Margar gamlar í syrpu: Árgangur 1955 í blóma lífsins

Þriðjudagur 23. ágúst 2005 -  Ekki man ég (sk) hvað leikritið hét, eða útá hvað það gekk, en myndasyrpa sú sem hér fylgir segir þó eitthvað. Þar má sjá marga efnilega leikara, þó svo þeir hafi kosið (sennilega allir) að leika á öðrum vettvangi en á sviði þar sem seldur er aðgangur. 

Viðbót: --  Sæll Steingrímur. Datt í hug að senda þér smá leiðréttingu og viðbótarupplýsingar. 

Leikritið sem árgangur 1955 sýndi um vorið 1972 hét Æðikollurinn og þar vann Ingi Hauks rafvirki sannkallaðan leiksigur og fór vægast sagt á kostum. Leikritið er mikill farsi þar sem allir hlutir gerast fyrir tóman misskilning og mikið gengur á allan tímann. Á 1. myndinni eru Þórhallur Ben, Fríða Birna, leikstjórinn Jónas Tryggva, Ingi Hauks, Kittý Jóns og sá sem þetta sendir á endanum. Ég man eftir því að á frumsýningunni hafði okkur láðist að hella upp á könnuna fyrir leikstjórann en það var víst hefð fyrir því og var hann ekki ánægður með það. - Kveðja Leó.