Snjóflóðasvæðið þar sem stórt snjóflóð fór yfir mannvirki hitaveitunnar í Skútudal. 17. febrúar 2006

augardagur 18. febrúar 2006 -- Fréttavefurinn Lífið á Sigló

Nánar af snjóflóðinu. Mikil snjóflóð féllu í gærkveldi og nótt í austanverðum Skútudal. Klukkan 23.59 (17. febr.) fengu starfsmenn Rarik boð frá senditæki á hitaveitusvæðinu um að eitthvað óvenjulegt væri á seyði. Þeir brugðu skjótt við og fóru á vélsleða fram eftir og blasti þá við þeim mikið snjóflóð sem fallið hafði yfir öll mannvirki hitaveitunnar nema spennistöðvarhúsið sem stendur nyrst. 

Héldu þeir heim við svo búið og ákváðu að bíða birtingar með frekari aðgerðir. Í morgun komu svo í ljós mjög víðáttumikil snjóflóð sem fallið höfðu nánast af öllum fjallabrúnum frá Skollaskál og suður að Móskógarhnjúk, fremst í Skútudal. Um er að ræða flekahlaup og ætla má að brotalínur þeirra séu um 5-6 km. langar.

Þarna hefur nýsnævi, um 50-100 sm þykkt, runnið á harðfenni í miklum bratta og stöðvast víðast hvar á skálarbrúnum en náð niður í dalinn á svæði hitaveitunnar og þar suður af. 
Krafturinn svo mikill að tvær tungur hafa skotist nokkuð upp í hlíð Hólshyrnu vestan Skútuár. Úr Hólshyrnu féllu einnig snjóflóð úr tveimur stærstu giljunum til austurs ofan í dalinn. Í allan dag hafa starfsmenn Rarik verið þarna að störfum með aðstoð snjótroðara skíðasvæðisins í Skarðsdal. 
Af þeirri ástæðu og hugsanlegri snjóflóðahættu hefur verið lokað í Skarðsdal í dag.  Myndir teknar á svæðinu um hádegisbilið eru hérna á tenglinum.  - Myndirnar teknar 18. febrúar