dröfn (tíkina þína) áður en að vinnutíma kom og flestallir ennþá sofandi því dagurinn þinn byrjaði alltaf mjög snemma.

Ég samgleðst þér, elsku pabbi minn, að vera laus úr þessum þjáningum en jafnframt sakna ég þín alveg óbærilega mikið. Mér finnst vanta svo mikið að geta ekki séð þig eða heyrt í þér. Ég bíð alltaf eftir að þú hringir í mig á morgnana til að leyfa mér að heyra hvernig þér líður, elsku pabbi minn.

  • Friður guðs þig blessi.
  • Ég sendi þér kæra kveðju
  • nú komin er lífs þíns nótt,
  • þig umvefji blessun og bænir
  • ég bið að þú sofir rótt.
  • Þó svíði nú sorg mitt hjarta
  • þá sælt er að vita af því,
  • þú laus ert úr veikinda viðjum
  • þín veröld er björt á ný.
  • Ég þakka þau ár sem ég átti
  • þá auðnu að hafa þig hér,
  • og það er svo margs að minnast
  • svo margt sem um hug minn fer,
  • þó þú sért horfinn úr heimi
  • ég hitti þig ekki um hríð,
  • þín minning er ljós sem lifir
  • og lýsir um ókomna tíð.

    (Þórunn Sigurðardóttir)

Takk fyrir allt, elsku pabbi minn. Þín dóttir, Sigurrós.
-----------------------------------

Elsku besti pabbi minn er dáinn. Mánaðamótin júní-júlí 2009 var okkur sagt að þú ættir kannski um þrjá mánuði ólifaða. Nú, um níu mánuðum seinna, ertu farinn, tekinn frá okkur. Það er svo sárt að missa þig. En þú stóðst þig eins og hetja í veikindum þínum. Við áttum náið og sérstakt samband, og margar góðar minningar sem fara gegnum hugann þegar ég hugsa til þín.

Ég var búin að gera þig ódauðlegan og það var mér svo óhugsandi að þú gætir nokkurn tíma farið, að ég gæti ekki hringt og spjallað við þig. Við áttum auðvelt með að tala saman og mér fannst gott að leita til þín, þú varst alltaf hreinskilinn og það sem ég sagði þér fór ekkert. Svo trúr og traustur og sannur vinur, og ekki langt í húmorinn. Þín verður sárt saknað, það er mikill missir að missa eins flottan og góðan kall og þig. Eins og þú sagðir: „Ég er langflottastur.“

Þú varst orðinn svo þreyttur og kvalinn, þetta var ekkert líf lengur, ég veit að þú varst aldrei hræddur við dauðann. Þú þurftir alltaf að vera að gera eitthvað, brasa eitthvað, og allt gast þú gert. Þú varst klár og flottur kall. Frá því ég man áttum við alltaf mjög góða tíma bara tvö saman. Við vorum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt, s.s. smíða, ganga á fjöll, tefla, skjóta og margt margt fleira. Á meðan önnur börn vildu vera úti að leika sér vildi ég miklu frekar vera með þér að rífa í sundur eitthvert dót eða smíða. Þú varst mér alltaf miklu meira en bara pabbi og ég mun sakna þín.

Elska þig. Þín dóttir, Kolbrún.
--------------------------------------------

Kæri tengdapabbi.

Þá er komið að kveðjustund. Ég samgleðst þér að vera laus úr þessum hörmulegu veikindum sem tóku þig allt of fljótt frá okkur. Þú hefur sýnt ótrúlegan styrk og hetjuskap eins og þér var svo eiginlegt. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir þér.

Þú ert drengur góður og ótrúlega mörgum góðum kostum búinn. Þakka þér fyrir allt gott og ekki síst það dýrmætasta sem þú hefur gefið mér, mína góðu konu sem hefur gefið mér það dýrmætasta sem til er, börnin okkar fimm. Við söknum þín óumræðilega mikið.

Elsku tengdamamma, þinn missir er mestur, Guð gefi þér og okkur öllum styrk til að takast á við sorgina.

  • Hvað gera börn
  • tvö ein á völtum báti
  • á straumhörðu fljóti
  • þau halda hvort utan um annað
  • og berast með straumnum.

(Böðvar Guðmundsson)

Hvíl í friði, kæri vinur.

Þinn tengdasonur,  Sverrir Gíslason.
---------------------------------------------

Elsku afi. Það er svo sárt að hafa þig ekki lengur hjá mér, en það var miklu sárara að vita af því að þú værir alltaf kvalinn vegna veikinda þinna. Það sem huggar mig er að þér líður miklu betur núna og að þú finnur ekki lengur til. Ég mun alltaf muna eftir því þegar ég fór með þér í skútuna og þegar þú kallaðir mig alltaf hrekkjusvínið hans afa.

  • Gakktu á guðs vegum, elsku afi minn.
  • Kæri vinur ég sakna þín,
  • ég vildi að þú kæmist aftur til mín.
  • en þú ert umvafinn ljósi þar,
  • eins og þú varst reyndar alstaðar.
  • Sárt er að horfa á eftir þér,
  • en ég veit að þú munt muna eftir mér,
  • því þitt hreina hjarta og bjarta sál
  • mun þerra okkar tregatár.

(Sigríður Vigdís Þórðardóttir).

Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu og ég mun sakna þín mjög mikið, elsku afi minn. 
Þín Arndís Sverrisdóttir.
---------------------------------------------

Elsku afi minn.

Ég er mjög þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með þér áður en þú kvaddir okkur. Áður en þú veiktist varstu alltaf með annan fótinn úti á sjó þar sem þú sigldir á skútunni þinni. Ég man eftir einu skipti sem ég fór með þér út fjörðinn og allt í kringum skútuna voru höfrungar sem fylgdu okkur, ég man hvað mér fannst það rosalega gaman. Ég man samt mest eftir því þegar þú komst á grænu Löddunni þinni til að keyra mig og Svein í skólann og ég bað þig að stoppa bara hjá vinnunni þinni því ég vildi ekki láta krakkana sjá mig í þessum bíl.

Við sem eftir lifum erum ekki fátækari, heldur erum við mjög rík að hafa átt þig að. Þín verður sárt saknað þar sem þú munt sigla með englunum.

  • Hvíldu í friði, elsku afi minn.
  • Hið bjarta ljós sem berst til mín
  • með blessun sendi heim til þín
  • og með því kveðju kæra.
  • Megi það líkna og lækna þá
  • sem lífið kærleiksríka þrá.
  • Gleði og frið þeim færa.

(Guðm. Ingi)

Takk fyrir allt, elsku afi minn.

Þín Erla Heiða Sverrisdóttir.
-------------------------------------------

Elsku afi minn.

Það er búið að vera mjög erfitt að horfa á þig þjást í veikindum þínum. Ég man þegar þú og amma voruð að mála skútuna ykkar á vorin áður en hún var sett á flot. Ég kom stundum að horfa á ykkur mála hana. Þú hefur alltaf verið mjög duglegur maður og mjög klár, þú hefur gert svo margt fallegt um ævina og gerðir alltaf mjög vel.

Mér hefur alltaf fundist þú vera góður afi og ég sakna þín mikið. Ég vona að þér líði betur þar sem þú ert núna og þú hvílist í friði.

„Hvað er að deyja?

Ég stend á strönd og horfi á skip sigla í morgunblænum út á hafið. Það er falleg smíði og ég stend þar og horfi á það uns það hverfur sjónum mínum út við sjóndeildarhring. Það er farið! Farið! Hvert? Farið úr minni augsýn. Það er allt og sumt. Það er þó enn jafnstórt í möstrum, bol og siglutrjám og þegar ég sá það og getur flutt jafnmikinn farm og mannfjölda á ákvörðunarstað. Minnkandi stærð og hvarf þess úr minni augsýn er í huga mér en ekki í því.

Og einmitt þegar einhver nálægur segir „það er farið!“ þá eru aðrir, sem horfa á það koma og aðrar raddir heyrast kalla; „þarna kemur það!“

Og þannig er að deyja.“

(Brent biskup)

Takk fyrir allt, elsku afi minn. Þín Hildur Sverrisdóttir.
---------------------------------------------

Elsku afi minn, ég sakna þín svo svakalega mikið, ég veit ekki hvernig næstu ár verða án þín. Þó þú sért horfinn sjónum mun sál þín fylgja okkur og vernda. Þú varst svo góður maður. Vonandi áttu eftir að láta vita af þér. Þú barðist hetjulega allan tímann. Ég vildi hafa átt meiri tíma með þér í veikindunum. Síðan þú fórst hafa minningarnar hrannast upp og hlýjað mér um hjartarætur.

Fyrst kemur í hugann þegar þú fórst með mér á sjó og kenndir mér á sjóinn og leyfðir mér að prufa að stýra flottu skútunni sem þú smíðaðir og ekki nóg með það, ég fékk að stýra listaverkinu þínu. Þú varst ótrúlega seigur í höndunum, allt sem þú gerðir var listaverk. Ég man líka eftir því þegar þú komst með gúmmíbátinn til mín og gafst mér hann. Síðan fór ég á tjörnina til að reyna að vera eins og þú á sjónum.

Þegar ég var búinn að standa mig vel á gúmmíbátnum ákvaðstu að láta mig fá einn árabátinn sem þú smíðaðir og ég mun aldrei gleyma því, þann bát lofa ég þér að passa vel. Ég fór oft að heimsækja þig í vinnuna til að skoða hvað þú værir að gera og bara að fá að hitta þig því það var svo gaman. Þú kenndir mér margt í lífinu. Ég man vel eftir því þegar við fórum saman til Reykjavíkur til að sækja bátinn sem þú áttir núna þegar þú veiktist. Það var svo yndisleg ferð. Ég fékk að keyra í æfingaakstrinum alla leið til Reykjavíkur en þar ákvaðst þú að taka við og síðan keyrðum við út á Seltjarnarnes og leituðum að staðnum sem báturinn var á.

Síðan komum við þangað og setjumst niður með fólkinu og fáum okkur kaffi. Síðan skrifuðum við undir alla pappíra og ég fékk að vera vottur en síðan lögðum við af stað til baka. Þegar við erum rétt að koma að Grandanum datt báturinn af króknum og lamdist undir bílinn, en það fór allt vel, sem betur fór, en við hlógum bara að þessu og þú náðir að laga bátakerruna bara þarna á staðnum.

Svo kræktum við henni í og keyrðum af stað. Þegar við vorum komnir út úr borginni sagðirðu við mig að núna ætti ég að keyra, svo ég keyrði líka til baka og með bátinn á eftir mér í þokkabót. Þú sýndir mér svo mikið traust og síðan þegar við vorum að nálgast Siglufjörðinn þá sofnaðir þú, afi, og ég sá þá bara hversu mikið traust þú barst til mín, enda vorum við bara á 60 kílómetra hraða alla leið til Siglufjarðar.

Þegar við vorum komnir þangað vorum við orðnir svolítið þreyttir enda búnir að vera á ferðinni allan daginn og nóttina líka. Þetta voru allt saman svo skemmtilegar stundir með þér, en það var svo miklu meira en það sem komið er, þetta er bara sandkorn í heilum sandkassa af minningum um þig. En elsku afi minn, mér þykir alveg ótrúlega vænt um þig og ég vona að þér líði mun betur núna því þessi veikindi voru hræðileg.

En ég vildi óska að ég gæti haft þig hérna áfram því þú varst svo magnaður og góður karl, þú átt allt gott skilið, ég mun alltaf hugsa um þig, afi minn, og þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert.

Góða ferð, afi minn.

Þín verður svo sárt saknað, sál þín mun alltaf lifa í hjarta mínu með öllum minningunum.

Þinn afastrákur, Sveinn Filippus Sverrisson.
--------------------------------------------

Elsku afi minn.

Ég veit að þér líður betur núna því þú ert núna engill hjá guði. Við áttum margar góðar stundir saman, þegar það var frí í skólanum vildi ég koma og passa þig og ömmu á meðan mamma var að vinna því þú varst svo mikið veikur og amma líka.

  • Hvíl í friði, elsku afi minn.
  • Vertu yfir og allt um kring
  • með eilífri blessun þinni,
  • sitji Guðs englar saman í hring
  • sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson.)

Takk fyrir allt, elsku afi minn.

Þín Arna Sverrisdóttir.
---------------------------------------

Elsku besti afi minn. Ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið. Þú varst mér svo margt, m.a. fyrirmynd og trúnaðarmaður, en fyrst og fremst mjög góður vinur. Ég veit ekki hvað ég á eftir að gera án þín, en vonandi á ég eftir að spjara mig af því ég veit að það er það sem þú myndir vilja að ég gerði. Þú hefur alltaf verið mjög stoltur af mér, árangri mínum í skóla og velgengi minni í lífinu.

Sem betur fer fékk ég smá tíma til þess að búa mig undir það að þú værir að fara og fengum við nokkrar góðar stundir saman svona undir lokin. Við áttum fullt af skemmtilegum tímum saman og þú varst alltaf til staðar fyrir mig þegar á reyndi. Það var hægt að treysta þér fyrir öllu, sama hvað það var og sama hver reyndi að ná því uppúr þér þú varst ávallt eins og steinn þegar kom að trúnaðarmálum og þótti mér það mjög gott.

Auðvitað hefði ég viljað hafa þig lengur og fá að eyða meiri tíma með þér, en ég er samt frekar fegin að þú hafir fengið að fara af því ég held að það hafi verið það sem þú hafir viljað og það sem var fyrir bestu. Ég elska þig ákaflega mikið og ég mun aldrei gleyma þér. Þú munt alltaf eiga stórt pláss í hjarta mínu.

Takk kærlega fyrir allt, elsku besti afi minn, megi Guð geyma þig.

Þín afastelpa, Lilja.
------------------------------------------

Elsku bróðir minn, þá er þinni lífsgöngu lokið á þessu tilverustigi. Það er gott að þínu kvalafulla veikindastríði er lokið. Ég samgleðst þér að vera laus úr þessum veikindafjötrum en hefði svo sannarlega óskað að þú hefðir fengið að eiga lengra líf með henni Erlu þinni, þið hafið alltaf verið svo ótrúlega samrýnd, hennar missir er mestur.

Það hefur verið ótrúlega lærdómsríkt og þroskandi að fylgjast með þér og fjölskyldu þinni í þínum veikindum. Allt það æðruleysi og dugnaður sem þið hafið sýnt. Þú hefur notað hverja stund sem gafst til að ganga frá öllum málum og hjálpað til við allt það sem þú gast hjálpað öðrum og undirbúið konuna þína eins vel og hægt var til að auðvelda henni komandi aðstæður. Ég veit að það sem þér fannst erfiðast var að skilja hana eftir svo hjálparþurfi sem hún er vegna sinna veikinda. En dugnaður hennar og þrautseigja er einstök og það er aðdáunarvert hvað þú hefur sinnt henni vel í hennar veikindum.

Þér hefur alltaf verið svo margt til lista lagt, en ég hafði ekki gert mér grein fyrir hvað hjúkrunarstörf lágu vel fyrir þér. Ég held reyndar að það hafi bara ekki verið neitt sem þú gast ekki leyst vel af hendi. Kæri bróðir, mér þótti svo vænt um þig þó við værum ekki í svo miklu sambandi eftir að þú fluttir til Siglufjarðar. En samband okkar hefur alltaf verið mjög gott. Við vorum í miklu sambandi síðustu mánuði og vorum sammála um að það væri synd að við hefðum ekki nýtt betur tímann á meðan færi gafst, við skildum hvort annað mjög vel, erum mjög andlega skyld.

Elsku bróðir, ég óska þér góðrar heimkomu til nýrra heimkynna, þar veit ég að verða fagnaðarfundir. Ég hlakka til að fá fréttir, þú ætlaðir að vera í sambandi við mig.

Elsku Erla mín, Rósa, Kolla, börnin ykkar og aðrir aðstandendur, guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina.

  • Hér bíður þú vinur, þín bið var löng,
  • en bráðum er tjaldið fallið.
  • Þú þráðir að lokum aðeins eitt,
  • að endaði síðasti þáttur.
  • Og þá varstu orðinn, er allt um þraut,
  • við örlagadóminn sáttur.
  • Því annað hvort tekur við eilífur svefn,
  • ellegar fegurri heimur.
  • Og þeim verður dauðinn að lokum líkn
  • sem lengi er búinn að þreyja.
  • - En lífið er þyngst á þeirri stund
  • þegar við byrjum að deyja“

(Heiðrekur Guðmundsson)

Hvíl í friði, elsku bróðir, hafðu þökk fyrir allt.

Þín systir, María Björg Filippusdóttir
-------------------------------------

Kæri bróðir.

Nú ert þú laus úr erfiðum veikindum sem þú tókst á við með miklu æðruleysi. Þú trúðir á annað líf, það geri ég reyndar líka. Þú varst mjög handlaginn og gast gert við ótrúlegustu hluti sem biluðu. Ég sendi kveðju til allra ættmenna sem farnir eru af þessari jörðu. Vertu sæll og blessaður.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Kahlil Gibran)

Þín systir, Hulda Filippusdóttir.
-------------------------------------

Ég heimsótti Svein og Erlu laugardaginn 27. mars sl. og við spjölluðum um heima og geima. Hann sýndi mér bátinn sinn sem var tilbúinn til sjósetningar og fræddi mig um það helsta sem hann hefði verið að fást við síðustu vikur. 2. apríl var hann látinn.

Sveinn var dverghagur og smíðaði m.a. báta, smáa sem stóra, og er skemmst frá því að segja að þar var ekki kastað til höndum frekar en í öðru sem þessi völundur tók sér fyrir hendur. Sveinn var einn þeirra fágætu manna sem ekki miklast af eigin ágæti heldur láta verkin tala. Smíðisgripir þessa hagleiksmanns tala máli þrautseigju og trúar á mátt skapandi hugsunar sem voru ríkir eiginleikar í fari hans.

Við áttum mörg sameiginleg áhugamál og ber þar helst að nefna skotveiðar, svifdrekaflug, báta og fiskveiðar, auk margs annars. Og stundirnar er við biðum eftir morgunflugi gæsa, einhvers staðar á kafi í skurði, eða þutum með svifdrekann aftan í vélsleðanum eru fjársjóðir sem ekki gleymast. Fyrir þessar stundir þakka ég.

Minningarnar lifa og einn daginn hittumst við aftur í öðru lífi og þegar hinar himnesku gæsir taka til flugs höldum við Sveinn kannski til veiða á ný.

Elsku Erla, Kolla, Rósa og aðrir aðstandendur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og bið Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Magnús H. Traustason.