Tengt Siglufirði
Jónas Björnsson, Siglufirði - f. 3. apríl 1949 d. 9. apríl 2022, aðeins 73ja ára
Jónas vinur minn, vinur allra sem hann þekktu, ávallt brosandi, allt fram
á síðustu stund, þrátt fyrir að hann bjó við líkamlega þjáningu síðustu árin.
Aldrei kvartaði hann, og nánast daglega fór hann í bæjarferð,
jafnvel í hríðarveðri og kulda, svo framlega að skutlan, trillitæki hans væri fært að flytja hann, og það kom fyrir að hann festi það í snjó, en lét það
ekki á sig fá, hann bara brosti og eða jafnvel hló af, þegar hjálpin barst.
Síðasta bæjarferð hanns var nokkrum dögum fyrir andlátið.
Ég kynntist Jónasi
er hann var messi á síldar og olíuflutningaskipinu Haferninum 1966 -1970, þá var hann í byrjun 14-15 ára gutti. Og nú síðustu árin vegna samveru okkar á Dvalarheimilinu Skálarhlíð,
þar sem hann dvaldi.
Þar naut hann alls sem hann þurfti frá hlýlegu og hjálpsöm starfsfólki ef á þurfti að halda, hann gat þó oftar en ekki séð um sig sjálfur
og ætið bjargað sér, þó svo síðasta árið, þá stundum hafi hann þurft aðeins aðstoðar við.
Ekki get ég sagt að hann hafi oft orðið mér samferða er við vorum í siglingum erlendis á Haferninum, oft marga mánuði án þess að koma heim til íslands, ma. tvisvar um jól og áramót og einu sinn heila 5 mánuði án þess að koma heim til Íslands.
En ávallt var hann með þegar hópur skipverja fór saman í land, sem var nokkuð oft.
En með mér og Sigurði Jóns frá Eyri, tvisvar
eða þrisvar.
Svo átti hann til að fara einsamall í land, þá stundum prúðbúinn ásamt regnhlífinni sinni góðu sem hann tók oftast með sér, svona til
vara eins og hann sagði og brosti breitt og sveiflað gripnum.
Sem messi stóð hann sig sem hetja undir stjórn þeirra Sverris Torfa bryta, og Jóns Rögnvaldssonar matsveins.
Einn leyndardóm
átti Jónas sem fáir aðrir en skipsfélagar hans vissu um, raunar einnig það sama um vin minn Sigurð Jónsson háseta/bátsmann
En einu sinni tóku þeir upp á því
(man ekki hvor þeirra byrjaði) að senda hvor öðrum skilaboð í vísu formi, skrifuðum á WC pappír og viðkomandi miða hengdu þeir á salernisvegginn á miðþilfari,
þar sem þeir héngu í rúma viku eða svo, en daglega bættist við 2 miðar og fyrir vikið var þetta salerni einn af fjölsóttustu stöðum um borð, þó oftast aðeins
til að lesa, og allir höfðu gaman að hinum hnitmiðuðu, grín og ádeilu setningum sem þar komu á blað.
Þegar þeir hættu þessu háttarlagi sem ávallt var
á vinsamlegum nótum, enda allir um borð góðir vinir. Þá fékk ég leyfi þeirra til að varðveita "skáldskapinn" og kom fyrir í umslagi.
Ekki held ég þó
að hinir svokölluðu bókmenntafræðingar hefðu talið þetta vera alvöru rýmd ljóðaform eða verðmæti, en í minningunni í mínum huga þá voru þetta
verðmæti, sem gott væri að koma á framfæri síðar.
En því miður, þá mun umslaginu hafa verið hent fyrir mistök, er ég og kona mín höfðu tekið
þá ákvörðun að koma okkur fyrir í Skálarhlíð, og við hreinsun í húsi okkar með aðstoð barna okkar, og má geta sér til um að þá hafi
ljóðin glatast.
Að lokum, eins og fyrr segir, var Jónas ávalt brosandi og gerði að gamni sínu, sem og gladdi aðra. Góður drengur.
Ég læt þessi fáu
orð mín duga um vin minn, og færi eftirlifandi systkinum hans innilegar samúðarkveðjur.
Steingrímur Kristinsson.
------------------------------------------------------
ES. Ofnrituð
minnigargrein um Jónas var beðið um að birt yrði í Morgunblaðinu á útfardag, en mér sagt að þá þyrfti, ýtarlegri upplýsingar um hinn látna en þær
sem ég hafði skrifað.
Það er þessar hér neðar með rauðu letri, en þær hafði ég ekki við höndina, en ef annar kæmi með þær upplýsingar
í aðsendri grein sem á vantaði í mína, þá myndi grein mín einnig bitrast. Svo varð ekki, en verður geymd hér. (sk)
"...... upplýsingar um hvar og hvenær
hinn látni fæddist og lést, upplýsingar um foreldra, systkini, maka og börn, menntun og störf og að lokum og hvaðan......."
------------------------------------------------
Jónas
Björnsson
(f. 3. apríl 1949, d. 9. apríl 2022)
Útför gerð frá Siglufjarðarkirkju 23. apríl 2022.
Lokaorðin um Jónas, flutt við jarðaför hans af séra Sigurði Ægirssyni sóknarpresti við Siglufjarðarkirkju.
I
Kæru aðstandendur og vinir.
Það er alltaf einhver saknaðar- og tómleikatilfinning sem grípur mann þegar maður heyrir af andláti samferðamanns á lífsleiðinni, jafnvel þótt maður hafi kannski ekki þekkt viðkomandi neitt sérstaklega mikið. Slíkt tekur á. Og það var eins núna, þegar fréttist að hann Jónas væri dáinn. Þetta var eitthvað svo óvænt. Þar fór einstaklingur sem var afar áberandi í bæjarmyndinni, ekki síst hin síðari árin, þar sem hann var oftar en ekki á tryllitækinu sínu, á leið í bæinn eða heim í Skálarhlíð, nánast daglega.
En allt hefur víst sinn tíma, eins og segir í einni af bókum Gamla testamentisins.
„Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri að hvert eitt ykkar tár snertir mig og kvelur. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur, og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.“
Þetta segir Kahlil Gibran, skáldið og heimspekinginn frá Líbanon, sem síðar fluttist til Vesturheims og er nú talinn með þjóðskáldum Bandaríkjanna. Þetta er sá sami og ritaði bókina Spámaðurinn, sem mun vera mest selda ljóðabók allra tíma. Þetta, sem hann segir, er yfirlýsing um það, að það sé engin ástæða til að kvíða, endalokin hérna megin séu eðlileg í alla staði, því um leið séu þau upphaf að framhaldi inn á nýjar víddir, brautir eilífðarinnar.
Hann vissi sínu viti. Og segir líka annars staðar: „Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn. Því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af sléttunni.“
Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim sem er horfinn á braut, fyrir honum er vel séð. Minnumst í því sambandi orða Jesú Krists, þegar hann segir við mann á dauðastund: „Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ Og í þeirri trú og fullvissu komum við saman í þessu musteri okkar, alltaf þegar látinn einstaklingur er kvaddur um sinn og vottuð dýpsta virðing. Eins og í dag.
II
Jónas fæddist hér á Siglufirði 3. apríl árið 1949. Foreldrar hans voru Björn Hafliðason, þá verkamaður, en síðar lögregluþjónn, einnig fæddur hér á Siglufirði árið 1920, dáinn 1991, og kona hans Jónína Jónasdóttir, fædd á Hofsósi árið 1923, en hún lést árið 2003. Jónas var þriðji í röðinni af sex börnum þeirra. Hin eru Birna, fædd árið 1943, Sævar, fæddur árið 1945, Guðjón, fæddur árið 1951, Hanna Björg, fædd árið 1953 og Haraldur, fæddur árið 1957.
Jónas var færður til skírnar á annan í jólum fæðingarár sitt og voru guðfeðgin hans eða skírnarvottar Hafliði Jónsson, verkamaður, Ásgeir Gunnarsson, verkamaður og svo móðirin, eins og algengt var í þá daga.
Og við þessar grátur kraup hann svo á fermingardegi sínum, 19. maí árið 1963. Með honum fermdust þann dag 14 piltar og 20 stúlkur. Árgangurinn var þó mun stærri, því önnur
fermingarathöfn var viku síðar, 23. maí, og þar fermdust 14 piltar og 12 stúlkur. Í heildina voru þau því 60 talsins.
Og hér ólst Jónas svo upp og bjó alla sína tíð, við leik og störf.
Og þau voru af ýmsum toga, eins og gengur. Hann var m.a. hjá Síldarverksmiðjum, sem messagutti á Haferninum, við fiskvinnslu, við næturvörslu á Hótel Læk og á Allanum.
Hann var ungur þegar hann fór í göngur eitt sinn og slasaðist alvarlega þar sem hann datt í fjallinu og hálsbrotnaði og má segja að hann hafi átt við eftirstöðvar þess að glíma alla ævi.
En það var alltaf stutt í brosið, glaðværðina og hláturinn, þótt hann væri engan veginn skaplaus. Og auðvelt átti hann með að gleðja aðra.
Stundum lenti hann í ævintýrum sem hægt er að hlæja að núna, en hafa kannski ekki verið jafn skopleg þegar atburðirnir gerðust,
sérstaklega ekki fyrir hann, sem stóð í miðju atburðanna. Og ekki er víst að allir hefðu viljað vera í þeim sporum. Sumarið 1985 ákváðu þeir bræður t.d.
ásamt konum sínum að fara til Hollands og ekki var annað tekið í mál en að bjóða Jónasi með. Allt gekk eins og í sögu þar til á heimleiðinni, en þá
fór allt að pípa í hliðinu á flugvellinum á Schiphol. Hin voru öll komin upp í vél þegar þau uppgötvuðu að Jónas vantaði. Það var farið að leita
og karl fannst við hliðið, með fætur í sundur og hendur út til hliða og skildi ekkert í þessum hollensku vörðum sem voru að reyna að leita á honum.
Ástæðan
fyrir þessu öllu var sú, að hann gleymdi því að hann hafði keypt sér Zippo-kveikjara sem hann ar með í vasanum, en sá gripur var í raun ekki kveikjari, heldur brellitæki, sem
gaf þeim raflost sem reyndi að kveikja á honum. Upphófst mikið þref þarna hvort hann ætti að fá að hafa þennan merkisgrip með sér heim, því þegar innvolsið
var tekið upp komu í ljós rafhlöður og víravirki sem jók enn á þetta dularfulla mál. Og spurning hvernig tekið hefði verið á þessu núna, eflaust mun harðar.
En lúmskt gaman hafði Jónas hins vegar af því þegar þeir bræður, Gaui, Halli og Jónas, einhverju sinni fóru saman á gæsaskytterí. Þeir létu Jónas hafa tvíhleypu og hlóðu svo haglabyssuna er þar að kom. Og þeir segja við hann: „Þegar við erum tilbúnir, þá segjum við 1, 2 og 3 — skjóta. En passaðu þig á að taka ekki fast i gikkinn, því þá geta skotin farið úr báðum hlaupum í einu.“ Svo er nokkur bið, en loks kemur gæsin fljúgandi yfir þá og allt er tilbúið og það er fýrað upp í loftið, eins og um hafði verið rætt. Eða nokkurn veginn. Því litlu á eftir heyrðist í Jónasi nokkru fyrir aftan þá: „Strákar, strákar hitti ég eitthvað?“ Þegar þeir líta við sjá þeir bróður sinn liggjandi á bakinu í skurðinum og spyrja hann hvað hafi eiginlega gerst, hvort hann hafi virkilega skotið úr báðum hlaupunum í einu? Og hann svarar, sposkur á svipinn: „Ja, það hlýtur eiginlega að vera.“
Eins og áður sagði bvar Jónas m.a. á síldar-
og olíuflutningaskipinu Haferninum. Þetta var frá seinni parti árs 1966 og fram til 1970. Steingrímur Kristinsson er heimildarmaður minn að þessu og því sem á eftir kemur, en þeir voru
samskipa allan þennan tíma. Um borð voru nokkrir sem ekki áttu heima á Siglufirði og einhver á að hafa spurt hvort messinn væri af kínverskum ættum, hann væri svo asískur í
útliti.
Svarið var auðvitað nei, hann væri Siglfirðingur, fæddur þar og uppalinn. Þá á sá sem hafði spurt að hafa sagt, að svipur messans væri svo líkur
kvikmyndaleikara sem hefði borið nafnið Lee Wong í einhverri bíómyndinni. Og þeir sem heyrðu fóru að kalla Jónas þetta í framhaldinu, ekki þó í illum tilgangi, alls
ekki, því um borð var skipshöfnin sem ein fjölskylda. En nafnið festist við hann og var oft notað þegar talað var um hann og einnig þegar hann heyrði til, en aldrei man Steingrímur eftir því
að hann hafi verið nefndur því nafni þegar hann var ávarpaður. Jónas aftur á móti var ekkert annað en brosið við þessu nýja gælunafni og hafði bara gaman af.
Og þegar Steingrímur og Sigurður Jónsson frá Eyri sögðu honum um ári síðar frá veitingastað í Grimsby á Englandi, þar sem skipið var í slipp, og að
þeir hefðu fengið þar flottan sjávarrétt og að veitingastaðurinn héti Lee Wong Restaurant og væri í útjaðri Grimsby, það er að segja í gamla bænum, þá
brosti hann út að eyrum og sagðist þurfa að heimsækja staðinn.
Og Steingrímur bætir við, að sem messi um borð í Haferninum hafi Jónas staðið sig eins og hetja undir
stjórn þeirra Sverris Torfasonar, bryta. og Jóns Rögnvaldssonar, matsveins.
Önnur saga, sem Örlygi Kristfinnssyni var sögð, og sem gerðist þegar Páll Jónsson, Palli á Höfninni, var í kokkhúsinu á Haferninum, er á þá leið, að þá hafi drengurinn Jónas verið í þjónustuhlutverki í messanum og verið lipur við yfirmann sinn og skipsfélaga og hafi andlitsfallið, dökkt og stuttklippt hárið, afar grannur líkami hans og sérkennilegar hreyfingar, fallið að ímynd þeirra um kínverska þjóninn stimamjúka eins og menn höfðu kynnst í fjölmörgum bíómyndum og sögum. Og þarna fékk hann nýtt nafn: Lee Wong — Jónas Lee Wong.
Þetta er í raun og veru samhljóða því sem áður hefur komið fram.
En Jónas hafði þann háttinn á, þegar komið var í erlenda höfn, að hann klæddi sig upp á og fór í sínu fínasta dressi í sinn borgartúr, oft einn, meðan aðrir um borð fóru gjarna í hópum á verslunar- og pöbbarölt. Þá var hann í hvítum fötum og í frakka og með hatt — og regnhlíf, svona til vara, eins og hann sagði og brosti breitt, um leið og hann sveiflaði gripnum, sem hann hafði keypt einhverju sinni í London eða Rotterdam. En þess má geta að Jónas talaði ekki annað tungumál en íslensku, þá frekar en síðar. En — eins og Steingrímur orðar það — „hann var furðu góður að bjarga sér með fingrapati, þau skipti sem ég var með honum ásamt öðrum í verslunum erlendis.“
En þá áfram með frásögn Örlygs:
Í lok einnar slíkrar ferðar í suðlægri borg gekk Jónas virðulegur upp landganginn með tvo prúðbúna lassaróna í eftirdragi. Á látbragði, hreyfingum og þeim fáu orðum sem fóru á milli herranna þriggja sá Páll kokkur að Lee Wong var kominn með þá tvo til að sýna þeim skip sitt! Mæ sjipp! En hinir gestkomandi gátu ekki leynt efasemdum sínum.
Kokkurinn var fljótur að átta sig og setja sig í rétt hlutverk gagnvart skipseigandanum, ávarpaði hann „Mister Björnsson“, fullur virðingar, hneigði sig djúpt og spurði hvort hann mætti bera á borð fyrir þá einhverjar veitingar meðan þeir gengju um skipið. Herra Björnsson þáði það á viðeigandi hátt og að lokinni svolítilli veislu þeirra, þar sem Páll kokkur þjónaði messadrengnum og gestum hans innvirðulega, var greinilegt að þeir voru orðnir fullvissir um stöðu Lee Wongs um borð í hans glæsilega skipi. Kvöddust þeir svo með virktum, en meira var ekki um þetta rætt í matsalnum — að sinni.
Já, hann var flottur, hann Jónas.
Seinustu árin voru honum erfið, enda átti hann orðið erfitt um gang. Þá var sótt um að fá skutlu fyrir hann, eða ellinöðru, eins og einhver fór að kalla gripinn, en nei, svona græju vildi hann ekki. En svo fékkst hann til að prófa og þá var sigurinn í höfn, því nú fann hann hvað þetta var mikið þarfaþing. Hvað þá þegar honum var tjáð, að hægt væri að gera hjólið aðeins kraftmeira með smá lagfæringum.
Oft átti maður líka eftir að mæta honum á skutlunni eða laumast framhjá, og skipti það hann þá engu hvers konar veður var. Áfram götuna og veginn fór hann, jafnvel í versta hríðarbyl
og kulda, og fyrir kom að hann festi þetta farartæki sitt í snjó, en hann lét það ekki á sig fá, heldur bara brosti eða jafnvel hló af, þegar hjálpin barst.
Síðasta bæjarferðin hans var nokkrum dögum fyrir andlátið.
Á sumrin hafði hann unun af að fara suður í fjárhúsin til Halla, að hitta heimalningana og gefa þeim rollum brauð sem þar voru. Þetta veitti honum mikla gleði og ánægju.
Síðustu dagar einkenndust af stríðni í garð hjúkkanna á gjörgæslunni á Akureyri og alltaf var svarið til þeirra, ef þær spurðu hvernig honum liði: „Það er allt í góðu með mig.“
Hann kvartaði aldrei.
Jónas lést 9. þessa mánaðar, á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann var ókvæntur og barnlaus.
III
Og nú er þessi gleðigjafi og mikli karakter horfinn á braut, farinn þann veg sem við öll munum eitt sinn ganga, æviskeið hans er fullnað á þessari jörð, hann kominn yfir brúna miklu, eða höfnina síðustu, allt eftir hvernig á það er litið, í faðm liðinna ástvina, og hans bíður nú önnur tilvist, ný ævintýri, annars staðar. Í Sumarlandinu.
Það er mikill sjónarsviptir að Jónasi. Skarð hans verður aldrei fyllt. Og byggðin okkar er stórum fátækari nú en áður. En minningin um þennan góða dreng mun lifa hér við ysta haf ókominn tíma, það er á hreinu.
Fari hann í friði, friður Guðs hann blessi, og hafi hann þökk fyrir allt og allt.