Sjúkralyfta afhent Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði

Föstudagur 2. desember 2005 -- Fréttavefurinn Lífið á Sigló

Myndir hér neðar voru teknar í tilefni af afhendingu á sjúkralyftu sem notuð verður til að lyfta fötluðu og veikburða fólki upp í litla æfingarsundlaug sem staðsett er í Þjálfunarstöð sjúklinga á neðri hæð HeilbrigðisstofnunSiglufjarðar.

Afhendingin fór fram 1. desember 2005 

Fyrir nokkrum árum barst það í tal hjá Sjálfsbjörg á Siglufirði, að félagar ættu að stefna að því að kaupa lyftubúnað fyrir æfingarlaugina hjá Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar.

Leitað var eftir tilboðum í slíkan grip, sem reyndist allt of stór biti fyrir jafn litla félagsheild sem Sjálfsbjörg á Siglufirði.

Þá datt þeim í hug að leita ráða hjá Jóni Dýrfjörð, sem þá var hættur störfum og hafði selt verkstæði sitt og "lagst í helgan stein" eins og það er kallað þegar menn eru komnir á háan aldur. Jón á fatlaða dóttur og þekkti því vel þörfina fyrir slíkan búnað og hafði að auki starfað í Svæðisstjórn fatlaðra.

Hann sagðist skyldi kanna málið. - Nokkru síðar hafði hann samband við formann félagsins Valey Jónasdóttur og spurði hvort hann mætti ekki reyna að smíða lyftuna. Og það varð úr, Jóni var afhent málið sem lét hendur standa fram úr ermum og smíðaði lyftuna sem í gær 1. desember var formlega afhent Sjálfsbjörg og stuðningsaðila Kvenfélaginu Von, en félögin höfðu greitt allan útlagðan kostnað.

Jón smíðaði gripinn heima í bílskúr sínum og fór létt með það. Þar hefur hann allan búnað og þekkingu eftir áratuga starf sem vélsmíðameistari á verkstæði sínu fyrrverandi JE-Vélaverkstæði.

Hann sagði við afhendinguna að fjölmargir söluaðilar hráefnis hefðu slegið stórlega af raunvirði efnis og ýmiskonar fylgibúnaðar, dælubúnaðar og fleiru. Búnaðurinn hefur fengið löggildingu samkvæmt Evrópustaðli.

Þessu öllu fylgdu nákvæmar leiðbeiningar og saga smíðinnar í orði og myndum.

Og ekki ætti að þurfa að geta þess að öll vinna Jóns við smíðina- og þolinmæði Erlu Eymundsdóttur konu hans vegna fjarveru bóndans við smíðina, var gefin af heilum hug.

Jóni og konu hans voru færð smáglaðningur í þakklætisskyni

Á eftir þessu afhenti Valey fyrir hönd Sjálfsbjargar og Kvenfélagsins Von, Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar lyftuna til eignar. Forstjóri stofnunarinnar Konráð Baldvinsson, tók með þakklæti við hinni höfðinglegu gjöf.

Síðan var viðstöddum boðið upp á kaffi og meðlæti.