Tengt Siglufirði
Með stórveislu, skemmtiatriðum og dansleik að því loknu í boði KS.
Eins og áður hefur komið fram hér á vef mínum, þá er ég enginn sérstakur fótboltaunnandi, þó svo ég hafa nokkrum sinnum skroppið á "völlinn" til að taka myndir.
Ég kynntist því nokkuð svona í framhjáhaldi, í vinnunni forðum, þeirri elju, áhuga og fórnfýsi sem sumir hafa fært í tengslum við fótbolta af fyrrverandi starfsfélaga og yfirmanni mínum á Lager SR, sem vann baki brotnu öllum sínum frístundum og stundum lengur, í þágu KS. En þar á ég við vin minn Ingibjörn Jóhannsson.
Í gærkveldi kynntist ég enn einu merki um þann félagsanda sem er á meðal þessara drengja og stúlkna, á öllum aldri, nokkru sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir áður. Þeir nefnilega gera ýmislegt annað en að hlaupa á eftir einhverri tuðru eins og mér hefur verið tamt að nefna fótboltann. Þetta eru nefnilega kátir félagar sem kunna að skemmta sjálfum sér og öðrum í leiðinni með miklum félagsanda.
Ég þakka fyrir frábært kvöld frábæra skemmtun og frábærar veitingar, og eins og Bjarni Box sagði; "þetta er glæpsamlega gott" -- Sunnudagur 18. september 2005 Frá: Fréttavefurinn Lífið á Sigló